Furstadæmið Dubai er orðinn vinsæll áfangastaður meðal ferðamanna á leið sinni til Austurlanda fjær. Margir ákveða hins vegar að millilenda og halda sig einungis innan veggja flugvallarins, vegna ótta við menningu Mið-Austurlandanna. Dubai er hins vegar ansi frjálslegt samanborið við önnur nágrannaríki t.d. Saudi-Arabíu. Hér þarftu ekki að hylja hár sem kona eða ganga um í víðum fötum á ströndinni…bikíníð gamla er gott og gilt! Einnig er áfengissala leyfileg á hótelum fyrir þá bjórþyrstu.

Horft yfir höfnina í Dubai sem var byggð af mönnum

Borgin er himnaríki fyrir þá verslunarglöðu, en hér er sennilega mesta úrval vöru- og fatamerkja í heiminum, bæði frá Ameríku og Evrópu. Hins vegar er Dubai ein dýrasta borg í heimi og margir hræðist því að ferðast þangað. Það eru þó ótal möguleikar til að ferðast þar um án þess að veskið blæði…

1)    Leigubílar eru á sanngjörnu verði og nota alltaf mælinn án undantekningar (og því minni líkur á svindlurum) 

2)    Lestarkerfið er hagkvæmt og liggur straumlínulega í gegnum borgina líkt og í framtíðarbíómynd.

3)    Innan um Shake Shack og Cheescake factory finnuru ódýra veitingstaði sem verkamennirnir borða. Mæli sérstaklega með Appa Kadai sem er vinsæl indversk veitingastaðakeðja. Þar færðu gómsætt Tikka Masala og Naan á 300-600 kr.

4)    Að lokum mæli ég sterklega með að því að nýta mér ókeypis gistimöguleika á www.couchsurfing.org. Þar finnuru samfélag fólks sem hefur áhuga á að kynnast fólki um allan heim og er að launum tilbúið að hýsa þig ókeypis.

En um hvað snýst Couchsurfing?

Couchsurfing er samfélag fólks sem nýtur þess að fá gesti í heimsókn og hýsa ferðamenn ókeypis. Ekki er krafa um að þú gerir slíkt hið sama í þínu heimalandi, en þó er vel séð að launa greiðann áfram (pay it forward).

“Sófinn” sjálfur getur verið afar mismunandi milli gestgjafa. Sumir bjóða þér stórt og gott rúm í einkaherbergi, aðrir gefa þér dýnu til að sofa á í stofunni, meðan sumir standa undir nafni vefsíðunar og leyfa þér að detta á sófann. Á mínu mánaðar ferðalagi um Íran komst ég alveg hjá hótelkostnaði með hjálp couchsurfing, hvar á landinu sem ég var, en sum lönd eru virkari en önnur á vefsíðunni.

Ég komst að því að couchsurfing samfélagið er afar virkt í Dubai (alls um 13.000 gestgjafar skráðir), sérstaklega meðal erlendra vinnu- og viðskiptamanna, en þeir eru um 85% af íbúum furstadæmisins. Ég dvaldi meðal fimm mismunandi gestgjafa, hver öðrum ólíkari, en þrír þeirra voru Indverjar sem höfðu sest hér að vegna atvinnutækifæra. Ólíktum mörgum öðrum löndum þar sem ég hef flakkað milli sófa, þá bjuggu flestir í Dubai við mikinn lúxus og stundum var gistingin sambærileg á við 5 stjörnu lúxus hótel. Fyrsti gestgjafinn bauð mér og kærasta mínum að vera í íbúð sinni á 47. hæð í Cayen turninum, betur þekktur sem Twisting Tower, sem stendur við Dubai Marina, eitt eftirsóttasta svæðið í Dubai. Við trúðum varla okkar eigin augum! Við vorum sótt á glænýjum Porsche á flugvöllinn og héldum í fyrstu að gestgjafinn væri að grínast þegar hann benti á þennan glæsta turn sem snýst heilar 90° frá toppi til táar og sagði: ohh, and yes we live up there.

Í lúxus íbúð í hæstu byggingu heims

 Einn af gestgjöfunum bjó í frægu “Twisting Tower” byggingunni – Útsýni frá svölunum og sundlauginni

Annar gestgjafinn bjó hvorki meira né minna en í stærstu byggingu heims, Burj Kahlifa. Hann vann fyrir eitt af stærstu fataframleiðendafyrirtækjum heims og kvaðst vera með um 25 þús. undirmenn. Hann bjó þó sjálfur ekki í turninum heldur sagði okkur að sú íbúð væri oftast tóm og aðallega notuð fyrir gesti frá couchsurfing. Benti hann út um 3 metra stofugluggann á stóra höll í fjarska og sagði: this is where I usually live.

Alls ekki slæmt útsýni úr heita pottinum – hæsta bygging heims – Burj Khalifa

Ég meina, hversu ríkur er eiginlega hægt að vera? Aðspurður sagðist hann nota couchsurfing til þess að kynnast venjulegu fólki. Ætli hann hafi ekki verið orðin einmanna í kringum yfirborðslæg og innantóm samskipti sem einkenna oft lífstíl ríka fólksins.

Með Burj Khalifa í baksýn og “standard” farartæki í þessari háklassa borg

Aðrir gestgjafar bjuggu þó ekki við alveg eins mikinn lúxus, en á móti voru þeir oft líka skemmtilegri og áhugaverðari týpur. Margir þeirra keyrðu okkur um, sýndu okkur helstu staði borgarinnar, og kynntu okkur fyrir uppáhalds veitingastaðnum sínum. Ég mæli því eindregið með því að fletta upp á vefsíðunni ef ykkur langar til þess að lenda í ævintýrum og upplifa hvernig það er að búa í Dubai, fá ráð heimamanna en á sama tíma sleppa við allan gistkostnað.

Kauptu þér frekar einn auka Mojito! 😉

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.