Eins og kom fram í færslunni um Strandirnar hef ég tekið saman mína uppáhalds staði og þessa klassísku á svæðinu sem allir verða að skoða og sett saman í fjórar færslur. Ég lagði áherslu á sameginlegt áhugamál okkar landsmanna, heitar laugar og punktaði niður ágætis hugmyndir fyrir þá sem hafa hugsað sér að keyra vestfirði núna í lok sumars eða jafnvel næsta sumar.

Ísafjarðardjúp gleymist oft þegar að ferðalag um vestfirði er planað. En svæðið leynir svo sannarlega á sér. Þar er svo aldeilist hægt að gera einnar nætur pitstop á ferðalagi sínu um vestfirði, hvort sem það er á hóteli, gistiheimili, hosteli eða í tjaldi.

HÓTEL REYKJANES

Hótel Reykjanes er gamall heimavistarskóli sem búið er að útbúa sem hótel & hostel. Þar er að finna stærsta heitapott landsins! Það eru fá skiptin sem ég hef sleppt því að dýfa mér í laugina á vesturleiðinni en það er fastur liður á ferðalögum vestur (svo fastur liður að ég hef varla tekið eina einustu mynd af lauginni!). Laugin er heitari og dýpri í annann endann en það er búið að útbúa bekki við grynnri endann. Það kostar einhverja hundrað kalla að fara í laugina og er borgað inni á hótelinu. Þar er svo hægt að fá sér að borða og þar er gisting á hostelinu alls ekki dýr. Þar er líka lítill sveitaflugvöllur svo fyrir flugmenn er fullkomið að skottast í Reykjanesið í sund og löns.
Einnig er hægt að leigja þarna lítla íbúð sem fylgir hótelinu og vera í lengri tíma og tjaldstæði er fyrir utan hótelið.

HEYDALUR

Í botni mjóafjarðar er að finna Heydal, hótel og tjaldsvæði. Þar er mikið af allskyns afþreygingu í boði hvort sem það eru hesta- eða kayakferðir og ýmsar flottar gönguleiðir eru allt í kring. Eftir frábæran dag í náttúrunni er síðan snilldin ein að geta hent sér í sund í hvaða veðri sem er þar sem að Heydalur hefur að geyma krúttlegustu sundlaug landsins en hún er byggð inní einhverskonar gróðurhúsi. Þar er nauðsynlegt að koma við á ferðalagi vestur. Fyrir utan laugina eru svo heitir pottar. Laugin og pottarnir tilheyra hótelinu í Heydal og eru ókeypis fyrir gesti hótelsins hvort sem það eru nætur- eða matargestir en fyrir utan gistingu hafa þau uppá ágætis matseðil að bjóða.

Fékk þessa mynd senda frá yndislega fólkinu sem rekur Heydal þar sem ég átti enga sjálf.

LITLI BÆR

Er gamall uppgerður torfbær staðsettur í sunnanverðum Skötufirði. Þangað finnst mér alltaf skemmtilegt að fara og fá mér kaffi og vöfflur þar sem að langa-langa-amma mín var fædd og uppalin í bænum. Þar bjó fjölskyldan hennar ásamt annarri í þessum litla bæ, sem að stendur algjörlega undir nafni. Húsið var gert upp um 1999 og hefur fjölskyldan á Hvítanesi séð um rekstur safnsins síðan og selja þar kaffi og meðþví. Ef það er einhverstaðar staður og stund fyrir heimagerðar vöfflur með rabarbarasultu og rjóma er það þarna!
Úti á Hvítanesi er síðan ekki ólíklegt að sjá seli en þarna er einhverskonar hvíldarstaður þeirra. Ég hef stundum séð glytta í kassa með kíkjum sem að mig grunar að bóndinn á svæðinu setji út á bekk þegar að vel liggur á selunum. Þar er líka lítil serve-yourself búð þar sem eru fáanlegar heimagerðar sultur og annað beint frá býli. Yndislegur staður.

 

 

SÚÐAVÍK

Súðavík virðist líka oft gleymast en þessi dásamlegi kaupstaður á alveg skilið stopp. Íbúar bæjarins leggja mikið uppúr að bærinn og húsin líti vel út og mér líður alltaf eins og ég sé komin inn á sett hjá Desperate housewives þegar ég rölti um götur Súðavíkur. Tvær byggðir eru í bænum – gamla og nýja. Í gömlu byggðinni er ekki leyfilegt að búa yfir vetrartímann vegna snjóflóðahættu og eru því aðeins sumarhús í þeim heilming kaupstaðarins. Eftir að snjóflóð féll á Súðavík árið 1995 var byggðin flutt og er því öll íbúðarhús innar í firðinum. Minningarreitur hefur verið gerð fyrir fórnarlömb snjóflóðsins og er hann fyrir neðan Raggagarð sem er skemmtilegur fjölskyldugarður. Í Súðavík er líka fræðslusetur um íslenska refinn – Melrakkasetrið  og er alveg nauðsynlegt að gera sér ferð þangað og fá sér kaffi á eftir á Rebbakaffi.

ÍSAFJÖRÐUR

Ég er nú reyndar ekki hlutlaus en Ísafjörður er fallegasti bær í heimi. Gamlabakaríið skal ávalt vera fyrsta stopp – fáðu þér kringlu, kókómjólk og kókoslengju. Flippuðu týpurnar fá sér samt alltaf þrennt í bakaríinu. Tjaldsvæðið á Ísafirði sem er staðsett inni í skógji er alveg extra dásamlegt, inn á milli trjáa og við Brunfoss. Naustahvilft eða skálin fyrir ofan flugvöllinn er fullkomin klukkutíma afþreyging þar sem auðvelt er að rölta þangað upp og horfa yfir bæinn. Svo er enginn maður með mönnum nema að hafa borðað á Tjöruhúsinu en í hádeginu á sumrin er hægt að fá all you can eat hlaðborð fyrir 2500 en börn borða frítt – fiskur á heimsmælikvarða, mundu bara að panta borð. Kíktu við í Bræðraborg og fáðu þér kaffi og inspiration fyrir komandi ferðalag. Húsið, gistiheimili og bistro er staðsett alveg í hjarta bæjarins, þar er að finna heimamenn í bland við ferðamenn að gæla sér á einum köldum bjölla.

 

BOLAFJALL, ÓSVÖR

Bolafjall – fjallið með sturlaða útsýnið sem vakir yfir Bolungarvík . Á góðviðrisdögum segja heimamenn að það sé hægt að sjá allaleið yfir til Grænlands. Vegurinn upp getur verið erfiður, brattur og þröngur (ekki fyrir lofthrædda!) en útsýnið fær 12 af 10 mögulegum. Þar svo klassískur instagram-myndasteinn, þótt það sé bannað að fara á hann er eginlega ekki hægt að fara þarna upp nema að taka eina deardevil mynd af sér á steininum. Áður en göngin voru gerð á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur var Óshlíðin eini vegurinn þarna á milli, hættulegur vegur sem hefur næstum lagt allur í eyði á þessum fáu árum sem að göngin hafa verið í notkun. Við enda Óshlíðar, Bolungarvíkur megin er síðan Ósvör, skemmtilegt minjasafn um gamla tímann sem er áhugavert að skoða. Þar er líka brjálað útsýni yfir bæinn og ölduganginn á ströndinni.

ÍRIS 

instagram

 

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.