Vestfirðir er sá hluti Íslands sem ég þekki hvað best. Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og hef því oftar en ekki keyrt djúpið til að fara í berjamó eða til þess að fara suður til Reykjavíkur – nú eða í öfuga átt eftir að ég flutti þaðan. 
Frá Ísafirði er líka auðvelt að komast í útilegur og hef ég því eytt ófáum nóttum hér og þar um alla vestfirði. 
Vestfirðir hafa verið vel geymt leyndarmál síðustu ár en ferðamenn virðast vera að uppgötva hina vestfirsku paradís og sjá heimamenn mun ár frá ári á fjölda ferðamanna – meira að segja lúpínan er ný búin að uppgötva vestfirði. 

Fyrir utan Hornstrandir, sem eru efni í aðra bloggfærslu útaf fyrir sig [HÉR má lesa um gönguferð Elínar á Hornstrandir],  eru vestfirðir tiltörulega auðveldir heim að sækja, að sumri til þ.e.a.s. en vegirnir geta verið erfiðir og jafnvel lokaðir yfir vetrartímann.

Ég hef tekið saman mína uppáhalds staði og þessa klassísku sem allir verða að skoða og sett saman í fjórar færslur sem ég mun birta næstu daga. Ég lagði áherslu á sameginlegt áhugamál okkar landsmanna, heitar laugar og punktaði niður ágætis hugmyndir fyrir þá sem hafa hugsað sér að keyra vestfirði núna í lok sumars eða jafnvel næsta sumar.

HÓLMAVÍK

Hjá mörgum er Hólmavík bara staður til að rétt taka bensín og pissa en á bakvið mosavaxna klettana leynist þessi líka fallegi bær.
Þar er að finna Galdrasafnið sem er virkilega áhugavert safn og skemmtilegt að skoða og fræðast um nornaveiðar strandarbúa á 17 öldinni svo er mikilvægt að fá sér súpu á eftir á Restaurant Galdri. Café Riis er líka huggulegur staður í víkingastíl sem býður upp á pizzur, pastarétti og fisk. Sundlaugin í bænum er tiltörulega ný og flott svo það er snilld að skella sér í sund á Hólmavík ef engin önnur sundplön eru í kortunum.

DRANGSNES & BJARNARFJÖRÐUR

Um 40 mínútna keyrsla er frá Hólmavík og að Drangsnesi, 50-60 manna bæ þar sem er búið að útbúa litla potta niður við sjóinn sem kostar ekkert að fara í (en þar er samt baukur við skiptiklefana sem hægt er að leggja fráls framlög í – sem við að sjálfsögðu gerum alltaf!). Bærinn er sjarmerandi og vinalegur. Stutt frá Drangsnesi er síðan Bjarnarfjörður þar sem Grettislaug er að finna, en bannað er samt að fara í þá laug. Þaðan er samt stutt t í Hótel Laugarhól, sveitahótel með gamalli sundlaug sem búið er að gera upp.

Pottarnir í Drangsnesi

 

Grettislaug

DJÚPAVÍK

Topp 3 staðir sem ég hef heimsótt á Íslandi. Andrúmsloftið þar er einfaldlega afslappaðra þar en annarsstaðar! Eigendur Hótelsins eru einu íbúar staðarins sem búa þar allt árið um kring (harkan!). Það er svo agalega heimilislegt og kósý að koma við á hótelinu og fá sér heimagerða súpu og hjónabandsælu en oft er kökuhlaðborð á boðstólnum og alltaf heimagerð súpa. Fyrir ofan þorpið er fossinn Eiðrofi sem er skemmtilegur foss að mála, ljósmynda eða ganga upp að og njóta. Mikið af gönguleiðum eru út frá Hótelinu og er því sniðugt að stoppa þar í nokkra daga til að fara í gönguferðir um svæðið.
Í Djúpuvík var eitt sinn stærsta síldarvinnslustöð Íslands en búið er að breyta henni í sögusafn um gamla tímann og listagallerí en Djúpavík er afar vinsæll áningastaður meðal listamanna og oft eru haldnar sýningar í síldarvinnslustöðinni. Ef það er einn staður á norðanverðum vestfjörðum sem þú verður að heimsækja er það Djúpavík – og ef þú ert að fara strandirnar á annað borð, taktu þér auka tíma í að fara alla leið.

Mynd: djupavik.is – Takið eftir strandaða skipinu í til hægri.

 

NORÐURFJÖRÐUR – KROSSNESLAUG

Norðurfjörður er skemmtilegur að keyra í gegnum á leið í Krossneslaug. Steinsteypt laugin er staðsett alveg við fjöruborðið með útsýni yfir Húnaflóann. Allt í kring eru grófir steinar í fjörunni, rekaviður og hár öldugangur. Mig minnir að það kosti um 500kr í laugina en þegar enginn er til að taka við greiðslu er hægt að setja aðgangseyrinn í bauk við hurðina. Laugin getur virkað dálítið yfirþyrmandi fyrst en er draumum líkast þegar að komið er í laugina og oft má sjá seli baða sig í heita vatninu sem lekur úr lauginni og hitar upp sjóinn við ströndina.

Vegur endar. Vegalengdin er um 110 km og að mestu malarvegur og getur verið þröngur á köflum og er því gott að reikna með smá lengri tíma í þetta ferðalag.

ÍRIS

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.