Ég bjó með fjölskyldu minni á Balí í um hálft ár í fæðingarorlofinu okkar árið 2017. Við fórum út nokkrum dögum í 3ja mánaða afmæli Esjars og með 10 ára dóttir okkar með. Við fórum mjög fljótlega að sjá að líf okkar með Esjar og líf foreldra með ungbörn á Balí eru mjög ólík.

Hér má lesa um ferðalag okkar þangað: Ferðalag með ungbarn til Balí!

Fylgjan sett í kókoshnetu og grafin

Á Balí eru um 90% íbúa Balí – hindúatrúar. Smkvæmt því þarf barnið að gangast undir þónokkrar vígslur með guðum sínum á fyrsta ári ævi sinnar. Hér er litið er á börn sem heilög og talið að þar sé um að ræða látinn ættingja að endurfæðast.
Fyrsta athöfnin í lífi ungbarns á Balí á sér stað í móðurkviði, í kringum sjö mánaða meðgöngu. Þá er framkvæmd blessuanrathöfn þar sem beðið er fyrir góðri og vel heppnaðri fæðingu og góðri heilsu barnsins.
Þegar barnið fæðist er fylgjan þrifin og sett inn í kókoshnetu, hún vafin inn í hvítann klút og síðan grafin við hlið heimilisins. Hægra megin við innganginn ef um dreng er að ræða, en vinstra megin ef barnið er stúlka. Balíbúar líta svo á að fylgjan sé systkini og fjölskylda barns síðan í móðurkviði sem meigi ekki henda.

Móðir talin óhrein í 42 daga

Vígsla er haldin 42 dögum eftir fæðingu til að tryggja að þroski barns þróist óhindrað. Eftir þessa athöfn hefur móðirin fengið leyfi til að snúa aftur að venjulegum störfum á heimilinu, hún má nú yfirgefa heimili sitt og sækja athafnir í musteri sem og taka þátt í bænum. Fyrr má hún ekki sækja neina heilaga staði sökum þess að hún er talin óhrein eftir fæðingu barnsins. Hún þarf því að gangast undir litla hreinsunarathöfn áður en hún fer inn í musteri. Við fæðingu barns hjálpast allir þorpsbúar við að sinna heimilisstörfum heimilisins og sinna öðrum börnum á heimilinu á meðan móðirin jafnar sig.

Nöfn ungbarna á Balí valin eftir fæðingarröð og brenndu laufblaði

Þegar 105 dagar eru liðnir frá fæðingu barns er stærsta vígslan haldin, sem kallast Nyabutan. En það er þá sem sál barna er talin tengjast líkamanum. Fram að því er litið svo á að sál þeirra tilheyri enn guðunum og sé varðveitt af 108 öndunum. En í umhverfi eins og Balí, þar sem ungbarnadauði er algengur, er því trúað að sálin hafi ekki tengst líkama barnsins fyrr og sé því fær um að yfirgefa hann ef barninu er ekki sýnd ómæld virðing og góðmennska. Með þessari vígslu er barnið boðið velkomið í heiminn og því gefið skart sem hefur verið blessað í formi eyrnalokka, ökklabands eða armbands. Haldin er hreinsunarathöfn og andarnir 108 kvaddir og þeim þakkað fyrir að hafa verndað barnið fram að þessu. Hár barnsins er klippt af þar sem það er talið óhreint eftir fæðing og barninu er gefið nafn.
Á Balí hafa foreldrarnir þó ekki lokaákvörðun um nafn barnsins. Nokkur nöfn eru skrifuð á laufblöð sem er komið fyrir ofan við eld og það laufblað sem brennur fyrst ákvarðar nafn barnsins. Þetta nafn mun þó koma aftan við hin hefðbundnu nöfn sem allir Balibúar bera. Hér fær fyrsta barn foreldra nafnið Wayan, annað barn nafnið Made, þriðja barn nafnið Nyoman og fjórða barnið nafnið Ketut. Ef foreldrar eignast fimmta barnið eða fleiri byrjar röðin upp á nýtt. Til að skilgreina síðan hvort um stúlka eða dreng ræðir fá stúlkurnar Ni fyrir framan og drengirnir I. Því gæti fyrsti drengur heitið til dæmis I Wyan Adi Putra, Adi verandi þá nafnið af laufblaðinu og Putra ættarnafnið.
Eftir þessa athöfn má barnið snerta jörðina í fyrsta sinn. Þar sem jörðin er talin óhrein má barnið ekki koma við hana fyrr og hafa fjölskyldumeðlimir haldið á barninu fram að þessu eða það legið í rúmi. Það er því sett niður á jörðina í fyrsta sinn við þessa athöfn. Þarna hafa þau í raun verið í fangi ástvina sinna fyrstu 105 daga lífsins. En einnig hefur því verið varpað fram að það sé ástæða þess að balísk börn skríða ekki í jafn miklu mæli og önnur börn.

Ungbörn á Balí er ávallt í umsjón ástvina

Fyrsta afmæli barnsins er haldið hátíðlega 210 dögum eftir fæðingu og mun það síðan eiga afmæli á sex mánaða fresti. Nú má það mæta í musteri og á aðra heilaga staði og er talið fullgildur meðlimur samfélagsins. En fram að þessu hefur það ekki farið af heimilinu. Allar þessar vígslur eru til að hreinsa barnið af öllum óhreinleika sem fæðingin skildi eftir sig og einnig allar syndir úr fyrra lífi.

Þegar kona gengur með barn á Balí hefur hún rétt á því að fara í fæðingarorlof mánuði fyrir settann dag. Síðan á hún rétt á því að vera heima í 3 mánuði eftir fæðingu. Hún fær þó einungis greiddan hluta launa sinna á þessum tíma ef hún vinnur hjá ríkinu eða öðrum viðurkenndum stofnunum. Faðirinn á aftur á móti ekki rétt á neinu orlofi. Þegar móðirin heldur síðan aftur út á vinnumarkaðinn er það einhver úr fjölskyldunni, oftast nær amman og afinn, sem annast barnið. En þar eru engir leikskólar, heldur er barnið í umsjá fjölskyldunnar þar til það sest á skólabekk. Balíbúar trúa því að umsjá barnsins eigi ekki að vera í höndum ókunnugra, heldur annarra fjölskyldumeðlima sem þekkja það vel. Ef móðirin vinnur þannig vinnu, að barnið geti verið með yfir daginn, má sjá lítil brúneygð og skælbrosandi börn einhversstaðar mjög nálægt henni. Á Balí er mjög algengt að vera með sinn eigin rekstur í formi verslunar, veitingastaða eða handverskgerðar. Það er þá nánast algilt að sjá barnahorn með dýnu og leikföngum í einu horninu og nokkur börn sem aðstoða foreldrana með reksturinn.

Trúa því að þú eigir að bera barn við hjartastað

Á Balí sérðu ekki börn í kerrum eða vögnum, en balíbúar trúa því að þú eigir að bera börnin hjá þér við hjartastað, en ekki ýta þeim frá þér. Þau eru því í fangi fólks eða í pokum framan á foreldrum sínum.
Balíbúar eru einnig ekki jafn uppteknir af stærð og vexti barna í sentímetrum. Þau eru einungis mæld við fæðingu og síðan ekkert meir. Í raun er enginn balíbúi mældur þar sem það er talið boða ógæfu að mæla fólk líkt og gert er þegar mælt er fyrir kistu við dauðsfall.

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.