Þú sérð heiminn, prófar nýja hluti, hittir nýtt fólk, verður ástfangin/nn, heimsækir magnaða staði, fræðist um aðra menningarheima – svo – í einu andvarpi – er allt búið.
Fólk talar alltaf um brottfarir, en hvað með heimkomur? Hvað þýðir það fyrir okkur ferðalangana að snúa aftur heim?

Við tölum um erfiðleikana þegar við erum í burtu: finna vinnu, eignast alvöru vini, finna fyrir öryggi, læra ný félagsleg norm, vera svikin – allt eru þetta upplifanir sem maður kemst í gegnum. Lægðir eru þurrkaðar úr minninu með trylltum hæðum sem þú upplifir. Þrungnar kveðjustundirnar sem þú veist að eru alltaf á næsta leyti, sérstaklega þegar þú loksins ákveður að festa kaup á flugmiða sem kemur þér heim. Kveðjustundirnar þrungnu eru stungnar undir teppið er þú hittir fjölskyldu og vini þína á ný, mynd sem þú hefur málað í huga þínum alveg síðan þú kvaddir þau síðast á Leifsstöð.

Svo snýrðu heim og hittir alla á ný – eyðir fyrstu tveimur vikunum í faðmlagi fjölskyldu og vina, rifjar upp og segir sögur… Þú ert ALGJÖR HETJA fyrstu vikurnar eftir heimkomu og allt er nýtt og spennandi. Svo einhvernvegin, hægt og rólega hverfur allt. Allir venjast heimkomu þinni, og nærvera þín hættir að vera spennandi. Svo byrjar spurningaflóðið:

“Jææææja, ertu komin með vinnu?”
“Hvað er síðan planið?”
“Ertu að hitta einhvern?”

Þú upplifir reiði. Þú upplifir eymd. Þú átt augnablik þar sem þér finnst eins og ekkert af því sem þú gerðir hafi verið þess virði af því að ekkert hefur breyst…

Það sorglega er að eftir að hafa skoðað heiminn og upplifað nýja hluti í ár (eða lengri tíma); situr þú inni í herbergi barnæsku þinnar og fattar að ekkert hefur breyst. Þú ert ánægð/ur að allir séu við góða heilsu, eru hamingjusamir, hafa fengið nýja vinnu, eignast maka, trúlofast og/eða eignast börn… en innra með þér er rödd sem öskrar: “Takið þið ekkert eftir því hversu breytt ég er?!”. Hvernig draumar þínir hafa tekið nýja stefnu, hvernig þú horfir á fólk á allt annan hátt, ávanar sem þú ert fegin/nn að vera blessunarlega laus við, ný málefni sem skipta þig máli, ný lífssýn. Þú þráir að fólk taki eftir þessari breytingu sem hefur átt sér stað innra með þér, og þig langar að ræða hana og deila henni með öðrum. En það er engin leið að lýsa því hvernig sál þín hefur þroskast eftir að hafa skilið allt sem þú þekktir eftir, neytt heilann þinn til fullrar vinnu, alvöru vinnu, og uppskorið gáfur sem ekki fást gefnar úr skólabók. Þú veist þú hugsar öðruvísi vegna þess að þú upplifir það á hverjum degi innra með þér, en hvernig deilir þú þessari uppskeru með öðrum?

Þú upplifir reiði. Þú upplifir eymd. Þú átt augnablik þar sem þér finnst eins og ekkert af því sem þú gerðir hafi verið þess virði af því að ekkert hefur breyst, en síðan finnst þér eins og ekkert annað sem þú hefur gert í lífi þínu hafi meira gildi en akkúrat það sem þú hefur gert, vegna þess að það hefur breytt öllu. Hver er þá meiningin á bakvið þessa hlið, þ.e.a.s þeirrar að ferðast? Hún svipar til þess að læra nýtt tungumál sem enginn skilur, tungumál sem getur ekki miðlað því áfram hvernig þér líður í raun og veru.

Einu sinni farfugl, ávallt farfugl. Þau kalla fyrirbærið ferðabakteríu. Í raun og veru erum við farfuglarnir að snúa til okkar eigin heima; við viljum umkringjast fuglum sem tala okkar tungumál. Sú tunga er ekki íslenska, enska eða spænska, heldur er það tunga ferðalangsins. Þeir sem tala okkar mál skilja meiningu kveðjustunda, breytinga, upplifana og persónulegra vaxta. Þeir skilja manna best þá tilfinningu að finnast maður ókunnugri á sínum eigin heimaslóðum en á ókunnugum slóðum í ókunnugu landi í hinum stóra heimi.

Þetta, kæri lesandi er það erfiðasta við að ferðast: og einmitt ástæða þess að við, farfuglarnir hverfum alltaf aftur út í hinn stóra heim þegar haustar, og snúum að lokum aftur að vori.

Höfundur: Kellie Donnelly
Upprunaleg heimild: http://dametraveler.com/the-hardest-part-of-traveling-no-one-talks-about/

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

2 Responses

 1. loftur asgeirsson

  Hallò Elín…….takk svo mikid fyrir bladavidtalid…..fràbært hvad thú ert vel hugsandi og
  Réttsýn….og sterk kona. Èg kaupi hvert ord í greininni….lífid er ekki einfalt en fólk à
  Ad sýna mun meiri ást og kurteisi hvort ödru…Thú ert íslendingur fæddur….og velkomin
  Í heiminn med öll rèttindi og átt bara….allt thad besta skilid . Àd lokum…gangi thèr vel
  Med ritgerdina…og annad sem thú tekur thér fyrir hendur…..megir thú vel njóta..
  Passa ad fara vel med sig….lífid er bara einu sinni……

  Svara
  • Elín Kristjánsdóttir
   Elín Kristjánsdóttir

   Sæll Loftur,
   Það var lítið og þakka þér kærlega fyrir. Það styrkir mann og gefur manni meðbyr að fá svona skilaboð 🙂
   Lífið er nefnilega bara einmitt núna og því um að gera að nýta tímann vel <3

   Bestu kveðjur og gangi þér sömuleiðis vel í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur,
   Elín

   Svara

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.