Það eru ekki margir flugvellir sem koma til greina þegar að leiðin liggur til Kúbu og virtist Kanada vera auðveldasta og fljótlegasta leiðin þangað. Þar sem að erfitt getur verið að komast frá Bandaríkjunum til Kúbu og okkur fannst flug frá Evrópu vera of langt og óþarfa tímarugl svo Toronto varð fyrir valinu. Við höfðum hvorugt komið til Toronto og kom borgin okkur svo sannarlega á óvart!

Við fundum herbergi í Little Italy hverfinu á airbnb og gistum í gestaherberginu þeirra Bill og Kamal ásamt kúrukisunni þeirra sem ég man ekki hvað heitir. Húsið var á fullkomnum stað og góðu verði – klárlega eitthvað sem við munum nýta okkur næst þegar við förum til Toronto. Við vorum þar í þrjá daga sem var fullkominn tími til að skoða okkur um og læra aðeins á borgina.

Það er hægt að lýsa Toronto sem Kanadískri New York en með örlítið afslappaðra andrúmslofti. Almennt virðist borgin ekki fara í gang fyrr en á milli 10 og 11 sem er ágætis lýsing á hversu afslöppuð og næs borgin er.

 

Mín Toronto Guide Book:

Borða: Einhverra hluta vegna borðuðum við allar kvöldmáltíðir í Little Italy þar sem við gistum. Sennilega því við vorum enn pínu jet lagged og þreytt. Annars virkaði King Street vel á okkur og sáum við hellings af veitingastöðum sem litu vel út og okkur langar að prufa næst þegar við heimsækjum Toronto. Í borginni er líka mikið úrval af grænmetis og vegan stöðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi með lítilli fyrirhöfn.

Það voru tveir staðir sem stóðu algjörlega uppúr að okkar mati og mér finnst óhætt að mæla með: Queen Mother Cafe er dásamlega krúttlegt kaffihús á Queen street West, með leyni verönd á bakvið. Við römbuðum alveg óvart þarna inn og þurftum að fara í gegn um þvílíkt völundarhús til að komast út í bakgarðinn. Við drukkum svalandi ískaffi og heimsins bestu limeostaköku og borguðum ekki mikið fyrir.

Kvöldið fyrir brottför til Kúbu borðuðum við svo bestu pizzu ég hef nokkurn tímann smakkað á Queen Margarita Pizza. Staðurinn sjálfur var mjög svalur og bauð uppá öðruvísi og fallega framreidda kokteila, flottan forréttaseðil og mjög girnilegar pizzur. Þjónustan var síðan alls ekki síðri. Staðurinn sem við fórum á er á Dundas street, rétt hjá íbúðinni okkar í Little Italy en á heimasíðunni þeirra sá ég að það eru tveir aðrir staðir í Toronto.

Brasa: Toronto eyjar (Toronto islands): Við sátum í ferjunni inn á milli fjölda fjölskyldna og helgarpabba og pössuðum ekki beint inn í krádið, en eyjarnar komu okkur svo sannarlega á óvart! Við leigðum okkur tveggja manna tandem hjól og hjóluðum út um allar trissur, skoðuðum litla bæinn sem er á austustu eyjunni og strandirnar sem vísa að Niagra fossum. Snilldar leið til að flýja mannfjöldann i borginni og fá smá sálarró. Á góðum sumardögum er svo hægt að taka með sér sundföt og fara á ströndina. Það tók okkur ca 10 mínútur að komast yfir og við borguðum rétt rúmar 1000kr fyrir okkur tvö, fram og til baka.

Markaðurinn á Distillery district: Staðurinn til að finna allskyns lókal hönnun, native list, öðruvísi búðir og góðan mat. Við fengum okkur hádegismat og loksins gott kaffi! Distillery district er pottþétt eitthvað sem allir list- og menningarunendur á leið til Toronto ættu að skoða.

Kensington Markaðurinn: Er snilld! Hippa hverfi með allskyns skemmtilegum búðum innréttuðum í gömlum íbúðarhúsun. Þar er góð blanda af matar-og ávaxtam örkuðum, vintage búðum og öðruvísi sérbúðum. Það fer alveg heill dagur í að skoða sig um á markaðnum, með góðum kaffi og/eða kokteilstoppum.

OTNOROT torgið: Nathan Phillips Square er eini staðurinn sem þú getur tekið mynd af þér við sem sönnun að þú hafir verið í Toronto. Reyndar er risa stór gosbrunnur fyrir framan svo það er best að taka myndir fyrir aftan skiltið, þá stendur reyndar OTNOROT en það miklu fyndnara hvorteðer.

Eins og í flestum borgum er eitthvað eitt aðdráttarafl sem einkennir borgina, í Toronto er það CN tower sem við að vísu fórum ekki uppí en google segir mér að útsýnið sé 48CAD virði.

Við slepptum viljandi Niagra falls til að komast hjá öllu ferðamanna kraðaki. Við kynntumst síðan tveimur stelpum í Hondúras sem að sögðu okkur að dagur við fossana væri klárlega þess virði svo við munum kíkja þangað næst (en með litlar væntingar ..gullfoss og allt það)

 

Versla: Ég er ekki beint rétta manneskjan í að gefa verslunarráð en í Toronto er úr miklu að velja. Queen Street west er með mikið úrval af allskonar. Því vestar, því meira úrval af lókal, skemmtlegu og einstöku. Við álpuðumst óvart inn í Eaton Center sem er moðerfokkings stórt (afsakið orðbragðið!) moll! Ég mæli með kvíðastillandi áður en farið er inn. En annars er allt krökt af vintage og second hand í borginni. Ég mæli með búðinni Tribal Rhythm eða bara degi í Kensington market.

Transport: Tram! Maður er víst ekki maður með mönnum nema að prufa að fara eins og eina ferð í vintage Toronto tram. Ein ferð kostar um 250kr og er þokkalega auðvelt að taka lestina í allar áttir. Bílstjórarnir svara líka spurningum með glöðu geði sem er ekki sjálfgefið. Eins og í strætó heima er ekki gefið afgang svo passaðu að hafa akkúrat þá upphæð sem að kostar í lesitna. Uber virðist ekki vera búið að ná þeirri hæð sem það hefur í öðrum stórborgum en er svosem til staðar og er auðvelt í notkun eins og allsstaðar annarsstaðar en biðtíminn gæti verið aðeins lengri en venjan er annarsstaðar.

Gista: Okkur líkaði Little Italy vel og mælum með því svæði. Annars ætti að vera næs að gista allsstaðar á milli Little Italy, Little Portugal, Hafnarinnar og gamla bæjarins. Þótt að Toronto virki stór er þokkalega auðvelt að labba næstum hvert sem er og það er akkúrat það sem við gerðum. Það tók okkur ekki nema í mesta lagi hálftíma að komast þangað sem við vildum.

Dæmi um kostnað:

Verð fyrir ekta kanadískan morgunmat (eða brunch) er í kringum 12 CAD
Hádegismatur á ágætis vetingahúsum, 8 til 22 CAD
Kvöldmatur, 20 til 25 CAD
Kaffi, 3 til 5 CAD
Bjór á 3-8 CAD

 

 

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.