Heimshornaflakkarar stunda símenntun alla ævi. Sú menntun fer að mestu fram á ferðalögum en einnig á alnetinu þar sem heimshornaflakkarar verja drjúgum stundum í að reyna uppgötva eitthvað nýtt. Hér tók ég saman af handahófi ýmis ráð um allt milli himins og jarðar sem taka þarf ákvörðun um í aðdraganda ferðalagsins. Ráðleggingarnar eru byggðar á eigin reynslu og skoðunum.

Flugbókun og farangur

Óhjákvæmilegur fylgifiskur ferðafíknar er að þurfa að glíma við það lúxusvandamál að panta sér flug. Reglur flugfélaga eru glæpur gegn mannkyninu sem ber því miður að lesa vel.

 • Ferðastu með eins lítinn farangur og hægt er.
 • Innritaðu þig í flugið á netinu ef þú ferðast eingöngu með handfarangur.
 • Forðastu óþarfa álag og óþægindi sem getur fylgt því að skrá farangur eftir á. Kynntu þér vel handfarangursheimild því hún er mismundandi milli flugfélaga.
 • Sum flugfélög sekta fyrir að innrita sig ekki í flug á netinu.
 • Stærð glæru plastpokana undir snyrtivörur (sem koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir) er sífellt að minnka.
 • Varasamt getur verið að bóka flug í gegnum þriðja aðila. Ef að einhverjum orsökum þarf að breyta flugmiðum getur flækjustigið virst óyfirstíganlegt (t.d. er ekki hægt að breyta miðum hjá Kiwi ef minna en 48 klst. eru í brottför).

Sjá einnig: Að pakka fyrir flug – Góðar töskur í handfarangur

Gisting

Áhugafólk um litasamsetningar og innanstokksmuni tekur oft gleði sína á ný eftir flug(ó)göngurnar þegar leitin mikla að vænlegri gistingu hefst.

 • Yfirleitt fær maður betra verð með því að bóka gistingu beint í gegnum gististaði.
 • Ef um fáar gistinætur er að ræða bókaðu þá gistingu með skömmum fyrirvara til að fá besta verðið (hentar ekki öryggisfíklum en það hentar þeim yfirhöfuð ekkert sérstaklega vel að ferðast).
 • Athugið að myndir geta blekkt alveg eins og myndirnar á fasteignasíðunum.
 • Stundum er fýsilegt að gista utan stórborganna. Þjónustustigið er oft hærra, tempóið allt annað, og þú kemst í kynni við innfædda á annan hátt.

Konur á Norður-Ítalíu.

 Það leynast perlur víða í smáþorpum á Norður-Ítalíu.

Langt ferðalag – hagstæðara verðlag (oftast)

Margir veigra sér við ferðalögum á framandi slóðir vegna kostnaðar við flug. Hafa ber í huga að verðlag í þriðja heims ríkjum er margfalt hagstæðara en við eigum að venjast og því getur borgað sig fjárhagslega að leggja á sig lengra ferðalag. Mörg lönd í Afríku, Suður-Ameríku, og Asíu eru afar fjölskylduvæn. Ef ferðast er til nokkurra landa í sömu ferðinni hef ég vanið mig á að gera verðsamanburð á numbeo.

Börn á flugvell.

Börn geta látið eins og verstu flugdólgar og ber því að undirbúa löng flug vel.

Tengilflug

Það er fátt óþægilegra en að vera á harðahlaupum á flugvelli, kófsveittur með ferðatösku í afturdraginu muldrandi Skúsmí, skúsmí, I´m missing my flight!. Til að sefa taugarnar skaltu undirbúa tengiflugið vel.

 • Ekki stökkva á ódýrasta flugið. Þeim fylgir oft bið á flugvöllum sem getur tekið vel í veskið.
 • Góð þumalputtaregla er að reyna að hafa að lágmarki þrjá tíma milli fluga. Allt getur gerst. Flugum seinkar og flugum er flýtt. Á ólíklegustu stöðum er vegabréfsskoðun og vesen. UPPFÆRT. Kiwi.com ábyrgist nú tengiflug. Sjá HÉR.
 • Mörg lágfargjaldaflugfélög (t.d. RyanAir og EasyJet) eru oft stundvís og geta því verið hentug í slík flug.
 • Algengt er að fljúga í gegnum London en flugvellirnir þar (alls 4) eru mishentugir fyrir millilendingar. T.d. er Stansted ekki skipulagður sem tengiflugs-flugvöllur. Heathrow og Gatwick eru báðir þægilegir en hafðu rúman tíma ef þú þarft að ferðast milli flugstöðvabygginga. Á vef Heathrow eru góðar upplýsingar um hversu langan tíma farþegar þurfa að hafa milli einstakra fluga.
 • Ef þú ert að fljúga milli heimsálfa og yfir mörg tímabelti mæli ég með næturflugi. Ef þú ert að ferðast með börn og vilt vera við sæmilega geðheilsu við lendingu er þetta algjört lykilatriði.
 • Það getur reynt á taugarnar ef ferðalagið er orðið meira en sólarhringslangt (rámar í að hafa grátið frammi fyrir farþegum). Þá er um að gera að hvíla sig á flugvallarhóteli fyrir lítinn pening.

Skynsemi borgar sig

Sömu skynsemisrök gilda um allan heim (ekki vera ein/n á ferli eftir myrkur og allt það). Kynntu þér siði innfæddra, vertu kurteis og komdu alltaf fram við náungann af virðingu. Kveðja mamma.

Sjá einnig: Umhverfisvæn ferðamennska

Te að hætti innfæddra í Sarajevo.

Te að hætti innfæddra í Sarajevo.

Lifðu eins og lókal

Ég elska að að ferðast utan hánnatíma. Ástæðan er einföld – færra fólk, meira trít.

 • Ef ég er ekki í stuði fyrir almenningssamgöngur (sem ég mæli þó heilshugar með) þá hefur það gefist mér vel að ráða leigubílstjóra. Að vera með innfæddan einstakling sér við hlið getur spornað gegn söluáreiti. Það stuðlar að atvinnu, auk þess sem það er yfirleitt skemmtilegt að ferðast með innfæddum og fræðast um fólk og staði.
 • Besta matarupplifun mín er oft á fjölskyldureknum veitingastöðum með fáum borðum og einföldum matseðli (forðastu þessa með myndir af matnum). TripAdvisor kemur líka sterkt inn varðandi val á veitingastöðum.
 • Gefðu litlum gistiheimilum og heimagistingu gaum. Mun persónulegri og eftirminnlegri heildarupplifun.

Fjölskylda að spila.

„Huggað sig“ í Prenzlauer Berg. Heimagisting getur verið frábær kostur þegar ferðast er með börn.  

Skildu excel-skjalið eftir heima

Margir kannast við að hafa þétt pakkaða dagskrá 356 daga ársins. Sá sem skipuleggur fríið í öreindir er snauður að sjálfu lífinu og öllum þeim óvæntu uppákomum sem það hefur fram að færa.

Myndir úr einkasafni.

– Ingunn Eyþórsdóttir –

Instagram

 

About The Author

Ingunn Eyþórsdóttir

Ingunn er markaðsstjóri, tveggja barna móðir, og forfallinn ferðafíkill. Daglegar athafnir Ingunnar snúast um að drekka gott kaffi, dansa sólarsamba, starfa í Háskóla Íslands, koma börnum sínum frá A-B, og skipuleggja næstu ferð. Ingunn hefur ferðast víða en er með sérstakt dálæti á Asíu og Miðausturlöndum. Hún eyðir (mest)öllum fjárhag heimilisins í ferðalög en það er hverrar krónu virði.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.