Sumarið 2016 leigðum við bílaleigubíl og keyrðum um sveitirnar í Suður – Frakklandi. Unaðurinn var ólýsanlegur!
Við keyrðum frá Barcelona og enduðum (óvænt) í Nice á leik hjá íslenska landsliðinu á EM. Við ætluðum alls ekki alla leið þangað..
Við bókuðum gistingar daginn fyrir og völdum Airbnb gistingar sem kostuðu 50 evrur eða minna. Í eitt skipti leyfðum við okkur ögn dýrari gistingu eða 80 evrur. Við lentum samt ekki á einni gistingu sem hægt er að setja út á! Það sem ég elska Airbnb!

Ég var komin 4 mánuði á leið með Esjar svo ferðin einkenndist af því að hafa lítið plan, njóta mikið og keyra stutt í einu. Við vorum með GPS tæki í bílnum og völdum leiðir sem innihéldu sveitavegi, forðuðumst hraðbrautirnar nema í einstaka tilfellum og fórum ekki inn í neina stórborg nema Barcelona og Nice. Allir bæjir sem við heimsóttum voru litlir smábæjir eða fallegar sveitir.

Hér má sjá leiðina með merktum gististöðum. Við skoðuðum okkur um í kringum alla gististaðina og völdum staði og bæji til að heimsækja alveg „random“.

– Pýreneafjöll & Ax – les – Thermes – 

Náttúra Suður – Frakklands er mögnuð og mæli ég með því að kynna sér þessa staði einn daginn!
Við keyrðum frá Barcelona og yfir til Frakklands í gegnum Pýreneafjöllin og stoppuðum í bænum Ax – les – Thermes.
Þessi leið er hægfarin en alveg vel þess virði. Útsýnið og fegurðin er engu lík. Ekki mikil umferð og einungis litlar sveitir á leiðinni. Þar til að við óvænt duttum inn á þennan bæ í miðjum dal, Ax – les – Thermes. Við borðuðum þar kvöldmat, með útsýni á fjallgarð og foss, áður en við héldum ferð okkar áfram.

– Lavander- & vínakrar –

Þegar ferðast er um sveitir Suður – Frakklands má sjá þessa fjólubláu dásemdir út um allt! Sumstaðar blandast Sólblóm við og liggja þá saman fjólublárir- og gulir litir. Við vorum því miður aðeins of snemma á ferð (seinnipartur í júlí) svo blómin voru ekki orðin nógu stór til að njóta þeirra.
Vínekrur eru einnig víðsvegar þar sem Suður – Frakkland er þekkt fyrir rauðvínið sitt. Einn daginn ætlum við að búa í Suður – Frakklandi og vera með okkar eigin vínekru.

– L’Isle-sur-la-Sorgue & Fontaine-de-Vaucluse –

Við vorum með öll plön í algjöru lágmarki, nema að við stefndum í áttina að næsta gististað. Með því að þræða sveitavegina, hálf stefnulaust, þá duttum við inn á þvílíkar perlur sem okkur óraði aldrei fyrir að heimsækja!
L´Isle-sur-la-Sorgue og Fontaine-de-Vaucluse voru tvær af þessum perlum en þar eyddum við heilum degi, algjörlega orðlaus af fegurðinni!

 

 

– Flayosc – 

Á einni af Airbnb gistingunum okkar leyfðum við okkur ögn dýrari gistingu en við vorum vön. Við höfðum verið að bóka gistingar sem kostuðu undir 50 evrum, en þarna ákváðum við að bóka gistingu sem leit ótrúlega vel út á myndum og kostaði tæplega 80 evrur.
Þó svo að myndirnar á Airbnb síðunni væru mjög flottar þá hvarflaði ekki að okkur að við myndum mæta í þessa paradís! Útsýnið var gjörsamlega ómetanlegt! Ég var eitthvað óléttuþreytt þennann morguninn svo við ákváðum að keyra beint í gistinguna og taka því rólega þar yfir daginn. Við sáum nú alls ekki eftir því þegar á leiðarenda var komið, enda algjörlega bilaður staður! Gistingin var út í sveit og upp í fjalli, svo um kvöldmat keyrðum við niður í lítinn bæ sem var næst okkur og fengum okkur að borða á pínulitlum veitingastað sem þar var.
Hérna er linkurinn á íbúðina og mæli ég 100% með því að þið bókið hana ef þið eigið leið um þennan hluta heimsins.

 

Að vakna við þetta er eitthvað sem ég gæti alveg gert alla morgna..

– Théoule-sur-mer –

Við vorum að ferðast á meðan Ísland spilaði leikina sína á EM 2016, en áttum þó ekki miða á neina leiki. Þegar kom svo í ljós að þeir myndu spila við England í Nice þá vorum við rétt um 100 km í burtu en áttum flug heim frá Barcelona nóttina eftir leik. Það var náttúrulega alveg út í hött að fara að missa af þessu svo við hringdum og plönuðum og redduðum og náðum að breyta flugi, lengja bílaleigubílssamning, panta gistingu og kaupa miða á leikinn (og eyða um 80.000 í nýtt flug…) Þetta varð svo sannarlega allt þess virði þegar við stóðum á leikvanginum í Nice og horfðum á Ísland vinna England! Fyrsti og eini fótboltaleikurinn sem ég hef farið á..
Á leiðinni til baka til Barcelona þræddum við strandveginn og lentum þá, algjörlega óvænt, í litlum strandbæ sem heitir Théoule-sur-mer. Hann heillaði okkur þvílíkt og eyddum við heilum degi þar.

 

Ég mæli svo ótrúlega mikið að ferðast án þess að plana of mikið, leyfa sér að njóta og uppgötva hvað landið sem þú ert staddur í hefur upp á bjóða og fara út fyrir þessar hefðbundu stórborgir sem við erum svo gjörn á að festast í. Við gerðum slíkt hið sama þegar við ferðuðumst til Singapore, sem má lesa um hér.

Komdu svo og fylgdu mér á Instragram!

 

 

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.