Til þess að líða vel úti í íslenskri náttúru verður maður að eiga góðan staðalbúnað. Í þessum lista fer ég yfir helsta búnaðinn sem þarf til þess að líða vel og vera öruggur við íslenskar eða svipaðar aðstæður allt árið um kring. Það er samt ekki bara búnaðurinn sem tryggir öryggi manns á ferðalögum heldur maður verður líka að kunna til verka og geta verið sjálfbjarga. Björgunarskóli Landsbjargar býður upp á ýmis konar námskeið tengt ferðamennsku og útivist allt árið um kring. Ég hvet alla áhugasama að skoða námskrá Björgunarskólans HÉR.

Þessi útbúnaðarlisti er ekki sponsaður og því einungis um 

Góður bakpoki

Ef þú vilt fara út í margra daga gönguferðir þá dugar ekkert annað en góður bakpoki sem styður vel við bakið og hefur nóg pláss. Ég er rosalega skotin í bakpokunum frá Osprey vegna þess að skipulagið í þeim er mjög sniðugt og hentar útivistarfólki afar vel og úrvalið mjög gott eftir því hvað maður er að fara gera. Mig vantar bakpoka eins og er og er ég alveg handviss um að ég fái mér einhvern vel valdan úr Osprey línunni.

Osprey bakpokarnir fást m.a. í GG sport.

Góður svefnpoki

Ég eiginlega fattaði ekki hype-ið á bakvið góðan svefnpoka fyrr en ég fékk mér góðan dúnsvefnpoka. En góður svefnpoki er algjör nauðsyn ef þú vilt sofa vel í hvaða hitastigi sem er. Ég á Cumulus panyam 600 dúnsvefnpoka og hann er -13 í comfort og er algjör draumur. Það er gott að hafa það samt á bak við eyrað að dúnn er gagnslaus ef hann blotnar, því er bráðnauðsynlegt að passa vel upp á það að hann haldist þurr. Ef þú vilt ekki kaupa þér dúnsvefnpoka þá eru einnig til góðir svefnpokar úr “fiber” eða trefjaefnum. Þeir einangra betur ef svo illa vill til að svefnpokinn blotnar, en aftur á móti þá pakkast þeir verr saman en dúnninn og vega meira í þyngd.

Góður svefnpoki er nauðsynleg fjárfesting ef þig langar til þess að stunda útivist úti í íslenskri náttúru eða á svæðum með svipað hitastig.

Cumulus svefnpokarnir eru framleiddir úr pólskum gæsadún og er fást m.a. í Ganglera (þeir eru að hætta) en svo eru aðrir framleiðendur eins og Mammut, Rab og fleiri sem framleiða góða svefnpoka en hægt er að kaupa gæðapoka í Everest, Íslensku Ölpunum, Fjallakofanum og víðar.

Góð einangrunardýna

Ég gerði mér aldrei grein fyrir því hversu mikilvægt það væri að eiga góða einangrunardýnu fyrr en ég byrjaði í björgunarsveit og svaf í snjóhúsi í fyrsta sinn á lélegri dýnu og síðan á sprunginni dýnu í útilegu að sumri til. Það skiptir engu máli hversu geggjaður svefnpokinn er ef dýnan er ekki nægilega einangrandi því kuldinn frá jörðinni leiðir upp ef dýnan er ekki að skila sínu og þá verður manni kalt. Það má því segja að einangrunardýna er jafn mikilvæg og góður svefnpoki!  Mig langar í uppblásanlega Exped dýnu því það er dúnfjöðrun inn í henni og það er eins og hún hreinlegi hiti út frá sér. Þar að auki er one-way loftventill þannig hún tæmist ekki þegar pumpunni er kippt frá. Pumpan er poki sem fylgir með og þú fyllir dýnuna með loft úr loftpokanum. Fyrir þá sem ekki vita þá er ekki gott að eiga upplásanlega dýnu sem þú þarft að blása með munninum í vegna þess að loftið úr okkur sjálfum er rakt sem gerir það að verkum að dýnan getur myglað með tímanum og hættir að einangra. Talandi um bakteríuveisluna sem maður myndi búa til inni í dýnunni… mmmmmm.

Að því sögðu er gott að hafa í huga að öllum góðum einangrunardýnum fylgir ætti alltaf að fylgja með pumpa af einhverju tagi. Svo er gott að sjá til þess að eiga alltaf bætur og lím við höndina ef það vill svo óheppilega til að dýnan springi… sem getur komið fyrir besta fólk svo það er bara best að vera vel undirbúinn.

Exped einangrunardýnur fást í Ganglera. Svo eru aðrar tegundir sem eru ekki síður góðar, eins og Mammut og Thermarest NeoAir sem fást m.a. í Everest, Fjallakofanum, á netinu og víðar.

Göngutjald

Létt og vel vatnshelt göngutjald er kannski ekki með fyrsta búnaðnum sem þú fjárfestir í en er engu að síður mikilvægur staðalbúnaður. Mikilvægt er að tjaldið sé bæði sterkt og vel vatnshelt til að þola íslenskt veðurfar. Gula tjaldið á myndinni er fjögurra árstíða jöklatjald frá North Face of kostar ríflega 100 þúsund krónur að mig minnir. Þú þarft ekki að kaupa þér fjögurra árstíða tjald ef planið þitt er að fara bara í útilegur á sumrin. Í flestum tilfellum dugar þriggja árstíðatjald frá góðu útivistarmerki. Tjöldin frá Husky, Vango, North Face of fleirum eru vel þekkt af íslensku útivistarfólki og eru flott í íslenskar aðstæður. Svo eru líka til nokkrar útfærslur af tjöldum: braggatjöld, kúlutjöld og fleiri útfærslur. Útfærslunar hafa allar einhverja ákveðna eiginleika og henta misvel við ákveðnar aðstæður. T.d. eru braggatjöld ekki mjög heppileg í miklu roki. Passið að tjaldið sem þið eruð að fara nota í margra daga útilegu eða gönguferð sé í það minnsta 5000mm vatnshelt.

Sniðugt að leigja saman tjald ef þið eruð nokkur að fara saman í gönguferð eins og ég gerði með þremur öðrum fyrir fimm daga gönguferð á Hornströndum. Þá getur komið góð reynsla á tjaldið sem prófað er og hægt að draga ályktanir hvað manni líkar við og hvað manni finnst ábótavant. Ég myndi kynna mér útfærslurnar og merkin mjög vel áður en fest eru kaup í góðu göngutjaldi.

Þurrpokar

Ég keypti mér nokkra “Exped Fold Drybag Endura” fyrir fimm daga gönguferð um Hornstrandir til að halda búnaðnum mínum þurrum ef ske kynni að það myndi rigna mjög mikið eins og spáin sagði til um. Ég sé sko ekki eftir því! Þó svo að veðrið fór framar öllum mínum væntingum þá komst ég að því að þessir pokar væru ekki einungis gagnlegir í vætu, heldur eru þeir líka geggjaðir fyrir skipulagið í bakpokanum. Exped pokarnir eru í mismunandi litum eftir stærðum og gerir það að verkum að auðvelt er að skipuleggja allt í pokanum. Ég notaði minnsta pokann fyrir raftæki, miðjupokann undir dúnsvefnpokann þegar hann var í bakpokanum og síðan sem kodda með fötunum sem ég ætlaði í daginn eftir þegar ég var base-uð í tjaldi og síðan stærsta pokann undir öll þurru fötin mín sem ég var ekki að nota. Þar að auki er hægt að lofttæma pokana sem auðveldar enn frekar skipulagningu og sparar heilmikið pláss! Ég hef einnig notað þessa poka fyrir blaut sundföt og annað slíkt í dagsferðalögum eða bara eftir sund í bænum og fer ekki beint heim eftir á. Mjög sniðugir pokar með heilmikið notagildi!

Mæli 100% með! Þessir snilldar pokar fást víða.

Prímus

Ef þú ætlar að stunda útivist af einhverju viti í burtu frá siðmenningunni þá er eiginlega bráðnauðsynlegt að fjárfesta í góðum prímus því það jafnast ekkert á við heitt kakó eða heitan mat eftir langan dag úti í náttúrunni. Valið stendur milli nokkurra tegunda, en mér hefur sýnst að þessir stærstu séu m.a. Primus, Jetboil og MSR. Valið stendur einnig milli bensín og gasprímusa, en þeir hafa hvort um sig kosti og galla. Gasprímus er léttari en bensínprímus, og oft fer minna fyrir honum. Gas höndlar hins vegar illa mikið frost og getur einfaldlega hætt að hitna undir slíkum kringumstæðum. Bensínið hentar mun betur í miklu frosti og því betra að hafa slíkan prímus með í för er þú ert að ferðast að vetri til eða í miklu frosti. Til eru ýmsar útfærslur af prímusum auk aukahluta, t.d. panna, djúpra potta til vatnssuðu eða grynnri potta til matargerðar. Svo er einnig hægt að fá flottar “eldhúsgræjur” í stíl. Ég mæli með að skoða úrvalið vel áður en fest eru kaup á prímus því útfærslurnar eru eins mismunandi og þær eru margar og sumir prímusar eru betri en aðrir í mismunandi veðráttum hvort sem það eru gas eða bensínprímusar.

Vinsamlega hafið það í huga að ekki má taka með sér gaskús eða bensínkút í flug! En það er allt í lagi að taka prímusinn sjálfan með. Þú kaupir kútinn bara þar sem þú ert. Prímusar fást í öllum helstu útivistarverslunum landsins. Yfirleitt dugar að hafa einn prímus fyrir allt að þrjá aðila, en svo þarf auðvitað að hafa nóg af gasi eða bensíni fyrir ferðina.

Sniðugt nestisbox og spork

Ég keypti Ultra by Arctic Zone í Costco á tæplega 1800 kall um daginn og í því fylgdu “3 in 1 bento box” tveir gel kælipokar sem er algjör snilld. Ég get ekki sagt að ég geti kvartað undan verðinu heldur! Þetta er einangrandi nestistaska sem er hægt að stækka, minnka og brjóta saman og bento boxin falla ofan í hvert annað. Hægt er að nota hvaða box sem er sem skál eða ílát undir mat. Í mjúku töskunni eru síðan tvö lítil rennd hólf sem ætluð eru undir kælipokana en einnig er hægt að nota hólfin undir súkkulaðistykki, tepoka, kakó, hafra eða annað millimál og kæligelpokarnir þá skildir eftir heima. Þessi matartaska passar í neðsta hólfið á rúmgóðum bakpoka sem hentar vel upp á þyngdina að gera. Ef þetta er búið í Costco þá vona ég að þeir panti þetta aftur. Annars mæli ég 100% með að fólk panti þetta á netinu.

Svo vil ég endilega benda á að Spork (fork + spoon) er mjög sniðugt tól. Ég á svona spork sem hægt að brjóta saman, mér finnst hún smá pirrandi því hún á það til að brotna saman þegar ég er að hræra matnum mínum saman við vatn eða að borða. Ég mæli því bara með ósamanbrjótanlegri spork frekar en þeirri sem hægt er að brjóta saman. Ég ætla allavegana að fá mér þannig fljótlega!

Hitabrúsi

Ég myndi segja að hitabrúsi sé mjög mikilvægur staðalbúnaður. Það jafnast ekkert á við það að fá smá yl í kroppinn, en heitur matur eða heitur vökvi gefur manni mun meiri orku en kaldur matur eða vökvi. Það jafnast ekkert á við að fá smá yl í kroppinn eftir krefjandi dag við svalar aðstæður. Þar sem Ísland getur talist nokkuð svalt allt árið um kring mæli ég með að eiga einn góðan hitabrúsa.

Það er ógéðslega mikið af flottum hitabrúsum til og þeir fást víða.

Vatnsflaska eða drykkjarpoki

Mörgum dugar að hafa með sér eins til tveggja lítra gosflösku, enda kostar ekki neitt að endurnýta hana. Annars eru til ýmsar týpur af vatnsílátum sem gera ferðalagið þægilegra. Ef þið ætlið að ferast að vetri til á vandast valið aðeins því það getur verið kúnst að finna vatnsílát frýs sem minnst. Það er ekkert meira pirrandi að gera ekki fengið sér vatn því allt er gaddfrosið. Talandi um að geta ekki einu sinni opnað lokið eða tappann!

Venjuleg gosflaska er alveg ágætur kostur, og allar vatnsflöskur sem ekki hafa einhverskonar rör eða þröngan vatnsgang. Svona H2O poki með röri frá pokanum hentar t.d. illa á veturna og örugglega allar flöskur með röri út af frostinu. Flöskur með harðplasti og víðu loki eru nokkuð góðar og mæla ég alveg með þeim til að hafa við höndina utan á pokanum. Ég þekki það ekki alveg að nota álflöskur hvort það frjósi auðveldlega en ég prófa það einhverntíman í vetur og læt ykkur vita! Ef þið þekkið það eða hafið jafnvel fleiri ábendingar þá megið þið endilega kommenta á þessa grein!

Á sumrin skiptir í raun engu máli hvers konar vatnsílát þið notið vegna þess að það þarf ekkert að spá í frostinu. En mér finnst H20 pokarnir með slöngunum algjör snilld í alla útivist á sumrin.

Vatnsflöskur fást hér um bil allstaðar. Góðir H20 pokar fást m.a. í útivistarbúðum. Mæli með að vera tilbúinn að eyða smá peningi í þannig poka því maður vill að hann sé sterkur og fari ekki að leka eftir korter. Allir H20 pokar sem kosta yfir 30 dollara á netinu og koma með ábyrgð ættu að vera solid.

Magnesíum flint stone

Sú snilld!

Magnesíum flint stone er bara steinaldaríkveikjuaðferðin í nútímabúningi. Hann virkar í vindi, má blotna, er fjölnota og getur dugað í mörg ár! Mjög mörg ár meira að segja. Við erum að tala um 10-20 ár ef þú notar hann passlega mikið en auðvitað fer það eftir notkun bara. Gleymdu gaskveikjaranum, rokeldspítunum, bensínkveikjaranum og öllu hinu draslinu. Magnesíum flint stone kostar 10 dollara og er eina sem alvöru vit er í!

Veit ekkert hvar hann fæst á Íslandi en hægt er að kaupa hann í Bandaríkjunum og á netinu!

Höfuðljós

Höfuðljós eru svo sannarlega vanmetin. Ég tel að það sé alveg þess virði að fjárfesta góðu höfuðljósi ef þú vilt gera margt skemmtilegt í myrkri og á veturna þegar rökknar mjög fljótt. Ég á nú bara einhvað kertaljós miðað við það sem hægt er að fá, og mitt kostaði alveg næstum 10 þúsund kall í Fjallakofanum á sínum tíma!

Er enginn ljósasérfræðingur en ég veit að það er alveg þess virði að eiga langdrægt og sterkt höfuðljós ef þið viljið geta stundað allskyns útivist í mykri.

Höfuðljós fást í öllum helstu útivistarbúðum landsins.

GPS tæki

Google Maps étur smá batterí og 3G virkar ekkert allsstaðar. GPS tæki er mun traustverðugra en svo er auðvitað líka alltaf hægt að reiða á landakort og áttavita. GPS er samt bara svo hentugt og þægilegt! Ég held að tækin frá Garmin séu alveg langstærstir í þessum bransa. GPS tæki fást m.a. í raftækjaverslunum og víðar. Það er alveg nóg að einn til tveir í hópnum eigi GPS tæki og hópurinn fylgir því. Myndi ekki segja að þetta sé fjárfesting sem maður verður að eignast strax þegar maður er að stíga sín fyrstu skref í útivist.

Áttaviti og kort

Það er eiginlega alger skylda að kunna að bjarga sér með landakort og áttavita ef maður ætlar að fara ferðast á eigin vegum út í óbyggðir landsins og heimsins. Ég held að það sé ekkert verra í heiminum en að vera alveg villtur og kunna ekki á, og hafa engin tól og tæki sem geta leitt mann á réttu brautina. Síminn getur orðið batteríslaus og GPS tækið líka. Áttaviti verður hins vegar aldrei batteríslaus.

Áttaviti er samt frekar gagnslaus ef maður hefur ekkert kort og öfugt. Þetta verður að vera combo!
Athugið að áttaviti er viðkæmur fyrir segulbylgjum og þær geta ruglað hann og eyðilagt hann. Alls ekki geyma áttavita og síma í sama hólfi eða nálægt hvort öðru!

Áttaviti fæst í flestum útivistarbúðum og kort fást á flest öllum bensínstöðvum.

Hægt að sækja á ýmiss námskeið tengt ferðamennsku hjá Björgunarskóla Landsbjargar í ferðamennsku og rötun.

Leatherman og/eða Swiss army hnífur

Sko, þegar maður er einhversstaðar í óbyggðum og eitthvað er fast, maður þarf að skera eitthvað, skrúfa eitthvað, saga eitthvað eða bara HVAÐ SEM ER. Þá er ömurlegt að vera ekki með nein tól til slíkra verka. Leatherman eða Swiss Army hnífur er því eiginlega skyldueign og eitt af því fyrsta sem maður ætti að eignast. Það er alltaf einhver með eitthvað en það er satm þægilegt að eiga sjálfur.

Þessi tæki eru dýr en þau eru þess virði. Leatherman og Swiss Army hnífast fást víða.

Hleðslubanki

Símar margra okkar gegna ekki einungis hlutverks fjarskiptatengsla, heldur eru þeir einnig myndavélar og vídeóupptökutæki. Rafhlöðubanki eða “External battery charger” er algjör snilld í ferðalagið, hvort sem þú verður í símasambandi eður ei. Það er USB input þannig hægt er að hlaða hvers kyns tæki sem tengjast rafmagni í gegnum USB. Hlaðbankar fást víða, eins og t.d. í Elkó og Nova.

Sjúkrataska

Það er möst að vera með lítið sjúkrakit á hverskonar ferðalagi úti í óbyggðum. Sniðugt er að hafa sótthreinsandi, sárabindi, plástur, verkjalyf og álteppi í þessari tösku. Listinn er með engu móti tæmandi, en hægt er að kaupa tilbúnar litlar Fyrstu hjálpartöskur víða sem innihalda allt það helsta. Mér finnst fínt að eiga nóg af verkjatöflum, og missterkum. Maður veit aldrei hvenær maður sjálfur eða einhver sem maður þekkir þarf á þessu að halda. Ég er alltaf með sjúkratösku og hef mest tekið úr henni fyrir aðra en ekki sjálfa mig. Svo er líka mikilvægt að fylla á þegar maður hefur tekið úr!

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

3 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.