Marokkó er land menningar og matar, þar sem borgirnar eru iðandi af mannlífi og markaði má finna hverju götuhorni – eða svo gott sem.

Án alls efa er Marokkó eitt af mínum uppáhalds löndum að heimsækja, en síðast liðin ár hef ég eitt jólum og áramótum í þessu framandi landi og bíð spennt eftir að fá tækifæri til að plana næstu ferð! Að mínu mati er Marokkó hinn fullkomni áfangastaður ef áhugi er fyrir því að upplifa algerlega ólíka menningu frá því sem tíðkast hér á landi og öðrum Evrópulöndum, án þess að þurfa ferðast of langt og lengi. Verandi staðsett rétt fyrir neðan Spán, er bæði ódýrt og einfalt að finna flug og ferjur frá Evrópu – og ekki skemmir verðlagið þar í landi fyrir! Þetta er því tilvalinn áfangastaður þegar hjartað þráir að upplifa eitthvað nýtt og meira framandi en hinar hefðbundnu borgarferðir.

Hvort sem það eru hvítar strendur eða snævi þaktir fjallstoppar, endalausar eyðimerkur eða mikilfenglegt mannlíf sem heillar, þá er eitthvað að finna fyrir alla en hér að neðan hef ég tekið saman nokkra af mínum uppáhalds stöðum í Marokkó.

Chefchaouen

Að labba götur Chefchaouen er eins og að labba í einhverskonar draumalandi, eða jafnvel himnaríki?

Bókstaflega allur bærinn er blár og sama hvort litið er til hægri eða vinstri, öll húsin eru máluð blá og göngustígarnir sömuleiðis. Það er því einfalt að villast af leið og enda í einhverskonar völundarhúsi um þröngar götur bæjarins, en inn á milli er að finna ýmsa veitingastaði, listasýningar og litla markaði. Þess fyrir utan að rölta um götur Chefchaouen eru einnig fjölmargar gönguleiðir í nágrenni við bæinn, auk þess sem vinsælt er að taka sundsprett í Cascades d’Akchour. Á kvöldin flykkist fólk svo fyrir ofan bæinn og fylgist með sólsetrinu, sem er sagt eitt það fallegasta á svæðinu en blái liturinn nýtur sín extra vel á þeim tíma dagsins. Sagan á bakvið bláa litinn er umdeild, en hver hún svo sem er þá er útkoman einstök og að mínu mati fáir bæir jafn fallegir og Chefchaouen.

Klárlega einn af mínum uppáhaldsstöðum í Marokkó!

 Marrakech

Marrakech er líklega sá staður sem poppar fyrst upp í hugann þegar hugsað er um Marokkó og passar vel við þær hugmyndir sem margir hafa af landinu. Borgin er með iðandi mannlíf, litskrúðuga markaði og mikilfenglega Medinu, en þó Marrakech sé ekki hin raunverulega höfuðborg Marokkó má segja að hún sé höfuðborg menningar og mannlífs. Það er ekki af ástæðulausu að borgin sé mekka ferðamanna í landinu en borgin hefur margt upp á að bjóða, sem og að hún er nokkuð miðsvæðis í landinu og því hentug staðsetning til að skoða aðra staði út frá.

Það er án efa hægt að eyða nokkrum dögum í Marrakech einni og sér, en í kringum almenningstorgið Djemaa el Fna leynast ýmsir áhugaverðir staðir. Mæli sérstaklega með að rölta um markaðinn, prútta yfir minjagripum eins og enginn sé morgundagurinn, bragða á öllum þeim mat sem þar er í boði og jafnvel að villast aðeins og sjá hvaða ævintýri leynast í gamla bænum í Marrakech – eða í Medina eins og slíkir markaðir eru kallaðir í Arabalöndum. Í lok dags mæli ég með að setjast uppá þak á einhverju tehúsinu, sötra mintu-te og fylgjast með því hvernig Djemaa el Fna torgið umbreytist í líflegan utandyra veitingastað þegar fer að rökkva.

Fes

Fes, eða litla Marrakech eins og það er stundum kallað, er eins og hin síðarnefnda þekkt fyrir markaðsstemmingu og mannlíf. Heimabær elsta háskóla í heimi, en Fes einnig hvað þekktust fyrir leðurlitunina sem fer fram mitt í miðri Medina. Þar er hægt að sjá hvernig allskyns leður er litað í stórum leirkörum og hvar það er svo hengt til þerris, en leðrið er síðar notað í ýmsan varning – þar á meðal í allan þann fjölda leðurvara sem seldar eru á mörkuðum Marokkó.

Gamli bærinn í Fes er sagður vera einn sá best verðveitti af sínum toga í Arabalöndum og því tilvalinn staður til að fá óspyllta arabíska menning beint í æð. Íbúafjöldi í gamla bænum er um 150.000 og því eru ekki einungis ferðamenn sem fara þar um, en þar sem engir bílar eru leyfðir á svæðinu er Medina í Fes fjölmennasti bíllausi staðurinn í heimi. Maður má þó búast við að sjá stöku asna á vappi, en þeir eru enn notaðir til að bera varning á milli. Ef áhugi er fyrir því að gera góð kaup í Marokkó er Fes tilvalinn staður, en þar er að finna mjög svipaðar vörur og í Marrakech, en með möguleika á að prútta þær enn frekar niður í verði – enda mun færri ferðamenn í Fes.

Sahara Eyðimörkin

Sahara eyðimörkin er einn af vinsælli áfangastöðum Marokkó og margir sem leggja leið sína þangað til þess að skoppa á úlföldum milli gullsleginna sandhólanna, gista í tjaldbúðum í miðri eyðimörkinni og njóta kyrrðarinnar undir stjörnubjörtum himninum. Sahara þekur stóran hluta landsins en eyðimörkin er þó jafn ólík og svæðið er stórt og sum svæði hentugri ferðamennsku en önnur. Þorpið Merzouga er eitt þeirra, en það staðsett rétt við jaðar Erg Chebbi sandhólana sem eru hinir picture perfect sandhólar Sahara og er að mínu mati ógleymanleg upplifun að eyða nokkrum dögum innan þeirra.

Merzouga er rétt við landamæri Alsír og því ekki beint í alfaraleið, en fyrirhöfnin við að koma sér þangað er klárlega þess virði þegar á staðinn er komið. Auðvelt er að finna gistingu á svæðinu í hvaða gæðaflokki sem er og margir möguleikar eru á ferðum út í eyðimörkina, bæði einkaferðir sem og hópferðir, allt eftir því hvað hentar. Flest öll hótel og gistihús bjóða uppá ferðir, en ég mæli með að skoða það vel með hverjum maður fer og treysta viðkomandi fyrirtæki 100% áður en haldið er langt út í eyðimörk.

Sjálf gisti ég á Hotel Nassar Palace og fór með þeim, ásamt stærri hóp, í tveggja daga ferð sem ég mæli hiklaust með!

Agadir og nágrenni

Hvítar strendur, brimbretti og bjór er líklega það sem einkennir svæðið. Agadir er andstæðan við allt það sem ég hélt fyrst að Marokkó væri. Þar eru byggingarnar í nýtískulegum stíl, vestræn kaffihús og veitingastaðir þræða strandlengjuna og sólbekkir þekja ströndina sjálfa. Á daginn flatmagar fólk á sólbekkjum en á kvöldin ómar tónlist frá skemmtistöðum og pöbbum borgarinnar. Þetta er því tilvalinn staður til að kúpla sig aðeins út úr te-drykkjunni og kíkja jafnvel í einn kokteil á næsta bar.

Svæðið norðan Agadir er einnig vinsælt meðal ferðamanna, en það er þekkt fyrir fallegar strendur og stórar öldur. Þangað flykkist því ungt fólk allsstaðar að úr heiminum og nýtur lífsins, surfar á daginn og sötrar bjór á kvöldin. Einnig er þetta heimasvæði hinna frægu klifur-geita, sem sjást oft uppí trjám í leit að hinu goðsagnakennda argan.

Tafraout

Með fallegri stöðum Marokkó og oft kallað týnda perla landsins. Ekki svo margir leggja leið sína til Tafraoute en vegurinn að bænum er mjög seinfarinn og erfiður yfirkeyrslu. Þrátt fyrir endalausar beygjur og hættulega djúpar holur í veginum, andlega álagið sem fylgir því að keyra slíka vegalengd á ómannsæmandi hraða – eða öllu heldur engum hraða, þá er erfiðið allt þess virði þegar bærinn nálgast og keyrt er niður að honum. Fallegra landslag hef ég sjaldan séð.

Kennimynd Tafraoute er blátt grjót, sem belgískur listamaður málaði fyrir rúmlega 30 árum síðan. Fjölmargar göngu- og hjólaleiðir eru í kringum bæinn, en svæðið er einnig tilvalið til þess að taka lífinu rólega og njóta kyrrðarinnar sem þar er. Nóg er af argan olíu á svæðinu sem og öðru góðgæti, en í um klukkustundar fjarlægð leynist önnur paradís, mikilfenglegt oasis mitt á milli hárra fjallanna. Ait Mansour er eitt þorpanna sem leynist meðal þéttivaxinna döðlu-pálmanna, en fyrir ofan þorpið er falleg gönguleið í gegnum gamlar rústir með fallegu útsýni yfir svæðið.

Sólsetrin í Tafraout eru einnig engu lík og sólarupprásin jafnvel betri, en aðra eins litadýrð hef ég ekki áður séð. Ef einhver er að leita að stað til þess að eyða einhverjum tíma á, til þess eins að slaka á, njóta náttúrunnar og sötra einstaka te-bolla, þá er þetta staðurinn!

Aït Benhaddou

Ait Ben Haddoue þekkja allir án þess jafnvel að gera sér grein fyrir því, en þetta fallega kashba þorp hefur birst í ófáum kvikmyndum og þáttum. Það er þar af leiðandi einn af frægari stöðum landsins, þá sérstaklega eftir að hafa birst í þáttaröðinni Game of Thrones. Ait Ben Haddoue er einstakur staður og þorpið dæmi um byggingarstíl sem tíðkaðist áður fyrr í Marokkó, en þá voru jafnvel heilu bæirnir byggðir úr sandi, leir og laufblöðum. Það að labba um götur þorpsins er eins og að hverfa þó nokkuð margar aldir aftur í tímann og því gaman að leyfa huganum að reika og ímynda sér hvernig mannlífið var þarna fyrr á tímum. Útsýnið frá hæsta punkti bæjarins er einnig þess virði að svitna fyrir.

Ait Ben Haddou skiptist í tvennt, en flestir heimamenn hafa flutt yfir í nýrri byggingar hinumegin við ánna og í kashba þorpinu er því nú aðallega að finna ferðamenn og stöku sölumenn sem æstir vilja selja gestum og gangandi minjagripi, frá þessum annars fallega stað. Til að losna við sem mest áreiti, mæli ég með að byrja daginn á undan öðrum, rölta um bæinn og njóta áður en rútur fullar af ferðamönnum með selfie sticks streyma á svæðið.

Atlas fjöllin

Það er vægast sagt ævintýri að keyra um Atlas fjallgarðinn, en hann samanstendur af hæstu fjöllum Norður-Afríku og einkennist af fallegu útsýni, litlum Berber þorpum og endalausum krókóttum vegum. Margt er að sjá og skoða í Atlas fjöllunum, en einkenni svæðisins er líklega hæsta fjall landsins, Jbel Toubkal, sem og fjallaleiðirnar tvær sem fara yfir fjallgarðinn, Tizi n’Test og Tizi n’Tichka.

Tizi n’Test er ekki endilega öruggast fjallavegur í heimi, en fyrir þá sem leggja í allar beygjurnar þá er þetta falleg leið og klárlega eitthvað sem stendur uppúr öllum þeim stöðum sem ég hef skoðað í Marokkó. Persónulega mæli ég með að stoppa í Imlil, litlu fjallaþorpi rétt við rætur Jbel Toubkal, en þaðan eru margar gönguleiðir í boði. Fyrir þá sem vilja eitthvað meira krefjandi er einnig hægt að bóka skipulagðar ferðir upp á hæsta fjall Norður-Afríku. Auk Imlil, er fjöldinn allur af litlum þorpum sem gaman er að skoða og keyra í gegnum, en Asni er dæmi um eitt þeirra.

Þó svo að maður hugsi ekki endilega um Marokkó sem snævi þakið land, þá snjóar samt sem áður árlega í Atlas fjöllunum og því tilvalið að pakka samkvæmt veðri ef planið er að fara þangað. Húsin á svæðinu eru að öllu jafna ekki upphituð og því getur orðið mjög kalt á nóttinni – en íslenska ullin var alger bjargvættur í ferð minni um Atlas fjallgarðinn.

Vestur-Sahara

Vestur-Sahara er líklega eitthvað það sérstakasta land(svæði) sem ég hef farið til, en þar er svo gott sem ekkert fyrir ferðamenn að gera. Í suðuhluta landsins er þó að finna eina fallegustu strönd svæðisins, Dakhla, en þangað er langt að fara og ekki margir sem leggja þá rútuferð á sig. Höfuðborgin, Laayoune, hefur heila þrjá staði til að skoða sem samkvæmt TripAdvisor eru það almennigstorgið, mosvkan og spænsk kirkja. Ég varð ekki vör við sálu á almenningstorginu, moskvan leit eins út og allar aðrar moskvur í landinu og í hreinskilni sagt lagði ég það ekki á mig að reyna finna spænsku kirkjuna. Það sem einkenndi hins vegar borgina, var fjöldinn allur af hermönnum og skjanna hvítum jeppum sem keyrðu um borgina merktir UN, en Sameinuðu Þjóðirnar eru með bækistöð í Laayoune vegna ástandsins sem á sér stað á svæðinu. Tæknilega séð tilheyrir svæðið Marokkó, en í gegnum söguna hafa verið mikil átök um Vestur-Sahara. Það telst ekki vera hættulegt að ferðast um svæðið, en þó er ráðlagt að fara með meiri gát en í norðurhluta Marokkó.

Það sem ég get hins vegar mælt með að gera í Vestur-Sahara, eru eyðimerkur tjaldbúðirnar Le Camp Bédouin. Þær eru mjög frábrugðnar þeim í Merzouga, en þó svo að hægt sé að finna sandhóla og gylltan sand, þá er landsvæðið mjög fjölbreytt og margir staðir að skoða í grennd við tjaldbúðirnar. Gríðarstór saltslétta er í göngufjarlægð frá búðunum, sem og lítill foss og uppspretta. Hægt er að bóka jeppa- og fjórhjólaferðir til að skoða svæði lengra í burtu, þar á meðal ströndina. Einnig hefur íslenska skipsbrakið Que Sera Sera nýlega orðið að ferðamannastað, en það strandaði við strendur Laayoune árið 2009 og fylgja því ýmsar sögusagnir sem fólk getur leitað eftir sé áhugi fyrir því!

 

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.