13-15. apríl ár hvert…

Fer fram stærsti fögnuður Taílendinga, Songkran Hátíðin. Þá er nýja árinu fagnað samkvæmt taílenska dagatali forðum daga. Þó svo að Taílendingar fari ekki lengur eftir þessu dagatali sínu, þá hefur hátíðin sjálf ekkert gleymst. Segja má að Songkran sé eins hátíðleg Taílendingum og jólin eru hátíðleg fyrir okkur Vesturlandabúa. En við eigum til með að taka jólin of hátíðleg kannski hér heima, Songkran hátíðin er eiginlega ekkert nema partí og bilað fjör!

Songkran Hátíðin er einnig þekkt sem Taílensku Áramótin eða Taílenska Vatnsstríðshátíðin. Áður fyrr var Songkran fagnað með því að skvetta vatni á fjölskyldumeðlimi og á öldunga til að boða lukku, auk þess voru hverskonar táknmyndir Búdda heiðraðar sérstaklega. Nú til dags hefur hátíðin einkennst af þriggja daga vatnsstríðshátíð, þar sem vatni er skvett, skotið eða hellt yfir alla sem á vegi manns verða.

Þessi hátíð einkennist af kærleik en á sama tíma kvikyndisskap (samt góðlátlegum kvikyndisskap) sem enginn ætti að missa af ef svo heppilega vill til að þeir séu staddir í Taílandi eða í grennd við Taíland á þessum tíma árs. Hver elskar ekki vatnsstríð og partí?

fáein heilræði

Þú munt ekki haldast þurr: Með engu móti munt þú ná að halda þér þurrum/þurri ef þú ætlar út fyrir hússins dyr. Ef þú vilt ekki taka þátt í þessu fjöri þá þarftu bara að fá þér regngalla.

Peningurinn og síminn þinn mun blotna NEMA: Þú fáir þér plastbuddu með minnst þremur rennilásum sem þú berð síðan um hálsinn 😉 Fæst út um allt í aðdraganda Songkran!

Taílendingar eru flestir óttalegar teprur: Það er ekkert sérstaklega vel séð að vera sprikla um á bikiníinu einu og sér. Fyrir Taílendinga þá gætu stelpur alveg eins verið á nærfötunum út á götu, þannig veriði í þekjandi fötum ef þið viljið ekki hafa öll augu á ykkur. Strákar, þið líka; ekki speedo-skýlur!

Sólin er sterk: Apríl er heitasti mánuður ársins í Taílandi. Berið á ykkur sólarvörn.

Góð hugmynd ef þú vilt ekki blotna: Taka taxa eða vera í lokuðum bíl þegar farið er á milli staða
Slæm hugmynd ef þú vilt ekki blotna: Taka tuk tuk, þar sem það er opinn bíll og þú ert algjörlega varnarlaus gagnvart innrásum vatnsstríðsmanna

Bestu staðirnir til að upplifa Songkran hátíðina

1. Bangkok

Líkt og svo oft áður þá er fjörið ekkert lítið í höfuðborginni. Það er varla hægt að stíga úr fyrir dyrnar á hótelinu án þess að vera gegnblautur af vatni sem skvett er á þig úr fötum og byssum. Fjörið er hvað mest á svæði Banglamphu, þá sérstaklega Thanon Khao San eða Khao San götunni (Hrísgrjónsgatan), Rattanakosin Konungstorginu, Phra Athit götunni, Santhichaiprakan and Wisut Krasat. Sjálf hef ég aldrei verið stödd á þessu svæði yfir Songkran en það er á to do listanum. Ég held það sé viðbjóðslega gaman á Khao San götunni því þar blandast Taílendingar og Vesturlandabúar hvað mest saman og ættu því allir að skemmta sér fáránlega vel. Ef þú vilt draga að þér gott karma, eða óska eftir heppni á nýja árinu þá eru búddahofin opin yfir hátíðarnar, en fyrir þá sem hafa enga hugmynd um hvernig skal haga sér í taílenskum búddahofum þá mun lögreglan sjá um traffíkina í Wat Po… gestir hofsins munu fá stimpil og minjagrip í þakkarskuld fyrir heimsókina. Ekki missa síðan af djamminu! Ekki láta þér bregða þótt vatni sé helt yfir þig þó þú biðjir um að vera látin/nn í friði í flottu djammfötunum… þannig ég mæli með að eyða ekki of miklum tíma í að gera þig til.

Guðfinna Birta um Songkran í Bangkok:

,,Að vera í Bangkok yfir Songkran er eins sturlað og það gerist. Við tókum þessari hátíð fagnandi, keyptum okkur vatnsbyssur, hentum vatnsflöskum inn í ísskáp og gerðum okkur tilbúin í þessa hátíð. Við vorum meðal annars á Khao San Road og á hliðargötunni þar sem að hótelið okkar var. Upplifunin var ótrúleg. Göturnar voru pakkaðar af fólki og enginn sýndi neinum miskunn. Það var því mjög fyndið (…og jafnvel smá pínlegt) að sjá erlenda ferðamenn stíga útúr leigubílnum sínum og hlaupa í átt að hótelinu sínu með ferðatöskurnar í von um að blotna ekki. Ég get endalaust mælt með því að vera í Taílandi á meðan Songkran er – því þetta er minning sem manni langar að eiga! …og já ég mæli með að vera með vatnsheldan bakpoka/símahulstur. Því öllum er sama þótt að þau sprauti á verðmætin þín. OG – Verið með gopro á ykkur. Það er rosalega dýrmætt að eiga þessi móment á mynd!” 

2. Chiang Mai

Songkran í Chiang Mai er snilld en Elín fór þangað á Songkran árið 2012. Þrátt fyrir að vera önnur stærsta borg Taílands þá búa ekki nema rétt yfir milljón manns í henni. Það er meiri Reykjavíkurfýlingur í henni en í Bangkok því það er í rauninni bara einn miðbær miðað við í Bangkok eru svona 10 miðbæir. Fjörið er því mest megnis bara á einum stað en það er BILAÐ fjör þar! Tónleikar, froðupartí, mannmergð og bullandi skemmtun. Búddahofin eru í fjallshlíðinni og er eflaust gott og blessað að kíkja þangað ef þú týmir að missa af tveimur klukkutímum af vatnsstríðsbilun í bænum. Skemmtunin minnkar ekki þegar það tekur að kvölda, en það verður töluvert kaldara í Chiang Mai á kvöldin en á daginn. Flestir fara heim og klæða sig í þurr föt fyrir djammið. Einhverjir virðast þó ekki geta hætt að skjóta vatni úr byssum eftir að það tekur að kvölda og það er eitthvað sem maður verður að vera viðbúinn við er að blotna aftur, sama hvað.

Elín Kristjáns um Songkran upplifun í Chiang Mai:

„Minningin um Songkran í Chiang Mai er æðisleg. Það var engin miskunn sýnd neinum og allir dönsuðu með byssurnar sínar. Sumir voru með fleiri en tvær og enn aðrir voru með önnur vopn til að verja sig frá árásum hinna. Maður fór ekkert út fyrir hótels dyr nema að blotna og það voru nokkur ótrúlega skemmtileg tónleikapartí sem maður gat sótt allan daginn. Vegna þess hve kalt verður á kvöldin í Chiang Mai þá var ekkert brjálaðslega mikið um að fólk var að halda stríðinu áfram eftir sólsetur en það kom alveg fyrir. Djammið um kvöldið var ekki síður skemmtilegt og það var alveg um nóg að vera meðan á hátíðinni stóð! Örugglega langskemmtilegasta minningin er þegar vinkona mín og kærasti hennar þurftu að fara upp á rútustöð til að kaupa flugmiða og ég fór með þeim, við ákváðum að taka TukTuk þangað sem var kannski ekki alveg besta hugmynd í heimi. Vinkona mín varð alveg illa pirruð því við vorum bara ekki látin í friði á meðan við fórum í gegnum strætin. Kalt vatn, volgt vatn, kraftmiklar sprautur… you name it! Við vorum algjörlega varnarlaus. Mér fannst þetta samt alveg drullufyndið en það fannst vinkonu minni ekki! Úff hvað mig langar aftur! Ég fór síðast til Koh Samui á Songkran og mér fannst það ekki næstum jafn skemmtilegt og í Chiang Mai!“

3. Khon Kaen

Önnur stærsta borg Norðaustur-Taílands er Khon Kaen sem er jafnframt álitin höfuðborg Norðaustursins. Hún er fræg fyrir silkið sitt og Isan kúltúr, í þessari stórskemmtilegu borgi búa um 150.000 manns. Það er svona Reykjarvíkurfílingur í henni… Hennar helsta gata heitir Thanon Khao Niao (Klístraða Hrísgrjónsgatan) en hún er í raun og veru andstæðugatan við Khao San götuna í Bangkok. Ólík Khao San götunni þá er bannað að neyta áfengis á  Khao Niao og rólegheitin eru til fyrirstöðu, annað en það sem gengur á gerist á Khao San, partígötu bakpokaferðalanganna. Menningargildið í Khon Kaen er ögn hærra en partígildið eins og gerist í Bangkok og Chiang Mai en meðal atburða sem vert er að sjá meðan á hátíðinni stendur eru skreyttar buffalo kerrur, taílensk götuleikhús og svo má náttúrulega ekki gleyma því að Taílensk-norðausturlensk matargerð er með þeim betri í Taílandi. Þannig ekki missa af matarhátíðinni við Kaen Nakhon tjörnina. Svo má ekki gleyma því að Khon Kaen stendur fyrir stærstu bylgju heims í vatnssprautun! Sem er auðvitað algjör snilld.

4. Hat yai

Þriðja stærtsa borgin, í héraði Songkla við landamæri Malasíu fagna menn Songkran frá 9. til 15. apríl með endalausu vatnsstríði, ásamt skrúðgöngu og fegurðarsamkeppnum. Sjálf hef ég aldrei komið til Hat Yai. En internetið vill meina að Hat Yai lofi góðu. Þar fer fram Miðnætur Songkran skrúðganga, fríir tónleikar, froðupartí, fegurðarsamkeppni og trúarleg blómaskrúðganga svo eitthvað sér nefnt. Hátíðin fer fram í Hat Yai frá 11-15. apríl, tveimur dögum lengur en almenna venjan er! GAMAN!

5. Sukhothai

Songkran í hinu fórna konungsríki er spennandi valkostur fyrir þá sem vilja upplifa alveg hámenningalegt Songkran. Dagsskráin í Sukhothai er nokkuð fjölbreytt og er haldin á mismunandi staðsetningum en hún skartar meðal annars matarhátíð, skrúðgöngum, trúarhátíðum og fegurðarsamkeppnum og hæfileikakeppni barna svo eitthvað sé nefnt. Vatnsstríðsfjörið viðgengst að sjálfssögðu þar líka svo þú ert ekki að missa af neinu. Það er kannski aðeins meira eins og þú sért staddur einhversstaðar í Taílandi á 17.öld þegar þú ferð á Songkran í Sukhothai og upplifunin er sjálfssagt aðeins öðruvísi en í Bangkok og Chiang Mai í froðupartíium og rave-fjörum. Songkran í Sukhothai er því fyrir menningarþyrsta sem þrá einhverskonar nostalgíuáfhrif!

Við fengum innblástur að láni frá Chick Travel Thailand varðandi þá staði sem við höfum ekki heimsótt á Songkran
Þú getur kynnt þér hátíðina betur og hvað um er að vera og hvar á heimasíðu Songkran hér.

Elín  og Guðfinna Birta unnu þessa grein saman

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.