Sólin er týnd og ástandið er heldur dapurlegt hér á suðvesturhorninu hið minnsta. Ég legg þó ekki á ykkur meira séríslenskt tuð um sumarleysið og vind mér að máli málanna. Það skal vera jólaflótti með reykvíska vísitölufjölskyldu á Jola del Sol. Stundum verður maður bara að snerta pálmatrén og láta sautján þúsund sólargeisla leika um fölan kroppinn.

Nú eru mánaðamót og því er lag að strauja kortið og splæsa í draumaferðina. Heimurinn er fullur af spennandi stöðum og hér eru nokkrir með meiriháttar aðdráttarafl fyrir sólsvelta eyjaskeggja sem þyrstir í eitthvað nýtt.

Kenía og Tansanía

#DRAUMURINN. Ég verð að horfa á eftir hlaupandi gíraffahjörð áður en ég dey. Svo á ég fullt af skrítnum rósóttum kjólum sem myndu sóma sér vel í safarí og get raulað Malaika merkilega vel. Win-win!

Sjá: Trip planner

 

Sri Lanka – Tangalle

Ayurveda heilsusetur fyrir vestræna vinnualka hljómar afar vel þegar klukkuna vantar korter í sumarfrí eftir erilsaman vetur. Nudd, náttúrulyf, jóga og gómsætt grænmetisfæði sem er eldað ofan í mann, auk sérstakrar kennslu í matreiðslu. Þetta steinliggur!

Sjá: Sen Wellness Sanctuary

Lesið: Sex flottustu strendur Sri Lanka

Perú – Macchu Picchu

Góð og gild ástæða þess að rísa upp úr sófanum og koma sér í gönguform er að skipuleggja fjallgöngu með fjölskylduna á Macchu Picchu. Inkaborgin forna liggur í rúmlega tvö þúsund metra hæð. Einn augljós ávinningur slíkrar göngu er að aðhaldið eftir jólaátið gæti reynst óþarft.

Sjá: Reasons why Peru should be your next destination

 

Jórdanía – Petra

Engan skal undra að borgin týnda sem hlaðin er úr rauðum steinum hafi verið sögusvið í fjölmörgum kvikmyndum í gegnum tíðina. Að liggja á lægsta punkti jarðar í Dauðahafinu við bókalestur eða slappa af á strönd Rauða hafsins er eitthvað sem lokkar sannarlega. Matarmenning Miðausturlanda er líka mér að skapi og ég elska marmaraklædd baðhús (hammam). Ævintýrið toppar sig eflaust með gistingu í helli!

Sjá: Airbnb

Bandaríkin – Joshua Tree

Það verður seint sagt að ég sé mikill aðdáandi Bandaríkjanna og ekki batnaði það þegar Trump settist í forsetastólinn. Eflaust hljómar það klisjukennt að gista í smekklega innréttuðum kofa með bulletproof kaffi í handgerðum bolla en ég kolféll fyrir þessari hugmynd. Takk Guðbjörg (lífrænt ræktaði jógakennarinn minn og persónulegur ráðgjafi).

Sjá: Weekend guide to Joshua Tree

Indland – Góa

Ef þú vilt núllstilla þig mæli ég með meðferð á Swan Yoga. Jógasetrið er fábrotið og vistvænt, staðsett í frumskógi með framandi dýrahljóðum. Enginn lúxus en endurnærandi er það!

Sjá: Swan Yoga Retreat

 

Taíland – Chiang Mai

Eftirminnilegt aðfangadagskvöld á fílabýli í Taílandi er fyrir löngu flutt í höll minninganna. Þar dvaldi ég ásamt vinkonu minni jólin 2006 en á býlinu búa fílar sem hefur verið bjargað úr vinnuþrælkun víðsvegar um Asíu. Ferðamönnum gefst kostur á að heimsækja býlið eða að gerast sjálfboðaliðar og aðstoða við daglega umhirðu þeirra, s.s. að baða þá og gefa þeim að borða. Fílar eru himneskar verur sem öllum er hollt að kynnast!

Sjá: Elephant nature park

Lesið: Fílar í ferðaiðnaðinum – Af hverju þú ættir ekki að fara á fílsbak

Guatemala – Lake Atitlán

Jógaástundum og kakódrykkja í tignarlegu umhverfi. Að fóðra sig á hreinu súkkulaði, gjarnan nefnt fæða guðanna, bæði bætir og kætir (þetta er ekki kostuð færsla). Spengilegir heilsugúrúar hvaðanæva að, þamba beiskt kakó í massavís og yngjast með hverjum sopa. Kakóið frá Guatemala á að vera það albesta í bransanum. Til í þetta!

Sjá: Mystical Yoga Farm

Lesið: Sjö ódýrir áfangastaðir til að heimsækja víðsvegar um heiminn

England – Brighton

Bridget Jones-jól í ljótri jólapeysu í stíl við ljótt gólfteppi með þurrt púrtvín í hönd hljómar dásamlega breskt. Ég kann vel við Breta og jól í Brighton er eitthvað sem ég á pottþétt eftir að prófa þegar börnin mín hafa aldur til að drekka púrtvín.

Sjá: Long weekend in Brighton

Myndir frá Google.

– Ingunn Eyþórsdóttir –

Instagram

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.