Við Íslendingar erum oft rosalega öfgakennd þegar kemur að nánast hverju sem er. Við erum annaðhvort rosalega hátt uppi eða rosalega lágt niðri. Mjög extreme. Þannig erum við líka þegar kemur að sólböðum. Ofmetnaður við sólbað getur kostað mann fríið og eyðileggur fyrir manni heilu dagana. Dagarnir sem hefðu þá farið í að versla, djamma eða skemmta sér á ströndinni verða til þess fallnir að maður liggi innandyra með kaldan þvottapoka eða handklæði yfir brennd húðsvæði, japlandi á verkjatöflum og drekkandi vatn, og alla jafna að engjast af sársauka. Ekki beint besta uppskriftin að hinu fullkomna fríi.

Ég á eina kunningjavinkonu sem missti sig aðeins í sólbaði og endaði á því að lenda í brunabaði upp á spítala með annars stigs bruna. Hún lék sér á ströndinni, sólaði sig og buslaði sig í sjónum á eyjum Taílands í rúmlega fjóra tíma, á háannatíma sólarinnar, og afleiðingarnar urðu skelfilegar. Stærri blöðrur hef ég eiginlega aldrei séð á ævinni. Hún segist ennþá finna mun sumsstaðar á húðinni þar sem hún brann hvað mest. Það er því ekkert grín að sólbrenna sig alvarlega, það er hreinlega ekkert skárra en að fá pott af sjóðandi heitu vatni yfir sig svona eftiráhyggja.

Sólgeislar og húðgerðir

Melanin Facts á myinterestingfacts.com Melanin Facts á myinterestingfacts.com

Eins æðislegt og það er að komast út í sólina og ná sér í góða brúnku þá er einnig varhugavert að passa sig ekkert á sólinni sjálfri. Það vita það lang flestir að sólin getur verið mjög skaðleg húðinni okkar og það eru UVA og UVB geislarnir sem koma frá sólinni sem stuðla að húðkrabbameini. Langtímaberskjöldun við þessum geislum stuðlar að vexti þessara frumna. Náttúruleg dökk hörund er í rauninni skjöldur gegn þessum geislum þar sem hún inniheldur meira melanín heldur en ljósar húðgerðir. En það er samt ekki þar með sagt að dökk húð þurfi enga utanaðkomandi vörn. Hver og einn hefur ákveðið mikið melanín í húðinni til að verjast þessum geislum náttúrulega. Því ljósari sem húðin er þeim mun minna melanín er í henni og þá þarf viðkomandi að passa sig meira en ella. Því dekkri sem húðin verður, því meira melanín myndast og skjöldurinn verður þá betri, þetta er nákvæmlega það sem við köllum sólbrúnku.

Þar sem meirihluti þjóðarinnar er hvítur á hörund þá segir það sig bara sjálft að þeir sem eru hvítir á hörund eru mun viðkvæmari fyrir sterkum geislum sólarinnar og þá sérstaklega í löndum nálægt miðbaug. Þar sem hitastigið er oft rúmlega 40°C og hitastigið í hafinu um 30°C þá er það auðvitað bara nokkuð gefið að sólin er fáránlega sterk á þessum svæðum. Íslendingar ofreyna sig stundum í þessum efnum og ætla sér að ná bronslitnum á einum degi og þar af leiðandi hanga þeir við sundlaugarbakkann eða á ströndinni tímunum saman og jafnvel á þeim tíma sem sólin stendur sem hæst: frá tíu um morguninn til tvö um daginn. Afleiðingarnar við slíkt sólbað er oftast brunabað.

The Canadian Cancer Society The Canadian Cancer Society

Ekki sleppa sólarvörn

skinconsulter.wordpress.com skinconsulter.wordpress.com

Það er alltaf áhættusamt að tana án sólarvarnar alfarið því þá er húðin algerlega berskjölduð gagnvart hættulegum UV geislum sólarinnar. Mælt er með að nota ekki sólarvörn sem er lægri en 20 SPF. Hægt er að fá þrjár gerðir sólarvarna, Sunblock , Sunscreen og Sun Protection Factor (SPF). Við þekkjum okkar sólarvarnir best sem Sun Protection Factor en þegar notuð er sólarvörn SPF 30 þá kemst 1/30 af UV geislum sólarinnar í snertingu við húðina. Sunblock er algjör sólarhindrun sem kemur í veg að sólargeislarnir komist í snertingu við húðina og Sunscreen er mjög sterk vörn sem leyfir UV geislum rétt svo að komast að húðinni, þannig geturu fengið smá sólbrúnku. Ef venjan þín er að nota sólarvörn SPF 20 heima þá er gott að margfalda þessa vörn um minnst 2-4 þegar þú ert stödd/staddur við miðbaug. Bera þarf á húðina a.m.k. á tveggja klukkutíma fresti ef þú heldur þér við á þurru landi og nauðsynlegt er að bera á þig í hvert skipti eftir að farið hefur verið ofan í sjóinn eða sundlaugina.

Spáðu aðeins í sólinni

Til að komast hjá því að brenna og jafnframt fá góðan lit þarf í fyrsta lagi að þekkja sína eigin húð og geta gert einhverskonar viðmið hvað viðkomandi þarf sterka sólarvörn. Ef þú ert með mjög hvíta húð sem er viðkvæm fyrir sól þá þarftu mjög líklega sterkari sólarvörn en ella. Sérstaklega í löndum þar sem sólin er svo sterk að heimamenn eru þeldökkir á hörund, náttúruvalið muniði. Síðan þarf líka að hafa í huga hversu heitt er úti og hversu hátt sólin er á lofti. Alla jafna þá er það þannig með sólbað eins og svo margt annað að gott er að gera það í hófi. Ef maður ofgerir eitthvað þá verður útkoman oftast ekki góð. Því er gott að tana í skrefum. Gott er að byrja á taka stutt sólböð og síðan pásu í skugga til að venja húðina á breyttar aðstæður. Því meira sem húðin dekkist án þess að brenna, því betri skjöld fær hún af náttúrunnar hendi.

Létt föt, sérstaklega yfir axlirnar

Þegar það er ekki verið að tana markvisst heldur verið að versla á mörkuðum og annað þá getur sólin verið lúmsk. Það eru ekki fáir sem hafa farið út í tvo klukkutíma að versla á mörkuðum og koma til baka með rjóðar axlir og brennt nef. Það er því málið að vera með sólhatt, derhúfu eða sólhlíf til að verja andlitið. Eitthvað létt yfir axlirnar eins og hvít blússa eða bolur úr léttu efni er frábær í svona hita. Sólhlífin hefur mjög góða vörn yfir bæði höfuðið og axlirnar. Sólhlíf er yfirleitt einnig notuð sem regnhlíf þannig ef það rignir þá ertu að slá tvær flugur í einu höggi! Hafið það einnig í huga að mikil berskjöldun gagnvart sólinni getur einnig valdið alvarlegum sólsting og það er ekkert grín að fá einn slíkan, enda lífshætturlegur.

Sólbruni: Remedía

Fyrstu einkenni sólbruna er rjóð húð, viðkvæm viðkomu og heit á yfirborðinu. Oft versnar sársaukinn hægt og rólega í marga klukkutíma ef um alvarlegt tilfelli er að ræða. En oftast er sólbruni mildur og þá er gott að leggja kaldan þvottapoka á húðina eða ís vafinn í handklæði á húðina til að róa hana niður. Gamla ráðið, að bera aloe vera er alltaf klassískt en ef bruninn er alvarlegur þá þarf oft einnig að bera sársaukastillandi lyf og/eða krem til að lina þjáningarnar. Svo er MJÖG mikilvægt að drekka  nóg af vatni, húðin missir rosalega mikinn vökva við það eitt að liggja í sólbaði og ef hún verður fyrir skaða þá þarf líkaminn ennþá meiri vökva en ella. Ef stórar blöðrur byrja að myndast á húðinni sem þarf að sprengja þá er skynsamlegt að koma sér í læknishendur. Ekki er mælt með því að stinga sjálfur á stórar blöðrur því af því getur stafar alvarleg sýkingarhætta.

Ef húðin hefur þegar brunnið þá er ráðlagt að liggja ekki meira berskjaldaður í sól fyrr en húðin hefur náð sér aftur. Lítið svo á að sólbruni er eins og opið sár og hann skal ekki meðhöndla öðruvísi en svo. Alvarlegur sólbruni getur valdið varanlegum skaða og einnig aukið líkur á húðkrabbameini.

Farið varlega, hugsið fyrst, metið stöðuna, framkæmið svo
Stundið sólböð skynsamlega!

Til er urmull sólarvarna sem eru bæði góðar og slæmar. Varist að kaupa sólarvarnir með hvíttunarefnum eins vill stundum fást í löndum þar sem það þykir fallegt að vera hvítur. Veljið sólarvörn sem þið teljið henta ykkur best.

Hún Þórunn Ívars tískubloggari prófaði nokkrar tegundir sólarvarna og deildi með lesendum sínum. Færsluna finnið þið hér.

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.