Grímsey er nyrðsti þéttbýliskjarni Íslands og sá eini sem er það norðanlega að ná yfir heimskautsbauginn. Sérkenni eyjunnar er þó ekki einungis landfræðileg staða hennar, heldur einnig hið mikla fuglalíf sem þar er að finna yfir sumartímann, miðnætursólin sem og samheldni eyjaskeggja, en íbúafjöldinn er ekki nema um 80 manns að meðaltali yfir árið. Þó svo að heimamenn hafi flest allir lifað við sjómennsku í gegnum tíðina þá er ferðaþjónustan farin að verða algengari atvinnugrein, en Grímsey fær sinn skammt af öllum þeim fjölda ferðamanna sem streyma til landsins – sem er skiljanlegt, enda ekki á hverjum degi sem fólki gefst tækifæri á að labba yfir heimskautsbauginn!

Hvað er að gera á Grímsey?

Langt fram eftir sumri er hægt að sjá fjöldan allan af lundum og öðrum fuglategundum, en lundarnir láta sjá sig á eyjunni þar til í byrjun ágúst, jafnvel eitthvað lengur. Mikilfengleg björg eru á eyjunni og gaman er að fylgjast með öllum þeim fjölda fugla sem láta fara vel um sig í björgunum.

Auk mikilfenglegra bjarga eru flottar stuðlabergsmyndanir víða á eyjunni, fallegt útsýni yfir á meginlandið og ýmis listaverk utandyra, en sólstóllinn og minnismerki Fiske eru dæmi um nokkur þeirra. Ýmsar gönguleiðir eru í boði, en sem dæmi er gaman að labba út að vitanum sem er í suðausturhluta eyjunnar.

Hægt er að skella sér í sund, en innisundlaug og heitur pottur er á svæðinu. Möguleiki er að bóka bátsferð í kringum eyjuna þar sem gefst einnig kostur á að veiða, auk þess sem hægt er að leigja hjól til að einfalda sér ferðina milli staða.

Það fara fáir til Grímseyjar án þess að stíga fæti yfir heimskautsbauginn. Norðan við flugvöllinn er hægt að labba formlega yfir bauginn og nauðsynlegt að ná af sér mynd við það mikla afrek, en þar er einhverskonar brú og vegvísir sem er orðið að hálfgerðu kennileiti Grímseyjar.

Samgöngur þangað og þar

Nokkrir kostir eru til að komast til Grímseyjar en algengast er að taka ferju þangað. Á sumrin eru samgöngurnar mun betri og fer ferjan Sæfari milli Dalvíkur og Grímseyjar nánast daglega og stoppar í eyjunni í allt að 5 klukkustundir, svo fólki gefst nægur tími til að skoða helstu staðina. Fyrir þá sem kjósa að hafa lengri tíma er hægt að taka ferjuna út í eyju og til baka daginn eftir, en á sumrin gengur ferjan alla daga nema þriðjudaga og fimmtudaga. Ef það hentar ekki að taka ferjuna frá Dalvík eru nokkuð regluleg flug frá Akureyri og Reykjavík til Grímseyjar. Auk þess er hægt að bóka einkaflug eða skipulagða hópferð með ferju frá Akureyri, en báðir möguleikar bjóða upp á stutt stopp í eyjunni til að skoða það allra helsta.

Þegar á eyjuna er komið er málið einfalt. Engin flókin samgöngukerfi eða tímatöflur sem þarf að leggja á minnið, enda stutt á milli staða og því einfaldast að labba eða hjóla um eyjuna. Það er þó ráðlagt að leggja það á minnið hvernær ferjan fer til baka, þó svo að það séu verri staðir til að vera strandaglópur á!

Gistimöguleikar & önnur þjónusta

Fyrir þá sem vilja gefa sér meiri tíma á þessari litlu paradísareyju þá eru nokkrir valmöguleikar í boði hvað varðar gistingu. Tjaldstæði er á svæðinu og er það oft ódýrasti og eftirminnilegasti kosturinn, en fyrir þá sem vilja aðeins meiri þægindi þá eru tvö gistihús í boði, sem og félagsheimili þar sem hægt er að bóka svefnpokapláss fyrir hópa.

Einnig er á eyjunni kaffihús, veitingastaður og verslun, en gott að hafa í huga að opnunartímarnir eru ekki alveg jafn tíðir eins og maður er vanur á stærri stöðum. Það er þó flest öll þjónusta til staðar þegar ferjan frá Dalvík er í landi, en annars samkvæmt samkomulagi. Það er því gott að hafa það í huga ef planið er að vera í einhvern tíma á eyjunni og þá sérstaklega ef farið er þangað að vetri til þegar nánast allt er svo gott sem lokað.

Það sem kom mér mest á óvart við Grímsey er hversu rosalega lítið samfélag býr þar, en það er held ég það sem gerir eyjuna svona sérstaka og andrúmsloftið einstakt. Einnig kom á óvart hversu auðvelt er í rauninni að fara þangað. Í mörg ár dreymdi mig um að fara til Grímseyjar en sú pæling varð aldrei að neinu vegna tímaleysis, en ég hélt að nauðsynlegt væri að gista að minnsta kosti eina nótt í eyjunni til að hafa nægan tíma til að skoða allt.

Það er svo sem enn á to do listanum að tjalda undir miðnætursólinni í Grímsey einn góðan sumardag, en 5 klukkutímar er hinsvegar nægur tími til að labba um og skoða það helsta sem eyjan hefur uppá að bjóða.

Ég vona að þetta verði til þess að fleiri líti á Grímsey sem áhugverðan stað til að heimsækja, en hér að neðan eru nokkrar myndir í viðbót frá eyjunni fögru!

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.