Óeirðirnar í Egyptalandi hafa orðið til þess að margur ferðamaðurinn lítur framhjá landinu sem spennandi áfangastað. Þrátt fyrir aðvaranir og neikvæðan fréttaflutning af ástandinu þar í landi lét Sandra Marín Kristínardóttir sem heldur út blogginu minsyn-sanamarin.blogspot.no það ekki stoppa sig, og fann leið til að fara til Egyptalands og njóta þeirrar menningar sem þar býr. Þessi frásögn Söndru var fyrst birt á blogginu hennar.

Upphafleg slóð: https://minsyn-sanamarin.blogspot.no/2018/02/feralog-egyptaland.htmlÉg var að ljúka við tveggja vikna ferðalag um Egyptaland en mér hafði aldrei dottið í hug að ferðast þangað fyrr en síðastliðið haust, enda ef maður gúgglar „Egyptaland fréttir“ þá eru fyrstu fyrirsagnirnar sem koma upp:

„15 teknir af lífi í Egyptalandi“
„43 fengu lífstíðardóm“
„Færri heimsækja Egyptaland“
„26 drepnir í árás í Egyptalandi“
„Blaðamenn dæmdir til dauða“
„Níu lögreglumenn ákærðir fyrir barsmíðar“

Þetta hljómar ekki vel og gerir landið lítt spennandi fyrir ferðamenn nema….maður skoði aðeins betur og athugi hvort ástandið sé í raun svona slæmt. Árið 2011 varð mikil uppreisn almennings í landinu og þáverandi forseta, Múbarak, var steypt af stóli. Í kjölfarið fækkaði ferðamönnum og þar með tekjum landsins. Allt fór í ákveðna kyrrstöðu. Í dag eru Egyptar að reyna að breyta þessu, fá fleiri ferðamenn og reyna að breyta ímynd landsins.

Lesa einnig:

Ása Steinars:Ferðalag um Íran

Norður Kórea: Ferðalag Ásu í máli og myndum

Ég ákvað fljótt að finna mér skipulagða ferð enda ekki mælt með því að konur ferðist einar í landinu, og hvað þá ljóshærðar, vestrænar konur. Ég er mjög glöð að ég ákvað að gera það enda hefði verið mjög erfitt að fara á eins fjölbreytta staði og ná að gera allt á eins skömmum tíma ef ég hefði verið ein. Það er líka nauðsynlegt að fá leyfi frá yfirvöldum til þess að gera ýmsa hluti sem ég hefði talið sjálfsagða s.s. ferðast á ákveðna staði, skoða fornminjar, sigla á Níl o.fl. Í Kaíró er líka sérstök lestarstöð sem er eingöngu ætluð ferðamönnum en þeir mega ekki nota ákveðnar lestar sem innfæddir nota. Fyrir mig hefði verið erfitt að vita allt þetta fyrirfram. Ég bókaði tveggja vikna ferð með G adventures en ég hef ferðast með þeim tvisvar áður (til Marokkó og Bólivíu/Perú). Við vorum alls 15 í hópnum og svo vorum við með innfæddan fararstjóra sem er með mastersgráðu í egypskri sögu… ekki slæmt það.

Á þessari mynd má sjá leiðina sem við fórum (mynd tekin af heimasíðu G adventures). Ferðin hófst og endaði í Kaíró en við fórum á nokkra staði í millitíðinni. Ég ætla ekki endilega að segja frá öllu sem við gerðum heldur frekar skrifa um það sem mér fannst áhugaverðast og merkilegast. Ég var með fullkominn ferðafélaga en það er elsku mamma sem er alltaf til í að þvælast um með mér. Ég þarf bara að finna áfangastað og hún segir (næstum) alltaf já.

Við lentum í Kaíró um klukkan fimm að morgni til og fengum að sjá fallega sólarupprás á leiðinni á hótelið. Það er ekki hægt að líkja Kaíró við neina borg sem ég hef komið til. Hún er að mínu mati óspennandi; þar eru skítug háhýsi, mikið ryk og mengun og allt fullt af rusli hvert sem litið er. Þarna búa um 20-30 milljónir við alls kyns aðstæður en talið er að heildarfjöldi íbúa í Egyptalandi séu um 100 milljónir manna.

 
Einn af pýramídunum í Giza

Fyrstu dagana skoðuðum við pýramída, bæði þá allra frægustu sem eru í Giza (t.d. the Great Pyramid) og einnig aðra eldri sem eru í Saqqara og Dahshur. Það var alveg magnað að sjá þá. Sá hæsti er rétt tæplega 140metrar á hæð eða næstum tveir Hallgrímskirkjuturnar. Þetta eru stórkostleg mannvirki og þrátt fyrir að helstu fræðingar í dag séu með kenningar um hvernig þeir hafi verið byggðir er ekkert víst að það sé eitthvað til í þeim. Partur af grjótinu sem notað er í pýramídana er granít en eini staðurinn í Egyptalandi þar sem finna má granít er í Aswan sem er í um 900 km fjarlægð frá pýramídunum. Því er talið að útbúnir hafi verið tréflekar í Aswan, grjótið olíuborið svo auðveldara væri að draga það og því hafi síðan verið siglt niður Níl… bara eins og manni sjálfum hefði dottið í hug ekki satt? Pýramídarnir standa hins vegar ekki á bökkum Nílar þannig það hefur verið þónokkuð mikil vinna eftir, þó grjótið hafi verið komið áleiðis. Talið er að það hafi verið útbúnir einhvers konar rampar í kringum pýramídana til þess að auðvelda vinnuna við bygginguna… en samt, meikar þetta varla sens. Það hlýtur að hafa verið einhver mikil tækni til á þessum tíma (ca 2500 f.Kr.) sem við vitum ekki um og hefur týnst í gegnum aldirnar.

 
Þrír stærstu pýramídarnir í Giza

En til hvers voru pýramídarnir? Þeir voru grafhýsi mikilvægra manna t.d. helstu konunga og fjölskyldna þeirra á þessum tíma. Einnig var sett alls kyns dót inn í pýramídana sem átti að nýtast í næsta lífi. Það er samt hálf kaldhæðnislegt að Egyptum til forna var mjög umhugað um næsta líf og að maður þyrfti svo sannarlega að vera góður í þessu lífi svo maður ætti einhvern séns í því næsta. Mikilvægir og ríkir menn létu því grafa sig með alls kyns gulli og gersemum sem verkamennirnir (sem byggðu grafirnar) stálu svo þegar þeir voru búnir að kveðja hinn látna. Þeir hafa því ekki haft djúpar áhyggjur af næsta lífi?

 
Rauði pýramídinn í Dahshur (opið sést fyrir aftan okkur)

Við fengum að fara inn í nokkra pýramída en sá sem mér fannst hvað merkilegast að fara inn í var rauði pýramídinn í Dahshur. Þar voru engir ferðamenn fyrir utan hópinn minn og upplifunin varð því einhvern veginn enn tilkomumeiri fyrir vikið. Til þess að komast inn í pýramídann gengum við fyrst upp ca hálfan pýramídann að utanverðu og þurftum síðan að bakka um 50 metra niður þröngt op. Það var eins og allt loft hefði stöðvað og það væri engin hreyfing á því. Það var algjör kyrrð og ró og ég lokaði augunum og reyndi að ímynda mér bygginguna á pýramídanum og ferlið þegar konungurinn var gerður að múmíu, en það var einnig gert inni í pýramídunum. Það var hálfgerð gaslykt innst inni í pýramídanum en leiðsögumaðurinn okkar sagði að það væri af líffærunum (sem eru tekin út þegar hinn látni er gerður að múmíu). Hvort sem það er bara til þess að gera söguna góða eða er heilagur sannleikur, skiptir ekki öllu máli. Að koma inn í pýramída, og sérstaklega þennan, var upplifun sem ég hefði ekki viljað sleppa.

 
Kom Ombo musterið (takið eftir smáatriðunum)

Við skoðuðum nokkur musteri á ferð okkar um landið s.s. Philae, Kom Ombo og Karnak. Þau eru öll tileinkuð sitt hverjum guðinum og þau eru virkilega vel farin, miðað við að þau hafi verið byggð einhverjum öldum fyrir Krist. Þar má finna alls kyns myndir og tákn (hieroglyphs). Fyrir ykkur sem ekki vitið þá er hieroglyphs ritmál Egypta til forna (ca 3000 f.Kr. – 400 e.Kr.) og þekking á því hafði tapast í gegnum aldirnar. Það var ekki fyrr en árið 1799 sem Rosetta steinninn fannst og um tuttugu árum seinna sem okkur tókst loksins að öðlast skilning á þessu forna tungumáli. Rosetta steinninn hefur að geyma sama texta á þremur ólíkum tungumálum og þegar fræðingum tókst loksins að átta sig á því opnaðist algjörlega nýr heimur og við fengum mun dýpri þekkingu á sögu Egypta og þar með alls heimsins. Ef ég væri á leið til Egyptalands núna þá myndi ég vera búin að skoða þetta dýrmæta tungumál aðeins og vera kannski búin að læra nokkur tákn (þau eru ekki svo mörg, og sömu táknin koma fyrir aftur og aftur)… bara til þess að fá enn meira út úr ferðinni.

 
Nokkrir af þekktustu guðum Egypta í fornöld – til hliðar sést hieroglyphs

Annað sem mér fannst standa upp úr í ferðinni var að fara í dal konunganna (Valley of the kings) en það er dalur með 63 grafhýsum ýmsa mikilvægra manna (ekki bara konunga þó nafnið gefi það til kynna). Grafhýsin eru um 1000 árum yngri en pýramídarnir (frá ca 1500 f.Kr.) og voru virkilega vel falin inn í fjöllin. Leiðsögumaðurinn sagði okkur að konungarnir á þessum tíma hefðu líklega séð hvernig farið hefði fyrir forfeðrum þeirra þ.e.a.s. öllu stolið úr grafhýsum þeirra og því hefðu þeir ákveðið að eiga jafn falleg grafhýsi… en fela þau betur til þess að hindra það að einhverjir kæmu og rændu úr þeim þegar þeir væru allir. Að fara inn og skoða nokkur grafhýsi var algjörlega ólýsanlegt. Þar eru myndir af öllu því sem er mikilvægt að taka með í næsta líf og líka myndir af guðum sem munu hjálpa manni og styðja mann á þessari leið. Eftir því sem maður kemur innar í grafhýsin eru fleiri litir á myndunum enda hafa litirnir varðveist hvað best innst inni. Leiðsögumaðurinn okkar sagði að fræðingar nú til dags hefðu fundið út að hunangi hefði verið blandað við þessa náttúrulega liti til þess að fá þá til að endast betur. Maður spyr sig hvernig Egyptar gátu vitað þetta fyrir meira en 3500 árum??? Því miður máttum við ekki taka neinar myndir þarna inni nema greiða sérstaklega fyrir það…

 
Colossi of Memnon sem eru risastyttur rétt hjá dal konunganna

Það sem var síðan að mínu mati rúsínan í pylsuendanum var Siwa oasis. Það er lítið þorp með ca. 30þúsund íbúum, lengst inni í eyðimörkinni. Það tók um 10klst að keyra þangað frá Alexandríu og á leiðinni keyrðum við í gegnum endalausa eyðimörk. Það sem sló mig hvað mest á leiðinni var þó að sjá allt plastruslið á leiðinni. Við erum virkilega byrjuð að eyðileggja jörðina með þessu endalausa plasti. Það sem mér fannst líka skrítið er að Egyptar virðast ekkert kippa sér upp við þetta rusl, það er bara orðið partur af landinu, mjög sorgleg staðreynd.

 
Á leiðinni til Siwa

Á leiðinni vorum við oft stoppuð af hermönnum eða lögreglunni og látin sýna vegabréfin enda þarf maður að hafa beðið um sérstakt leyfi til þess að fara til Siwa. Leiðsögumaðurinn okkar sagði okkur líka frá því að fólk væri mikið að reyna að komast yfir landamærin frá Líbýu (enda Siwa bara í ca 40km fjarlægð frá landamærunum) og þess vegna væri svona mikil gæsla á leiðinni. Það er algjörlega magnað að vera búin að keyra í marga klukkutíma í gegnum eintóma eyðimörk og koma síðan á stað þar sem má finna stórt stöðuvatn og byggð. Í Egyptalandi eru nokkrar vinjar en Siwa er sú eina sem er opin ferðamönnum (þarf þó að sækja um leyfi) og þar byrjaði ferðamennska einungis fyrir fimm árum. Þetta er virkilega einangraður staður en ástæðan fyrir því að fólk getur búið þarna er vatnið. Það gerir íbúum kleift að rækta ólívur og döðlur. Það að koma til Siwa er eins og að fara tugi ára aftur í tímann get ég ímyndað mér. Húsin eru öðruvísi og fólk hylur sig enn meira en annars staðar í Egyptalandi. Konurnar eru algjörlega huldar; meira að segja með svart tjald fyrir augunum, sem bara þær geta séð út um en við ekki inn um. Á þessum stað fórum við m.a. í eyðimerkur-safarí og á sandbretti. Einn daginn hjóluðum við um Siwa og það var mjög mikil upplifun enda fengum við hjól sem væru löngu komin á haugana ef þau væru á Íslandi; bremsulaus, ryðguð, einsgírs hjól og ekki mátti miklu muna að þau dyttu í sundur við notkun… en allt þetta var partur af upplifuninni og það hefði sannarlega ekki verið eins að hjóla á flottum tugþúsunda króna hjólum J

 
Að njóta eyðimerkur-safarísins í botn… aftan við mig má líka sjá steingervinga af hafsbotni

Við sáum múmíur á nokkrum stöðum í Egyptalandi, bæði af mönnum og dýrum. Ég hafði eiginlega ekki gert mér í hugarlund hvernig þær væru í raun og veru áður en ég sá þær. Við sáum t.d. lamb sem skv. aldursgreiningu er ca 4000 ára gamalt. Það var enn hægt að sjá part af ullinni af því. Egyptar gerðu krókódíla líka að múmíum, en sagan af því er skemmtileg. Krókódílar höfðu lengi verið til vandræða í Egyptalandi enda gátu þeir verið hættulegir. Því var ákveðið að vingast við þá og gera þá heilaga, svo fólk þyrfti ekki að hræðast þá lengur. Egyptar vissu að krókódílar hefðu allavega einn kost og það var að þeir væru mjög frjósamir. Því komst á sú hefð að ef fólk hefði hug á að fjölga sér, myndi það færa fórnir og biðja til krókódílanna. Þess vegna eru fjölmargar múmíur af krókódílum í Egyptalandi og þær eru virkilega vel með farnar.

 
ca. 4000 ára gömul múmía (hægt að sjá gatið á kviðnum á henni þar sem líffærin voru tekin út)

Egyptaland er svo sannarlega magnað land og það er svo skrítið að hugsa til þess að ef ekki væri fyrir fljótið Níl þá væri ekkert líf í Egyptalandi, þar sem yfir 90% af landinu er bara hrein eyðimörk. Ég hef ekkert skrifað um nóttina sem ég gisti á seglbát á Níl eða það að búið er að færa fjölmargar af fornminjunum á nýja staði svo þær fari ekki undir vatn eða matinn eða….

Ég myndi svo sannarlega mæla með ferðalagi um Egyptaland ef þú ert að spá í áfangastað fyrir næsta ferðalag og endilega ekki hika við að hafa samband. Ég gæti skrifað svo miklu meira um þessa ferð enda á hún eftir að vera mér ofarlega í huga lengi, lengi.

 
Drykkurinn sem ég drakk hvað mest í Egyptalandi; heimagerður límónusafi

Eftir tvær vikur í Egyptalandi flaug ég til London þar sem ég eyddi nokkrum dögum með Steina bróður, Jinny og Emíliu Sögu. Mamma flaug aftur til Íslands. Þar á eftir flaug ég til Kristiansand þar sem ég heimsótti Lalla vin minn. Núna sit ég á hosteli í Osló og á morgun á ég flug til Tenerife.

About The Author

Gestabloggarar eru ýmsir aðilar sem hafa frumsent okkur greinarnar sínar eða leyft okkur að endurbirta greinar eftir sig af öðrum miðlum. Vilt þú birta færslu á Gekkó? Ýttu á umslagið í horninu eða sendu okkur póst á ritstjorn@gekko.is og við kíkjum á þetta saman!

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.