Pragulic – another face of Prague

Eins og hún Hjördís hefur komið inná, þykir mér mikilvægt að vera meðvituð um hversu gott ég hef það og minni ég mig reglulega á það, sérstaklega á ferðalögum.
Mín fyrsta upplifun af Prag var eins og blaut, köld og skítug tuska beint í andlitið og það tók mig tíma að jafna mig og þessi ferð til Prag varð til þess að ég lít öðruvísi á lífið, sjálfa mig og ferðalög.

Ég var ný komin til Prag að heimsækja þýskan vin minn þegar hann hitti Karim vin sinn fyrir utan lestarstöðina.
Ég rétt hafði tíma til að koma mér á hostelið og droppa af mér bakpokanum og línuskautunum áður en að ferðin sem að Karim bauð okkur í, hófst um svörtustu götur Prag.
Viku áður en ég fór til Prag hafði þessi vinur minn prufað 24 tíma sem heimilislaus maður í þágu blaðamennsku og þannig kynnst Karim.

Lestu líka: 

10 tips fyrir Interrail eða þitt fyrsta bakpokaferðalag

9 ára og heimilislaus

*TRIGGER WARNING – þessi grein snýst ekki um fallega Kastala og matarsiglingar*

Karim er fæddur rétt fyrir utan Prag. Hann var bara 9 ára þegar að hann tók sjálfur þá ákvörðun að flytja að heiman og á götur Prag.
Fljótlega fór hann að stunda vændi. Hann var í ,,eigu” eldri manns sem hafði ,,tekið hann að sér” og klæddi hann í kjóla og málaði eins og stelpu, þannig var víst hægt að græða mest.
Karim varð að eigin sögn fljótt vinsælastur á markaðnum en samkeppnin var hörð. Stuttu eftir að hann varð 18 ára var hann svo smitaður viljandi af AIDS af sínum helsta samkeppnisaðila, sem að varð til þess að hann ,,neyddist” til þess að hætta að stunda vændi og varð uppúr því algjörlega allslaus.

Eftir nokkur ár á götunni, þar sem Karim hafði alls ekkert á milli handanna byrjaði hann ásamt öðrum að sýna ferðamönnum dökku hliðar Prag. Þegar við kynntumst honum átti hann meira að segja þak yfir höfuðið þar sem hann bauð öðru heimilislausu fólki húsaskjól, bað og mat, þrátt fyrir að eiga ekki það mikið sjálfur. Hann var líka búinn að kynnast manni sem hann ætlaði að eyða ævinni með.

Pragulic

Pragulic er lítið fyrirtæki sem ögrar staðalímyndum um heimilisleysi með því að bjóða fólki að upplifa Prag frá heimilislausu sjónarhorni.

Pragulic er hugmyndin hans Karim. Í dag eru átta heimlislausir Pragbúar sem að bjóða fólki ,,heim” til sín og sýna þeim hvernig Prag getur verið í alvörunni – að það snúist ekki allt um kristala, kastala og fallegar brýr – og svona að svona sé staðan allsstaðar í heiminum. Að heimasíðunni þeirra að dæma (sem að var ekki til þegar að við fórum í þessa ferð árið 2014) virðist vera hægt að velja sinn leiðsögumann/konu og lesa um áður en að ferðin hefst. Leiðsögumennirnir/konurnar virðist allt vera hið frábærasta fólk og langar mig mest að fara í ferð með þeim öllum.

Ferðin okkar byrjaði klukkan 10 að kvöldi til. Hann sýndi okkur hvert skal fara og hvaða götur ber að varast. Við skoðuðum strippklúbba og hittum stelpur sem að unnu sem súludansarar til að greiða fyrir nám, þær sögðust flestar vera sáttar við þessa vinnu en það var samt óþægilegt að sjá að þetta var aðferð sem þær notuðu til að safna pening. Við sáum líka veitingastað þar sem að eigandi staðarins hafði verið í svo stórri skuld að hann var sjálfur skorinn niður í gúllas.

Við gengum um miðborgina í um tvo tíma og sáum staði sem að Karim hefur búið á og staði sem hann mælti ekki með að við myndum skoða ein eftir myrkur. Hann sagði okkur frá því að löggan tekur auðveldlega á móti mútum og er því þannig partur af þeirri spillingu sem á sér stað. Hann sagði okkur líka frá því að á þeim tíma um 33.000 heimilislausir í Tékklandi.

Hann talaði enga ensku svo það var túlkur með í för sem að túlkaði allt og hjálpaði Karim án þess að þiggja laun. Þrátt fyrir að þessir tveir tímar hafi verið sjokkerandi fyrir sálina var eitthvað svo fallegt við þetta kvöld. Karim virtist hafa það svo gott og hann var augljóslega mjög þakklátur, þrátt fyrir allt. Eins og hann sagði sjálfur þá var þetta líf sem hann valdi sjálfur aðeins 9 ára.

Í lok ferðar bauð hann okkur að kaupa af honum listaverk sem hann hafði sjálfur málað sem við að sjálfsögðu gerðum. Við settumst niður með honum og drukkum með honum límonaði, hann er neflilega líka hættur að drekka.

Þessi ferð hverfur aldrei úr mínu minni og er þetta sennilega sú ferð sem hefur haft mest áhrif á mig og sú ferð sem ég hef sagt flestum frá.
Daginn eftir naut ég þess ekki beint að skoða Prag eins og ég hefði gert og ég var með hálfgert samviskubit allan tímann. Það tók mig aðra ferð til Prag til þess að virkilega njóta þessarar fallegu borgar, því þótt hún egi svartar hliðar er þetta svo sannarlega falleg borg og ein af mínum uppáhalds! Borg sem allir ættu að skoða.

Ef þú átt leið til Prag, gerðu það fyrir mig að leyfa Karim og félögum að hafa áhrif á þig.
.. Og ef þú hittir hann, þá bið ég að heilsa, ég vona að hann hafi það gott.

Lestu líka:

Prag: Myndir & meðmæli

 

Íris

 instagram

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.