Það kom mér skemmtilega á óvart að ferðast til Singapore. Við ferðuðumst „blint í sjóinn“ þangað – vorum ekki búin að lesa okkur neitt til um borgina heldur ætluðum bara að fara 100% án stress í gegnum hana. Bara sjá það sem við myndum sjá og njóta þess.

Til að byrja með ætla ég að mæla með gistingunni okkar! Enn á ný duttum við niður á æðislega Airbnb íbúð í glæsilegum turni. Þegar þú býrð á Balí er algjört ævintýri að komast í útsýnisíbúð yfir stórborgina og sofa með dregið frá á næturnar til að njóta borgarljósanna.

 

Íbúð var tandurhrein, með öllum því nauðsynlegasta og á frábærum stað! Hún er sjálf á 11. hæð, á 5 hæð er sundlaug og á 21. hæð er útiaðstaða með litlum laugum, sundlaugabar og æðislegum sófum til að eiga notarlega stund í með frábæru útsýni!

 

Sentosa

Í Singapore er ótal margt hægt að gera sér til afþreyingar. Við kíktum á eyjuna Sentosa sem er í raun afþreyingar-eyja rétt utan við Singapore. Þar eru hótel, skemmtigarðar, allskonar leiktæki, golfvellir, strönd og fleira bara til afþreyingar og skemmtunar. Við tókum Cable Car yfir á eyjuna (sem eru vagnar líkt og myndin hér fyrir neðan) og skoðuðum okkur þar um. Hún er frábær skemmtun og virkilega gaman að skoða hana.

www.singaporecitypass.com

Gardens By The Bay

Það var síðan algjör dásemd að mæta seinnipartinn í Gardens By The Bay án þess í raun að vita nákvæmlega út í hvað við vorum að fara! Við röltum um garðinn í rólegheitunum og skoðuðum gróðurinn sem telur um 200 mismunandi tegundir og allt það ótrúlega skemmtilega og flotta sem garðurinn hefur upp á að bjóða.

 

Satay By The Bay

Við stefndum að Satay By The Bay í kvöldmat, sem er „food court“ að mínu skapi, þar sem fólk keppist við að selja mér einn af mínum uppáhalds réttum, grillaðann kjúkling á spjóti með hnetusmjörssósu og hrísgrjónum! Það er þó alls ekki eini rétturinn sem hægt er að fá þar, heldur er þar mikið úrval af þeim „götumat“ Singapore er þekkt fyrir.

www.ordinarypatrons.com

Þegar sólin fór síðan að setjast upplifðum við eitt af þeim fallegustu sólsetrum sem við höfum séð, með skuggamyndum af byggingunum og Singapore Flyer (sem er parísarhjól í Singapore). Þessi staður og þetta útsýni var gjörsamlega tryllt!

 

 

Í garðinum má finna um 12 mjög stór málmtré, sem sum hver eru um 50 metra há. Á hverju kvöldi fara fram 2 ljósasýningar (klukkan 19:45 og 20:45) í garðinum þar sem þessi tré lýsast upp í allskonar litum og ljósin dansa á þeim í takt í tónlist sem spiluð er undir. Það er algjörlega magnað að fara inn á milli þessara stóru trjáa, setjast eða leggjast í jörðina og horfa upp á sýninguna. Það er eins og að vera í einhverju trylltu Avatar-ævintýri!

 

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

One Response

  1. Suður - Frakkland í allri sinni dýrð! | Gekkó

    […] Ég mæli svo ótrúlega mikið að ferðast án þess að plana of mikið, leyfa sér að njóta og uppgötva hvað landið sem þú ert staddur í hefur upp á bjóða og fara út fyrir þessar hefðbundu stórborgir sem við erum svo gjörn á að festast í. Við gerðum slíkt hið sama þegar við ferðuðumst til Singapore, sem má lesa um hér. […]

    Svara

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.