Hver elskar ekki að láta hugann reika og plana næsta frí eða tímabundinn flótta frá klakanum?… en stoppar svo þar, því ferðin er hreinlega orðin of dýr?

Hér áður fékk oft spurninguna hvernig ég ætti efni á því að ferðast svona mikið (oh the good old days), en sannleikurinn er einfaldlega sá að ég hef yfirleitt valið ódýrari áfangastaði yfir þá dýrari. Ég hef sem dæmi lítið sem ekkert ferðast um Bandaríkin, en aftur á móti ferðast mikið um Asíu og Mið-Ameríku. Ég hef séð mun meira af austur- og suðurhluta Evrópu heldur en ég hef séð af öðrum stöðum álfunnar, hreinlega því það er mun ódýrara að ferðast þar. Road trip um Noreg og lúxushótel í miðbæ Parísar bíða mín því enn þar til ég verð eldri og ríkari.

Fyrir þá sem eru í svipaðri stöðu og ég, þá eru hérna nokkrar hugmyndir af ódýrum áfangastöðum í Evrópu. Listinn hér að neðan er hins vegar bara brota brot af öllum þeim fallegu stöðum sem eru í hverju landi fyrir sig og ég mæli því með því að láta hugann reika og skoða líka hvað er að gera í kring.

Trip Planner er svo fullkominn til að fá hugmyndir af því sem hægt er að gera í hverju landi fyrir sig!

Theth

– Albanía –

Það eru fáir staðir sem hafa heillað mig jafn mikið og Theth náði að gera. Hvort heldur sem það var landslagið, fólkið sem þar býr eða ævintýrið við að komast þangað sem gerði útslagið, þá get ég ekki mælt nægilega mikið með þessu litla fjallþorpi í norður Albaníu. Theth samanstendur af nokkrum fjallakofum og gistihúsum og liggur mitt í Prokletije fjallagarðinum – eða albönsku ölpunum eins og heimamenn kjósa að kalla það. Margir leggja leið sína til Theth fótgangangi frá næstu þorpum og er dagsganga frá þorpinu Valbone algengust, en gangan tekur um 8 klukkutíma og er mælt með ágætis fjallgönguformi. Dagsferð að The Blue Eye er hins vegar létt og skemmtileg ganga og hressandi að stökkva í ískalt jökulvatnið á heitum dögum!

 

Kotor

– Svartfjallaland –

Í Svartfjallalandi eru margir krúttlegir litlir bæir, en Kotor stendur sannarlega uppúr að mínu mati. Bærinn liggur djúpt í löngum firði og er umvafinn háum fallegum fjöllum. Hann er hvað þekktastur fyrir mikilfengleg útsýni og krúttlegan miðbæ, þar sem auðvelt er að gleyma sér við að þræða þröngar götur bæjarins. Vinsælt er að klífa að svo virðist endalaust margar tröppur sem leiða upp virkisvegginn, en á leiðinni er flott sýn yfir miðbæinn og svo aftur stórfenglegt útsýni yfir allan fjörðinn þegar á toppinn er komið. Kotor er er sífellt að verða vinsælli áfangastaður og stoppar fjöldi skemmtiferðaskipa þar við á hverjum degi og ég mæli því með að heimsækja bæinn í byrjun eða lok sumars, til að forðast mestu þvöguna!

Istanbúl

– Tyrkland –

Menningarpottur Evrópu, þar sem austur mætir vestur í bókstaflegri merkingu, en Istanbúl er eina borg í heimi sem liggur í tveimur heimsálfum, Evrópu og Asíu. Bosfórus-sundið aðskilur heimsálfurnar tvær og er klassískt að skella sér í siglingu um sundið og sjá báðar hliðar borgarinnar – eða hreinlega að skella sér í siglingu þar yfir og kynna sér muninn á evrópsku og asísku Istanbúl. Flestir hinna týpísku ferðamannastaða eru evrópumegin og því margir sem skoða bara þá hlið, enda fullt að skoða og erfitt að fara á alla þá staði sem borgin bíður uppá nema vera þar í þó nokkuð marga daga! Það er góð ástæðan fyrir því að ég held áfram að heimsækja Istanbúl og mæli alltaf hiklaust með þessari borg þegar fólki dreymir um  aðeins fjölbreyttari áfangastað en hinar hefðbundnu evrópsku borgir.

Zakopane

– Pólland-

Pólland hefur meira uppá að bjóða heldur en stórborgir, ævintýralega miðbæi og sögulega staði, en Zakopane er einn af þeim og klárlega einn af mínum uppáhalds stöðum þar í landi. Í suðurhluta Póllands er að finna mikilfenglega fjallgarða, stöðuvötn og fjölbreytt útivistarsvæði sem heimamenn sækja mikið í. Morksie Oko er þá sérstaklega fallegur staður og skemmtileg dagsferð frá Zakopane, en þar er að finna margar gönguleiðir í kringum hið fallega stöðuvatn sem Morskie Oko er. Zakopane er svo krúttlegur fjallabær með mjög ólíkan byggingarstýl heldur en finnst annarsstaðar í Póllandi. Tilvalinn staður að heimsækja hvort heldur sem er á sumrin eða á veturna, en þó nokkur skíðasvæði eru í kring.

Lestu meira um Zakopane hér: Dagsferð að Morskie Oko í Póllandi

Transilvanía

– Rúmenía –

Fæðingarstaður hins eina sanna Drakúla greifa og svæði sem ég hélt að væri bara til í bíómyndum, þar til ég fyrir einskæra tilviljun endaði þar í viku roadtrippi í gegnum drungaleg fjallaþorp og gullfallega fjallabæi. Rúmenía er að mínu mati einn af vanmetnustu áfangastöðum Evrópu, en þar í landi eru fjölmargir áhugaverðir staðir til að heimsækja og er Transilvanía með fallegri stöðum landsins enda nóg að skoða á því svæði. Hvort heldur sem það eru kastalar sem heilla, mikilfenglegir fjallgarðar eða krúttlegir litríkir bæir þá er nóg að velja úr. Bæirnir Brasov, Sibiu og Sighișoara eru sem dæmi skemmtilegir að skoða!

Bled

– Slóvenía –

Perla Slóveníu og einn af fallegri stöðum Evrópu. Lake Bled er í innan við klukkustundar fjarlægð frá höfuðborginni og því tilvalin dagsferð frá Ljubljana, þó persónulega myndi ég bóka gistingu í nokkrar nætur til að geta notið þessa fallega staðar enn lengur! Mitt í miðju stöðuvatninu stendur falleg kirkja á lítill eyju sem hægt er að heimsækja með bát og á hæðinni á móti stendur reislulegur kastali með fallegu útsýni yfir vatnið og svæðið í kring. Hægt er að leigja árabát eða borga slikk fyrir bátsferð um vatnið, en einnig er fjöldinn allur af öðrum útivistar möguleikum í boði fyrir þá sem vilja kynna sér svæðið enn frekar. Slóvenía í heild sinni er virkilega fallegt land og klárlega áfangastaður fyrir þá sem eru fyrir útivist!


Prag

– Tékkland –

Fyrir þá sem eru að spá í borgarferð þá er Prag hin fullkominn áfangastaður! Það er góð og gild ástæða fyrir því hvers vegna borgin er talin vera ein af fallegri borgum Evrópu, en að labba götur borgarinnar minnir á gamlar bíómyndir. Charles brúin er ein þekktasta kennimynd Prag og því gaman að stoppa þar og fylgjast með mannlífinu, en allskyns götulistamenn skemmta þar gestum og gangandi. The Dancing House líka einn af þekktari stöðum borgarinn og margir sem leggja leið sína þangað. Sögurnar segja að í Tékklandi fáist besti bjór í heimi og er ég ekki frá því að hann komist að minnsta kosti nálægt því, en þar er fjöldinn allur af litlum brugghúsum og pöbbum til að kæla sig niður í og taka pásu frá öllu röltinu, en Prag er stór borg og þar er heldur betur nóg að skoða!

Lestu meira um Prag: Myndir og meðmæli Prag frá öðru sjónarhorni 

 

Selma Kjartans

Instagram

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.