Preikestolen í Noregi er einstaklega fallegt og gönguleiðin upp er með þeim skemmtilegustu sem ég hef farið í.

Gangan er krefjandi á pörtum en gönguferð sem að allir ættu að geta farið.
Til að segja ykkur í stuttu máli hvað Preikestolen er, þá er það mjög brattur klettur (líklega 90 gráður) sem er 604 M hár, með fallegt útsýni yfir Lysefjord.

Gönguleiðin er um 6 km og getur tekið um það bil 1 klukkustund og 30 mínútur hvora leiðina. Þegar þú ert komin/nn upp þá áttu líklega eftir að eyða að minnsta kosti 1 klukkustund bara að njóta, svo gefðu þér allavega 4 klukkustundir í heildina.

Preikestolen er mjög vinsæll áfangastaður fyrir túrista svo ég mæli með því að leggja af stað í gönguna eldsnemma um morguninn til að sleppa við hópinn af ferðamönnunum.
Við lögðum af stað rétt fyrir kl. 6 um morguninn sem var algjörlega þess virði því þannig höfðum við staðinn fyrir okkur sjálf.
Örtröðin byrjaði milli ca. 9 og 10. Þá vorum við að ganga niður og mættum líklega 200 manns sem voru á leiðinni upp.

Ég mæli með því að fara yfir sumartíma eða aðeins fyrir eins og við. Við fórum um miðjan maí mánuð þar sem við fengum smjörþefinn af sumrinu.

Þó að gangan sé kannski ekki svo erfið þá mæli ég samt með því að vera í;
– Góðum skóm (þ.e. gönguskóm eða hlaupaskóm)
– Léttum fatnaði –  hlaupa/göngu buxum, bol og léttum vind- og vatnsheldum jakka til að fara í utanyfir þig.
Ekki gleyma að taka með þér vatn og kannski lítið nesti til að narta í þegar upp er komið.

Við vorum að mæta fólki sem var í gallabuxum og spariskónum að labba upp sem ég tel alls ekki vera sniðugt. Þau hljóta að hafa séð eftir því eftir gönguna.

Hvar er Preikestolen?

Preikestolen er staðsett í Rogaland í Noregi ekki langt frá Stavanger svo líklegast er best að fljúga til Stavanger og keyra svo að Preikestolen.

En annars er hægt að fara ýmsar leiðir til að ferðast að Preikestolen.
Sem dæmi þá keyrðum við frá Norrköping í Svíþjóð til Preikestolen og alls tók það okkur næstum 24 klst. með stoppi í Osló (Mæli ekkert sérstaklega með því)
En akstursleiðin í Noregi er rosalega falleg og algjörlega þess virði að keyra.

 

Vona að þetta geti gagnast ykkur eitthvað.

Ef þið hafið frekari spurningar megiði endilega senda á mig!

 

About The Author

Berglind Jóhannsdóttir
Færsluhöfundur

Berglind er ljósmyndanemi og ferðalangur sem nær fallegum myndum hvert sem hún fer. Alla sína ævi hefur hún ferðast mikið um Ísland og er mjög kært um heimalandið en hún hefur einnig ferðast útum allan heim t.a.m S-Afríku, Indonesíu, Ástralíu, Nýja Sjálands og Californiu. Áhugamál hennar eru ljósmyndun, snjóbretti, surf, hjólabretti og auðvitað að ferðast.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.