Sumir segja að þú eigir ekki að skuldbinda þig fyrr en þú sért viss um að maki þinn “sé sá eini rétti!”

Hjá mörgum felst prófið í að flytja inn saman og kynnast þannig betur lífsvenjum og hegðun hvort annars.

Ef þið viljið hins vegar virkilega reyna á þolmörk hvors annars þá jafnast ekkert á við langtíma ferðalög!

“Þú þekkir ekki manneskju fyrr en þú hefur ferðast með henni”

Þú kannast kannski við þennan frasa, en hann á svo sannarlega við hvort sem þú ert að ferðast með besta vini þínum, bróður eða maka. Ferðalög víkka sjóndeildarhringinn og ýta manni út fyrir hinn þægilega rútínuramma. Að ferðast með makanum sínum getur hins vegar verið tvíeggja sverð; annað hvort verðið þið nánari en nokkru sinni fyrr, eða farið í taugarnar á hvort öðru, allt fer í vaskinn og efasemdir um sambandið fara að vakna.

Á ferðalögum lærið þið þolinmæði á nýju stigi. Þið eruð á óþekktum slóðum, umkringd framandi menningu og siðum, og það í stöðugri nærveru við hvort annað, 24 klst á dag, alla daga! Á ykkar heimaslóðum eyðið þið sjaldnast jafn miklum tíma saman. Það er því alls ekki óeðlilegt að upp komi skoðanaárekstrar, tímabil þar sem þið eruð algjörlega uppgefin, svöng með sínöldrandi sölumann á herðunum…og korter í “dísaster”.

Hér koma því nokkur ráð fyrir uppskrift af gæfuríkri ferð með makanum þínum.

Búið ykkur undir hið óvænta

Ferðalög eru ekki alltaf dans á rósum og sjaldan gengur allt samkvæmt áætlun. Fluginu seinkaði, þið týnduð vegabréfunum, myndavélinni var stolið og áfram mætti telja. Þegar erfiðlega gengur er mikilvægt að muna að taka aðstæðum létt eins og hún Pollýanna gerir alltaf. Það er aldrei að vita nema augnablikið sem virðist svo svart núna verði einn daginn ykkar uppáhalds ferðasaga.

Reynið að finna sameiginlegan takt

Sumir kjósa ferðalögin sín skipulögð í þaula og setja hverja mínútu upp í excel-skjali. Aðrir njóta þess að láta koma sér á óvart og elska ekkert meira en að týnast í nýju umhverfi, án korta eða upplýsingabæklinga. Komist að því hvorum megin þið liggið, ræðið saman og finnið sameiginlegan takt sem hentar báðum aðilum.

Verið ávallt með nasl á ykkur til að koma í veg fyrir “hangry” 

Hugsaðu um þá ágreininga sem hafa komið upp á ferðalaginu. Teldu síðan hve margir þeirra hófust þegar annar aðilinn var svangur. Það er oft nægilega stressandi að ferðast en að vera svangur líka er uppskrift að stórslysi.

Búið ykkur undir að taka “nánd” upp á næsta stig. 

Á ferðalögum munið þið vissulega kynnast hliðum á hvort öðru sem þið hafið ekki séð áður. Nú munt þú komast að því hvort makinn þinn vilji haga klósettferðum sínum með opinni eða lokaðri hurð.

Samþættið matarvenjur

Í daglegu lífi eruð þið að öllum líkindum ekki vön því að borða saman hverja einustu máltíð. Annað ykkar gæti verið opin fyrir því að prófa framandi matarvenjur í hverju landi fyrir sig á meðan hinn er alltaf búin að finna næsta McDonalds á Google-maps. Finnið ykkur milliveg og skiptist á að leyfa hvort öðru að velja.

Verið sterk fyrir hvort annað

Á feðalögum er ekki óalgengt að komi upp ferðaþreyta, veikindi, heimþrá eða hreinlega andleg bugun. Þið munuð bæði eiga ykkar erfiðu tíma, en þá er sérstaklega mikilvægt að “hressari” aðilinn kveiki á perunni og sýni eins mikinn stuðning og hann getur til að peppa stemmninguna aftur í gang. Kannski þarf að róa ferðatempóið, taka nokkra daga í að liggja á ströndinni og borða góðan mat án þess að stíga fæti inn í rútu eða lest.

Skiptist á að gefa undan

Hann velur veitingarstað, þú velur gistiheimilið. Hann velur hlaupaleiðina, þú velur kaffihúsið. Skiptist á að taka ákvarðanir og reynið að mætast á miðri leið.

Skipuleggið tíma fyrir ykkur sjálf

Þegar þið eruð á langtímaferðalagi og eruð saman alla daga getur verið fínt að skipuleggja smá tíma útaf fyrir sig. Farið í sitthvora skoðunarferðina, skipuleggið daginn í sitthvoru lagi og komið ykkur síðan saman um veitingarstað sem þið hittist á síðar um kvöldið. Einn dagur frá hvort öðru getur aukið á ferðagleðina ykkar saman á ný.

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.