Ég nýt þess mjög mikið að ferðast um Ísland og reyni að nýta hvert tækifæri til þess. Kynnast nýjum stöðum og deila þeim með öðrum. Ég hef alltaf með í för myndavélina mína og fanga fegurðina sem Ísland hefur uppá að bjóða, hvort heldur er um vetur eða sumar.

Fyrir ykkur sem langar að komast aðeins út í náttúruna og kynnast nýjum fallegum stöðum, langar mig að deila með ykkur nokkrum stöðum sem ég mæli með!

 

– Arnarstapi –

Arnarstapi er lítill bær á Snæfellsnesinu, sem hefur magnað landslag. Það tekur um 2 klukkutíma að keyra þangað. Á leiðinni nýtur maður útsýnisins og er það sko ekki af verri endanum. Rétt áður en þú keyrir að Arnarstapa myndi ég stoppa hjá Bjarnarfossi og Rauðfeldsgjá.
Á Arnarstapa er að finna Gatklett ásamt öðrum fallegum klettum sem leynast við sjóinn. Frá Arnarstapa er fallegt útsýni á Snæfellsjökul, fjallgarðinn og strandlengjuna.

 

 

– Kvernufoss –

Kvernufoss er staðsettur á suðurlandinu, næsti foss við Skógarfoss en þú sérð hann ekki frá veginum því hann er falinn.
Fyrir u.þ.b. ári síðan var þessi foss ekki mikið þekktur en samfélagsmiðlar hafa svo sannarlega sett hann á kortið og er farið að vera vinsælla að fara þangað, enda mjög fallegur staður.
Það er samt sorglegt hvað staðurinn er að missa sjarmann sem hann hafði þar sem fólk heldur sig ekki á göngustígnum og traðkar bara hvar sem er.
Það er mikilvægt að ganga vel um landið okkar og þess vegna bið ég þig þegar þú ferðast um landið okkar, virtu náttúrna, farðu vel um.

 

 

– Glymur –

 

Glymur er sagður vera annar hæsti foss Íslands. Einu sinni var hann talinn vera sá hæsti, þangað til fundinn var Morsárfoss á Morsárjökli sem mældist hærri.

Fossinn er staðsettur í Hvalfirðinum, u.þ.b. klukkustunda akstur frá Reykjavík. Til þess að komast að Glym þarftu að fara í gegnum fallegan helli, fara yfir á, klífa í u.þ.b. 1 klukkustund. Þú getur farið sömu leið til baka en ég mæli með að fara hringinn; þannig að þegar þú ert komin/nn alveg upp að fossinum, verður þú að vaða yfir ánna (finnur stað sem þú telur vera öruggan til að fara yfir, ef áin er ekki vatnsmikil og mikill straumur á henni).

Farðu í góðum skóm (mæli með gönguskóm, það getur verið mjög sleipt á leiðinni), taktu með þér vatnsbrúsa og smá nesti, lítið handklæði (ef þú ætlar að vaða yfir ánna) og auðvitað myndavélina ef þér finnst gaman að taka myndir.

Samtals tekur gangan ca. 3-3,5 klst.

 

 

 – Krýsuvík –

Ef þig vantar að komast aðeins frá bænum út í náttúruna, er tilvalið að gera sér ferð í Krýsuvík. Einn af mínum uppáhalds stöðum til að koma á og njóta náttúrunnar. Þar er akstursleiðin skemmtileg og útsýnið fallegt. Í víkinni getur þú fundið ýmsa fallega staði til að stoppa á. Þar má nefna Grænavatn og Seltún. Seltún er hverasvæði þar sem litadýrðin leynir sér ekki. Ég mæli með að ganga smá spöl upp á fjallið og njóta útsýnisins þaðan yfir víkina.

 

– Valahnúkamöl –

Það eru margar náttúruperlur á Reykjanesinu. Ef þú keyrir að Reykjanesvita er að finna við sjóinn Valahnúkamöl (mynd til vinstri). Ég uppgötvaði þennan stað í sumar, landslagið þarna er mjög fallegt og ég gat eytt um klukkustund bara á þessum stað. Þarna hefur þú útsýni á Eldey (mynd til hægri). Á þessu svæði finnurðu líka Gunnuhver,  Miðlínu (Brúin á milli heimsálfanna) og á leiðinni að Reykjanesvita (frá Reykjavík) er Krýsuvík, Seltún og Brimketill.

 

 

Vona að þetta nýtist ykkur eitthvað en ég mun koma með fleiri færslur í líkingu við þessa.

– Berglind Jóhanns –

About The Author

Berglind Jóhannsdóttir
Færsluhöfundur

Berglind er ljósmyndanemi og ferðalangur sem nær fallegum myndum hvert sem hún fer. Alla sína ævi hefur hún ferðast mikið um Ísland og er mjög kært um heimalandið en hún hefur einnig ferðast útum allan heim t.a.m S-Afríku, Indonesíu, Ástralíu, Nýja Sjálands og Californiu. Áhugamál hennar eru ljósmyndun, snjóbretti, surf, hjólabretti og auðvitað að ferðast.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.