Jónína Brá er búsett á Seyðisfirði og elskar að ferðast um landið okkar í frítíma sínum. Hún og unnusti hennar, Kári Lafever, hafa það að skemmtilegri hefð að heimsækja náttúrulaugar landsins á ferðum sínum og hefur Jónína gefið þeim einkunnir og úttekt á Instagram. Þar deilir hún einnig með fólki ótrúlega skemmtilegum og fallegum myndum enda er hún mikið náttúrubarn og fagurkeri.
Ég bað hana um að segja mér frá fimm uppáhalds laugunum sínum og af hverju þær væru svona sérstakar.

Jökulsá á Fjöllum við Holuhraun

Þegar það var upp á sitt besta (er ekki lengur heitt). Undan nýju hrauninu rann 40° gráðu heitt vatn við upptök Jökulsár. Það var ótrúleg og ólýsanleg upplifun. Að vera ein, upp á hálendi, í tærasta vatni sem ég hef séð, að baða mig í upptökum jökulsár við rætur nýrunnins Holuhrauns. Magnað!

Laugarneslaug á Barðaströnd

Laugarneslaug er gömul sveitalaug og við laugina er hlaðinn heitur pottur. Laugin og potturinn er í flæðarmáli Barðastrandar og auðvelt að taka smá sjósund eða sprett á ströndinni ef þannig liggur á manni. Gott að hafa smá aur með til þess að setja í bauk sem finna má við búningsklefana.

Laugavalladalslaug

Hingað fór ég fyrst þegar ég var lítil pons með foreldrum mínum, afa og ömmu og vil ég meina að þarna hafi áhuginn kviknað. Þá voru fáir sem heimsóttu þetta svæði, en í dag er laugin m.a. auglýst sem ein af áhugaverðum stöðum að heimsækja á Fljótsdalshéraði. Þarna er hægt að skola af sér í náttúrulegri sturtu þar sem bæjarlækurinn fellur fram af kletti í litlum fossi og niður í litla laug. Ef manni verður of heitt er gráupplagt að skjóta sig aðeins niður í ískaldri ánni sem rennur spölkorn frá.

www.east.is

Krossneslaug í Strandasýslu

Laugin stendur á afviknum en sjarmerandi stað við flæðarmálið. Það er eitthvað svo magnað að vera komin, að því er virðist, á hjara veraldar og baða sig í ljómandi fínni heitri aug í stórbrotnu landslagi. Hér er mjög auðvelt að endurnærast, slaka á og finna fyrir smæð sinni í heiminum. Það upplifði ég allavega þegar ég fór í norðvestan gaddi í sund.

Sundhöllin á Seyðisfirði

Það er einhver sjarmi yfir Sundhöllinni á Seyðisfirði. Hún er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og ber þess augljós merki. Það hljómar kannski skringilega, en útsýnið úr þessari innilaug er geggjað. Stórir gluggar vísa beint upp fjallshlíðina, þannig að fjöllinn innrammast eins og hin fínustu málverk. Heita potta og saunu má finna „undir“ sundlauginni, en ganga þarf niður í kjallara til þess að hlýja sér og svitna út. Punkturinn yfir i-ið eru svo merkingar sem finna má hér og þar, með bæði gagnlegum upplýsingum og varnarorðum.

 

Við mælum með Jónínu Brá á Instagram!

 

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.