Ég hef ætlað mér upp á þennan múr síðan ég las Múrinn í Kína eftir Huldar Breiðfjörð fyrir mörgum árum. Á þessum tíma fyrir ári síðan rættist sá draumur og hann olli mér engum vonbrigðum. Þetta er einn af þeim stöðum sem lætur mann upplifa hversu lítill maður er og hversu gömul sagan er.

Samkvæmt listanum Nýju 7 undur veraldar er Kínamúrinn efstur á lista, hann er einnig á heimsminjaskrá UNESCO. Múrinn er á ófáum listum fólks yfir merkilega staði í heiminum sem vert er að sjá. Múrinn, sem byrjað var að byggja árið 220 fyrir Krist, er 21,196 km langur. Hann var byggður til þess að vernda Kína frá óvinum í norðri, þá aðallega Mongólum. Múrinn hefur mikið verið endurbyggður og honum haldið við, það sem er eftir af honum í dag eru aðallega leifar frá árum Mingveldisins (Ming dynasty) 1368-1644.

Múrinn dregur að sér margar milljónir ferðamanna á ári. Það er ekki hægt að ganga að múrnum hvaðan sem er, hann er á mörgum stöðum í mikilli niðurníðslu. Í dag eru nokkur hlið að svæðinu þar sem hægt er að fara upp á múrinn. Eitt vinsælasta hliðið er Mutianyu en það er sá hluti múrsins sem ég heimsótti. Mutianyu er staðsett um 70 km frá Peking.

          

Skipulögð ferð

Ég ákvað að fara í skipulagða ferð um Kína, ég hafði aldrei farið í skipulagða ferð áður en ákvað að taka bæði Mongólíu (sem ég hef bloggað um hér áður) og Kína með ferðafyrirtækjum. Ferðin sem ég pantaði í gegnum Intrepid travel heitir China highlights og tók níu daga þar sem farið var frá Shanghai til Peking. Fyrir utan að skoða borgirnar tvær var stoppað í bæði Xitang og Xi’an og þær borgir skoðaðar. Við skoðuðum einnig hina frægu Terracotta stríðsmenn, Tian’anmen torgið & Forboðnu borgina (e. Forbidden City). Við fórum á söfn, skoðuðum forn musteri, moskur, sáum magnaða fimleikasýningu og fórum á tónleika. Við fengum kennslu í tedrykkju, borðuðum í heimahúsum og sáum alvöru skordýra slag (e. cricket fighting). Við upplifðum matarmenninguna í Kína beint í æð þar sem við vorum með frábæran leiðsögumann sem sá um að panta það helsta og besta fyrir hópinn á local stöðum. Við vorum gjörsamlega týnd án hans þar sem matseðillinn var aldrei á ensku.

                  

Það er alls ekki “möst” að hafa leiðsögumann þegar ferðast er um landið en það er mjög þægilegt sérstaklega þegar kom að því að rata um hverfin og panta mat. Lestarkerfið er þægilegt og auðvelt er að finna út úr því en mannfjöldinn á lestarstöðinni er eitthvað sem ég hef hvergi upplifað áður.

Ég veit ekki hvort það hafi verið tilviljun eða hvað en ég upplifði svolítið Kína sem land eldri ferðamannsinns. Ég og ferðafélagi minn vorum mun yngri en aðrir í hópnum sem voru nánast öll 60 plús og voru öll komin á eftirlaun. Hópurinn var mjög samheldinn og kom öllum vel saman. Við tókum einnig báðar eftir því að það var mun meira af eldra fólki á ferðamannastöðunum sem við heimsóttum.

 

En aftur að múrnum….

Mutianyu

Þessi hluti múrsins er mjög túristavænn, það eru þrjár leiðir upp, það er hægt að ganga, taka stólalyftu eða fara með kláf (e. cable car). Á leiðinni niður er svo einn möguleiki í viðbót en það er rennibraut. Ég ásamt ferðafélaga mínum og sjötugri konu úr hópnum okkar ákváðum að taka ekki auðveldu leiðina upp að múrnum og ákváðum að ganga þetta.

Image result for michelle obama great wall

Michelle Obama á leið niður múrinn. Mynd fengin af google.

Góð hugmynd!

Leiðsögumaðurinn sagði við okkur að gangan upp að múrnum sjálfum væri pínu erfið þar sem ganga þyrfti upp rúmlega 3000 tröppur. Ég veit ekki af hverju en við hugsuðum með okkur að þetta hlyti að vera kaldhæðni hjá honum, tröppurnar væru líklega svona 300 og það ættum við vel að ráða við. Tröppurnar voru ekki 3000, þær voru rúmlega 4000! Og við ungu konurnar réðum ágætlega við þær (með mjög mörgum pásum) og þessi sjötuga bröllti upp þær jafn vel og við. Við vorum samt sem áður á sama tíma upp og hinir sem fóru með lyftu eða kláf þar sem við sluppum við raðir.

Þegar upp var komið tók við um 2,5 km ganga upp að útsýnisturni númer 20 (sjá mynd). Gangan var mjög skemmtileg og ekkert erfið miðað við tröppuganginn í upphafi. Við gengum í gegnum mjög marga útsýnisturna sem notaðir voru sem öryggishlið á fyrri tímum. Og upp enn fleiri tröppur. Útsýnið var frábært en skógur þekur mikið af svæðinu. Þegar litið er í báðar áttir sér maður hvernig múrinn teygir sig endalaust áfram. Maður ímyndar sér Mongóla á hestunum sínum koma að í norðri.

 

Leiðin niður er mjög brött, ég tók ekki eftir því hvað tröppurnar upp að útsýnisturnunum eru brattar þegar ég fór upp. Örlítil lofthræðsla gerði vart við sig á niðurleið. Útsýnið var auðvitað magnað svo lofthræðslan var fljót að gleymast.

Eftir gönguna var svo fagnað með alvöru kínverskum mat sem að mínu mati var klárlega highlight númer tvö í þessari ferð, múrinn var númer eitt.

      

Sjá einnig: Myndaþáttur Kína #1 , Myndaþáttur Kína #2 og 5 vikur á vetrarferðalagi um Kína eftir Hjördísi Eyþórsdóttir


Ásrún Bjarnadóttir

About The Author

Færsluhöfundur

Mannfræðingur sem elskar ferðalög, ferðasögur og ferðaskrif.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.