Sumarið 2017 bauðst mér tækifæri að fara sem leiðsögumaður með Thomas Cook til að sjá um þýska gesti fyrirtækisins á erlendri grundu. Ég þráði sól, sumar, strönd og ævintýri, en hafði ekki efni á því að fara að ferðast sjálf. Ég var svosem ekki með neinar séróskir hvert mig langaði að fara, bara svo lengi sem það yrði EKKI Mallorca. Ég hafði að vísu aldrei farið þangað áður en eftir að hafa búið í 3 ár í Þýskalandi hafði ég mjög mikla fordóma gagnvart eyjunni.

Mallorca, sem er spænsk eyja í Miðjarðarhafinu, er oft kölluð sautjánda sveitarfélag Þýskalands af því að þangað ferðast milljónir Þjóðverja ár hvert og þar hafa einnig mörg hundruð þúsund Þjóðverjar búsetu ár hvert. Þýska ströndin, Platja de Palma er einungis í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá flugvellinum og hópaferðalög ungmenna frá Þýskalandi til Mallorca eru daglegt brauð og byrjar partýið hjá þeim strax á flugvellinum áður en þau fljúga af stað frá Þýskalandi. Á Palma flugvelli lendir að meðaltali ein flugvél á 2ja mínútna fresti allan sólarhringinn allt árið og út streyma hópar af drukknum ungmennum sem streyma á partýströndina, eru “á floti” í áfengi allan tímann og fara handónýt heim. Það er til sérstök þýsk Mallorca-tónlistarstefna sem er spiluð þarna allan sólarhringinn “and the party never stops”. Þetta heillaði mig alveg nákvæmlega ekkert og þess vegna vildi ég alls ekki fara til Mallorca – en þar lenti ég nú samt og þakka fyrir það daglega!

Mallorca er nefnilega svo miklu miklu meira en bara partý!

Mallorca er stærsta eyjan í Baleares eyjarklasanum, staðsett um 205 km suður af Barcelona. Eyjan er um 3600 ferkílómetrar (það eru um 75 km frá norður í suður og um 100 km frá vestur í austur) og eyjan er GRÆN! Á Mallorca eru græn og blómskrúðug vor, heit sumur, mild haust og stundum smá snjór á veturnar. Þar eru ótrúlega fallegir fjallgarðar, fjölmargir flóar og firðir og dásamlegar strendur og víkur allan hringinn. Sannkölluð landslagsparadís! Þar sem það koma um 8 milljónir ferðamanna þangað á ári hverju þá eru fáir staðir sem hægt er að finna þar sem maður er alveg einn í heiminum eða enginn annar er á, en það kemur ekki að sök. Það má alveg njóta landslagsins með öðrum ferðamönnum.

Palma

Höfuðborg Mallorca er alveg ótrúlega falleg og stútfull af menningu. Flestir sem hafa komið til Mallorca kannast þar við dómkirkjuna og hana verður maður að skoða þegar farið er til Palma. Hægt er að fara í skoðunarferð inn í kirkjuna gegn vægu gjaldi eða taka flottar myndir frá kirkjunni eða af kirkjunni úr lystigarðinum fyrir neðan hana. Einnig mæli ég með því að fara upp á hæðina fyrir ofan Palma að Bellver kastalanum, fræðast um sögu hans og njóta stórfenglegs útsýnis yfir alla borgina og flóann. Í Palma er einnig mjög gott að versla, bæði í heimsins helstu tískuvöruverslunum og af markaðssölum á torginu. Ef þið hafið tíma í Palma mæli ég hiklaust með því að henda landakortinu út um gluggann og týnast á rölti um gamla bæinn, splæsa svo í sangríu, ólívur og osta í næstu kjörbúð, fara í lautarferð í einum af fjölmörgum almenningsgörðum borgarinnar og njóta lífsins í sólinni eins og heimamenn gera.

Pro tip: Á kvöldin er algjört “must” að fara á “tapasrúnt” í miðbænum. Rölta á milli veitinga- og ölhúsa og fá sér Tapas y Caña (pinnamatur og bjór) með heimamönnum og hlusta á ljúfa spænska tóna. Tapasrúntur er mjög vinsælt after-work-activity í Palma enda er þetta tilvalið til að slappa af eftir langan vinnudag – eða í ykkar tilfelli eftir langan skoðunardag í stórbrotinni borg. Maður verður heldur ekki fátækur af þessu því Tapas y Caña kostar ekki nema um 1-2 Evrur fyrir eitt tapas og einn lítinn bjór.

Eftir búsetu á eyjunni er ég sjálfsskipaður Mallorca – sérfræðingur Gekkó samfélagsins og mun ég næstu vikur birta færslur með fleiri “must see” á eyjunni grænu. Því mæli ég með því fyrir þá sem eru að íhuga Mallorca fyrir næsta sumarfrí, eða eru nú þegar á leiðinni þangað, að fylgjast með hér á Gekkó til að kynnast eyjunni aðeins betur.

About The Author

Færsluhöfundur

Hrafnhildur Ýr er Súgfirðingur, Norður-Þingeyingur, Siglfirðingur og 101 Miðbæjarrotta búsett í Frankfurt í Þýskalandi. Hún hefur einnig búið í Danmörku og á Spáni og eins og lýsingin gefur til kynna er hún mikil flökkukind og sjaldan lengi á sama stað. Hrafnhildur Ýr hefur mikið ferðast um Ísland og einnig heimsótt yfir 40 lönd á sinni stuttu ævi, en er hvergi nærri hætt. Hún hefur mest ferðast um í Evrópu en núverandi búseta aðeins 20 mínútum frá stærsta flugvelli á meginlandi Evrópu hefur þó opnað fyrir möguleikann á ferðum til fleiri framandi slóða.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.