“Við erum að fara til Mongólíu, viltu koma með?” já já, ég er til sagði ég vitandi mjög lítið um landið. Það sem ég vissi var tvennt, þar eru hinir margrómuðu mongólsku hestar og þar búa margir í tjöldum eða ger/yurt sem eru hringlaga tjöld, einangruð með teppum og skinnum. Mongólía er land í mið Asíu og á landamæri við Rússland og Kína. Það búa um 3 milljónir manna í landinu en langflestir eða um 1,3 milljónir búa í höfuðborginni Ulaanbaatar. Áfangastaðurinn var upphafið af ferðalagi sem innihélt einnig Kína og Suður-Kóreu. Ég mæli hiklaust með því að flétta áfangastaðinn inn í stærra ferðalag. Síberíu hraðlestinn er vinæl ferð, þá er farið frá Rússlandi til Kína með stoppi í Mongólíu. Hægt að lesa meira um það hér.

Ulaanbaatar

Eftir þónokkuð ferðalag með millilendingu í Finnlandi og Rússlandi lentum við í Ulaanbaatar. Þegar ég steig út úr flugvélinni fann ég hvað loftslagið var ótrúlega þurrt, það var hiti í loftinu en þar sem þetta var í september máttum við búast við köldum nóttum.

Ulaanbaatar er skemmtileg borg, hún er mjög vestræn og byggingarlistin undir miklum áhrifum frá Rússlandi. Landið náði sjálfstæði frá Kína árið 1911 en var hertekið af Rússum árið 1921. Í kringum 1950 var mikil uppbygging í Ulaanbaatar og var hefðbundum híbýlum fólks skipt út fyrir stórar blokkir og byggingar.

Mongólar eru hirðingjaþjóð og þeir sem enn halda í þá hefð fer fækkandi þar sem margir eru að flytja í höfuðborgina í leit að betri vinnu, betra lífi. Það eru þó enn margir sem lifa hirðingjalífinu og margir sem vildu að þeir gætu það en mikil fátækt ríkir í landinu og hriðingjalífið er erfitt. Búferlaflutningar fylgja hirðingjalífinu og flytja þau um 2 til 4 sinnnum á ári, þá er öllu pakkað saman, tjöldum og búskap og farið á nýjan stað. Margir hirðingjar, meðal annars þeir sem hýstu okkur, notfæra sér ferðaiðnaðinn sem tekjulind. Ferðaiðnaðurinn er því að hafa góð áhrif á sjálfbærni hirðingjalífsins þar í landi.

 

 

 

 

 

 

 

Gorkhi-Terelj þjóðgarðurinn

Ferðin var skipulögð 5 daga ferð um Gorkhi-Terelj þjóðgarðinn sem er í um 56 km frá höfuðborginni, við vorum 10 saman í hóp frá ýmsum löndum og hittumst á ákveðnu hóteli í Ulaanbaatar. Ferðin var svokölluð ‘living with the locals’ ferð þar sem við gistum hjá 5 mismunandi fjölskyldum, ferðuðumst á milli þeirra á hestum, borðuðum hjá þeim og fræddumst um menningu, daglegt líf og sögu þeirra. Við gistum allar næturnar í yurt, hringlaga tjöldum. Tjöldin voru flest hituð upp yfir nóttina en ekki alltaf, þær nætur voru því mjög kaldar. Mongólía er þekkt fyrir veðurfar sitt þar sem hitinn getur farið úr 20 gráðum niður í mínus gráður á mjög skömmum tíma. Ekkert símasamband var í Terelj þjóðgarðinum þannig að öll samskipti við umheiminn í gegnum Facebook og aðra samfélagsmiðla voru úr sögunni.

Það er mjög algengt að sjá villta hesta í Mongólíu, þeir eru þar um allt en einnig eru þar villt kameldýr, kindur og geitur. Í þjóðgarðinum voru flestar fjölskyldurnar með hesta, nautgripi og kindur. Tömdu hestarnir fengu flestir að hlaupa um frjálsir og svo var farið að sækja þá snemma morguns. Yfirleitt náðust hestar fyrir allan hópinn en það kom fyrir að ekki náðust nógu margir hestar. Þá fór hluti hópsins að næsta áfangastað með sama hætti og farangurinn var fluttur á milli, með uxa-kerru (e. ox cart). Farangri og fólki var komið fyrir á heimatilbúnni viðarkerru sem dregin var af uxa (naut sem búið er að gelda).

Þessi ferð jarðtengdi mann svo sannarlega, umhverfið í þjóðgarðinum er ótrúlegt, græn, gul, brún og rauð tré allstaðar, græn engi, tær vötn og stórbrotnir klettar var það sem fyrir augum bar. Símastaurar og rafmagnslínur voru hvergi sjáanleg, vegir takmarkaðir og þar með bílar. Loftið var svo ótrúlega ferskt að maður gat nánast fundið bragðið af því og hestar hlupu um villtir.

 

     

Kjötsúpa og kleinur

Það er oft sagt að fólk komi ekki til Mongólíu fyrir matinn, það er svo sannarlega rétt. Matnum svipar svolítið til íslenskrar matargerðar með áhrifum frá Asíu fyrir utan kryddin. Tvisvar á dag í fimm daga var lambakjöt á boðstólnum fyrir kjötæturnar. Lambakjötið var ýmist soðið í súpu, soðið í dumplings, djúpsteikt í dumplings, steikt í núðlurétti og hrísgrjónarétti. Grænmetisæturnar fengu kartöflur í nánast öll mál, matreiddar á mismunandi hátt. Þær fengu einnig sushi og hrísgrjón. Í morgunmat voru Boortsoog sem eru alveg eins og íslenskar kleinur, borðaðar með smjöri eða hunangi. Mongólar drekka mikið af mjólk og var því mjólkurte oft borið á borð. Einnig fengum við að smakka vodka sem bruggað er úr mjólk!

 

Things to do

Gorkhi-Terelj þjóðgarðurinn

Dagsferð um Ulaanbaatar með leiðsögumanni, meðal annars farið í National History Museum og Choijin Lama Temple Museum sem er áhugavert musteri/safn/minjagripaverslun.

Genghis Khan Statue Complex: Gríðarlega stór stytta af Genghis Khan fyrrum leiðtoga og stofnanda Mongólaveldisins. Það er hægt að fara upp á útsýnispall sem er upp á styttunni sjálfri. Einnig er gaman að skoða safnið á staðnum, þar er margt áhugavert um Genghis Khan og sögu landsins.

Zaisan memorial: Tileinkað mongólskum og sovéskum hermönnum sem létust í seinni heimsstyrjöldinni. Hægt að labba upp að útsýnispalli þar sem sést vel yfir borgina. Fallegt útsýni og lítill túristamarkaður er við efstu tröppurnar, ekki gleyma vatninu á leiðinni, tröppurnar rífa svolítið í.

Gobi desert: Það er boðið upp á margskonar ferðir í Gobi eyðimörkina sem nær yfir suðurhluta Mongólíu og yfir til Kína. Það er boðið upp á dagsferðir og ferðir sem taka nokkra daga. Risaeðlu steingervingar finnast hér enn!

Það eru mörg áhugaverð kaffihús og góðir veitingastaðir sem bjóða upp á hefðbundinn mongólskan mat í Ulaanbaatar. Einnig er mjög auðvellt að finna margar skemmtilegar minjagripaverslanir í borginni.

 

Good vibes only!

Það sem stendur upp úr þessari ferð er fólkið, umhverfið og andrúmsloftið. Fólkið var allt af vilja gert til þess að sýna okkur þeirra daglegu venjur, það kenndi okkur til dæmis að mjólka kýr, bogfimi, föndra mongólsk munstur, búa til dumplings, sýndi okkur hvernig á að ríða mongólskum hestum og hvernig á að brugga vodka með mjólk. Andrúmloftið var ótrúlega rólegt, það var ekkert stress þarna og maður var aldrei að líta á klukkuna. Á kvöldin var setið við varðeld og horft upp í stjörnubjartan himinn sem var eitthvað úr annari veröld. Mongólía fær 10 í einkunn, landið kom mér svo sannarlega á óvart.

 

Gott að vita

Það þarf að fá fyrirfram vegabréfs áritun áður en farið er til landsins. Ræðisskrifstofa Mongólíu er staðsett í Garðabæ, í sama húsi og fyrirtæki sem selur vinnuvélar. Það var mjög undarlegt að fara inn í fyrirtæki sem á sér litla ef einhverja tenginu við land í Asíu og fá þar vegabréfsáritun á lítilli opinni skrifstofu sem staðsett er fyrir ofan vinnuvélarými.

Það er hægt að ferðast um Mongólíu án þess að hafa leiðsögumann en það getur verið flókið. Stór þáttur þar er sá að almenningssamgöngur geta verið takmarkaðar. Ég mæli hiklaust með því að fara með leiðsögumanni. Fáir tala ensku (á ekki við um þá sem búa í Ulaanbaatar) og því er nauðsynlegt að hafa einhvern sem skilur tungumálið með sér til þess að fá sem mest út úr upplifunum með heimamönnum. Sögurnar þeirra eru merkilegar og líf þeirra margra ótrúlega ólíkt því sem við þekkjum.

G Adventures, Intrepid og Kilroy eru meðal ferðaskrifstofa sem bjóða upp á spennandi ferðir til Mongólíu.

 


Takk fyrir mig!

Ásrún Bjarnadóttir

Instagram 


Sjá einnig:

Þarftu vegabréfsáritun?

Það sem ég hef lært — ráð fyrir leitandi ferðalanga

5 tillögur á bucketlistann

 

 

 

About The Author

Færsluhöfundur

Mannfræðingur sem elskar ferðalög, ferðasögur og ferðaskrif.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.