Kuala Lumpur er borg sem kom okkur skemmtilega á óvart!
Við vorum á budgeti þar (eins og í raun allri ferðinni okkar – reisa með fjölskylduna á fæðingarorlofinu segir allt sem segja þarf um fjárhag okkar) en náðum að gera allt sem okkur langað til að gera OG gista á frábærum stað.

Gista í Platinum Suites turninum

Airbnb íbúðin sem við leigðum í Platinum Suites turninum er í miklu uppáhaldi hjá okkur!
Við gistum í æðslegri íbúð á 27. hæð, með útsýni úr stofu og svefnherbergi. Íbúðin var öll glæný, mjög rúmgóð og fór ótrúlega vel um okkur þar. Henni fylgdi aðgangur að líkamsrækt, jógasal og infinity sundlaug á 51. hæð með útsýni sem ég gæti ekki einu sinni reynt að lýsa með orðunum mínum!
Hún var á frábærum stað; í göngufæri á alla helstu staðina sem þið viljið ekki missa af ef þið heimsækið Kuala Lumpur og í þónokkrar lestarstöðvar.


Petronas turnarnir

Það er auðvitað ekki hægt að fara til Kuala Lumpur án þess að sjá Petronas turnana! Þeir eru eitt stærsta kennileiti borgarinnar og eru ótrúlega magnaðir með eigin augun. Mun hærri en við bjuggumst við og svo fallega upplýstir á kvöldin að hægt var að eyða löngum tíma bara við að dást af þeim!
Við sáum þá mjög vel úr sundlauginni okkar en við fórum líka og sáum þá í nálægð.

 

Kuala Lumpur turninn

Ég mæli með því að gera sér ferð upp í Kuala Lumpur turninn og skoða þar panorama view af allri borginni! Útsýnið er magnað og hægt að eyða dágóðum tíma við að dást af þessari stórborg.

UpsideDown húsið

Já það má vel vera að um séð að ræða hér skemmtiefni sem ætlað er börnum og fjölskyldum. En mér er bara alveg sama! Gleðin og kátínan í þessu húsi er bara svo mikil að ég mæli aldeilis með því að kíkja á það þó engin börn séu með í för!

 

Batu Caves

Að gera sér ferð um 13km út fyrir borgina og skoða Batu Caves er að mínu mati algjört möst ef ferðast er til Kuala Lumpur!
Batu Caves eru hof Hindúa og, líkt og nafnið segir til um, eru hofin inn í hellum sem eru í Batu Hill. Til að komast upp að stærsta hofinu þarf að fara upp 272 tröppur, samferða þónokkrum öpum með útsýni yfir Kuala Lumpur. Hofin eru ótrúleg að sjá og smáatriðin og fegurðin gífurleg!
Þessar tröppur eru varðveittar af 42,7 metra hárri styttu af Murugan, Hindú guði, sem þakin er 300 lítrum af gulli.

 

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.