Þessi færsla er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands

Eins og ég hef tekið fram áður þá vann ég á listasafni. Þegar að ég sótti um þá vinnu vissi ég í raun ekkert hvað ég var að koma mér út í en eftir að hafa unnið þar í nokkra mánuði fór mér að þykja ofboðslega vænt um listasafnið og botnaði aldrei afhverju það færu ekki fleiri á listasöfn.

Ég hef því verið að sækja önnur listasöfn mér til afþreyingar og er mjög dugleg að hvetja alla í kringum mig til að gera slíkt hið sama. Það er eitthvað við það að fara á listasafn sem kallar fram svo mikið af tilfinningum. Svo margt fallegt, svo margt skrýtið, svo margt óskiljanlegt og svo margt ógeðslegt. Ég hef farið á sýningu sem mér fannst bara ógeðsleg í alla staði. En það sem er svo magnað er að þessi tiltekni listamaður gerir það gagngert að vekja upp ógeðis tilfinningu meðal þeirra sem skoðuðu sýninguna. Ég hef farið á sýningar sem hafa látið mér líða óþægilega og ég hef farið út frá þeim eitt stórt spurningamerki.

Þessar sýningar eru samt þær sýningar sem ég man hvað mest eftir. Sem er líka svo magnað. Að sýning sem ég fór á fyrir 5 árum sitji ennþá í mér og vekji enn þessar tilfinningar upp. En ég hef líka farið á sýningar þar sem fegurð er alls ráðandi en auðvitað er það þannig að sitt sýnist hverjum. List er fyrir alla og engin upplifun er röng eða asnaleg.

Ég fór í heimsókn á Listasafn Íslands um daginn en ég hef ekki farið þangað síðan ég var í menntaskóla en ég var ,,alltaf á leiðinni” í öll þessi ár en þegar mér bauðst samstarf var ég ekki lengi að þiggja það. Það var allavega ein sýning sem ég hefði áhuga á en óboy hvað safnið hafði miklu meira upp á að bjóða en ég hafði gert ráð fyrir.

Það sem er í boði á Listasafni Íslands er eftirfarandi:

Sýningar sem vert er að kíkja á! -> hægt að nálgast töluvert af upplýsingum um þær hér. Ég vil ekki vera að lýsa sýningunum of mikið eða kryfja þær til mergjar einfaldlega vegna þess að ég vil að þið fáið að upplifa þær út frá eigin forsendum. Ég get samt sagt ykkur að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Eins vil ég taka það fram að Listasafn Íslands á Picasso verk sem er til sýnis þarna en sagan á bakvið það verk er ótrúlega áhugaverð.

Kaffihúsið þarna sem ég féll fyrir á stundinni sem heitir Mom’s secret café. Þar tekur hjartahlýja Laufey á móti ykkur. Þarna er hægt að fá guðdómlega súpu á mjög viðráðanlegu verði. Það er líka í boði að fá sér kaffi og sætt með – sem ég prófa hiklaust næst. Kaffihúsið er týpískur staður sem maður hangir klukkutímum saman og spjallar við góðan vin. Ég mæli svo mikið með honum.

Á jarðhæðinni er svo ein flottasta gjafavörubúð sem ég hef séð. Hanna Hlíf hefur séð um búðina í nokkur ár og er algjör fagurkeri þegar að það kemur að vöruvali. Búið er að taka búðina í gegn og íslenskar gæðavörur mest áberandi. Þetta er fullkomin staður til þess að versla jólagjafirnar fyrir þá sem eiga allt, t.a.m. fást þarna tímalaus plaggöt á mjög sanngjörnu verði. Ég mun allavega versla margar jólagjafir þarna á komandi mánuðum.

Takk takk takk Listasafn Íslands fyrir að fá mig í heimsókn. Ég hlakka til að koma aftur.

Þið hin. Drífið ykkur af stað. Áfram gakk.

Guðfinna Birta

 

 

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.