Að láta alheiminn grípa sig getur oft verið það besta sem maður getur gefið sjálfum sér. Ég hef alltaf verið frekar “spiritual” eða trúað á örlög fram yfir lukku og þannig hef ég eiginlega alltaf ferðast meira og minna.

Ég er þeirrar trúar að við erum hér á þessari jörð vegna ástæðu og við höfum öll tilgang og erum öll á okkar eigin ferðalagi. Fyrir nokkrum árum fór ég til konu sem heitir Guðbjörg Ósk. Þessi fundur með henni svaraði þónokkrum spurningum sem ég hafði til sjálfrar mín og staðfesti margar hugmyndir sem ég hafði um sjálfa mig. Hún, á undraverðan hátt útskýrði fyrir mér tilvist mína og hvað ég gæti gert til þess að láta sem mest verða úr henni. Stundum væri bara að láta alheiminn grípa sig. Hann veit yfirleitt miklu betur hvað maður þráir en maður sjálfur gerir sér grein fyrir.

Lesa einnig: Guðbjörg Ósk: Hugleiðsla og núvitund á ferðalagi

Ég hef alltaf verið ævintýrabarn

Ég var byrjuð að flýja af heiman áður en ég man eftir mér. Til eru fullt af sögum um mig þar sem ég fannst úti á víðavangi í náttfötunum, á þríhjólinu mínu um hávetur þar sem nágranninn kom auga á mig og skilaði mér til míns heima þegar við áttum heima á Hvolsvelli. Ég fór í langa göngutúra með vinum mínum með dagsferðapoka upp á fjallið í bakgarðinum áður en ég varð fimm ára. Ég spurði aldrei nokkurn mann hvort ég mætti fara einhvert, ég fór bara og það sama geri ég enn þann daginn í dag!

Að sama skapi hef ég alltaf verið nokkuð góð í stafsetningu og haft gaman að því að skrifa og semja lesefni af ýmsu tagi. Tungumál komu náttúrulega til mín og stóð ég mig alltaf best í skapandi greinum, málfræði og skrift þegar ég gekk grunnskólagönguna mína.

Þegar kom að því að velja nám sem hentaði mér á háskólastigi þá var valið alls ekki auðvelt. Það tók mig heldur ekki stuttan tíma að ákveða mig. Ég hugsaði mig um í næstum því tvö ár og lokavalið varð Enska, með opið valfag. Ein stærsta ástæðan fyrir því afhverju ég valdi ensku var vegna þess að hægt var að taka 2/3 af náminu í fjarnámi. Ég eyddi því fyrstu tveimur önnunum mínum í Taílandi og þriðju önninni í Þýskalandi þar sem ég var einnig Au-Pair. Fjórðu önninni var ég heima á Íslandinu góða og síðustu tveimur önnunum mun ég eyða í Sydney í Ástralíu í skiptinámi. Ég valdi Ritlist sem aukafag, þegar ég fattaði og eiginlega enduruppgötvaði að ég var alltaf að semja og yrkja ritefni þegar ég var yngri. Ég skrifaði heilt kvikmyndahandrit með vinkonu minni ellefu ára gömul. Fólk hefur einnig oft sagt við mig að ég sé ágætis penni. Ég hef hingað til bara fylgt innsæinu og látið lokaákvarðanirnar koma til mín, án þess að ákveða neitt of langt fram í tímann. Réttu augnablikin koma þegar þau eiga að koma og ákvarðanirnar með. Gekkó varð meðal annars til í svona augnabliki og hingað til er ég hæstánægð með þá þróun sem þetta ferðablogg hefur orðið að á stuttum tíma.

Taktu sénsinn og láttu Alheiminn sjá um rest

Ég geri hlutina sem ég geri frekar óvænt og ég reyni ekki beint að stjórna örlögum mínum á einn eða annan hátt vegna þess að ég hef nokkurn veginn fengið staðfestingu fyrir því að svo lengi sem ég fylgi hjartanu mínu og sannfæringunni minni, þá hjálpar Alheimurinn mér að láta hlutina ganga upp. Ég hef oft verið tæp á pening en einmitt þegar ég er að verða þurr þá kemur eitthvað óvænt upp í hendurnar, nýtt starf eða gigg sem leysir klípuna mína í einu augnabliki. Ég hef líka verið á tæpasta vaði yfir því að hafa ekkert þak yfir höfuðið þegar byrjar að kvölda í ókunnugum bæ í ókunnugu landi, en ég hef aldrei orðið úti og á síðustu stundu hefur alltaf einhver orðið mér að liði á Couchsurfing eða Facebook. Oft hugsa ég hvað ég hlýt að vera heppin að fá svona óvæntar hjálpir, því ég er ekki sú skipulagðasta í bransanum. En staðreyndin er bara sú að með því að vera “spontant” þá kemur oft svo miklu betra til manns, maður kynnist frábæru fólki, fær góð ráð og lærir að meta hið óvænta. Enda skilar hið óvænta yfirleitt langbestu augnablikunum sem síðan skila af sér bestu sögunum í framhaldinu.

Lesa einnig: Ferðakvíði: að ferðast með nagandi samviskubit

Ég ætla samt ekki að hvetja neinn að labba í gegnum dimm húsasund einir síns liðs á myrkvu kvöldi í Zimbabve. Þegar ég tala um að láta Alheiminn grípa sig þá er ég að tala um að vera kannski einu skrefi á undan en passa samt að verða ekki strand einhversstaðar á síðustu stundu. Ekki plana of langt fram í tímann en verið samt með einhverjar hugmyndir um hvað skal gera næst. Ekki vera of “pikkí” og takið það sem ykkur býðst, svo lengi sem þið hafið góða tilfinningu fyrir því. Mér finnst oft gaman að hugsa mér að allar upplifanirnar mínar eru hluti af einhverju stærra batteríi sem ég mun nýta mér seinna meir, bæði fyrir sjálfa mig og til að hjálpa öðrum.

Millilandaflutningar: Ekki óalgengt hjá mér síðustu misseri. Millilandaflutningar: Ekki óalgengt hjá mér síðustu misseri.

Ert þú að fylgja innsæinu?

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þessa grein er vegna þess að mig langar að hvetja þig til þess að fylgja innsæinu þínu ef þú ert ekki þegar að því. Hefurðu raunverulega gaman að vinnunni þinni eða náminu þínu eða ertu að gera það sem þú ert að gera vegna þess að það borgar reikningana núna eða í framtíðinni? Hefurðu stóra drauma sem þú heldur að þú getir ekki látið verða að veruleika? Ertu raunverulega hamingjusöm/hamingjusamur? Finnst þér þú vera á réttri braut? Það eru svo margir sem dreyma um eitthvað, eins og fara út í nám, ferðast um heiminn eða skipta algjörlega um starfsvettvang eða námsvettvang en telja sig stillta inni í horn vegna þess að þeir eiga svo mörgum skyldum að gegna og vilja ekki verða öðrum vonbrigði: “fjölskyldan mín er öll heima á Íslandi”, “Ég á gæludýr”, “Ég þarf að borga reikningana mína”, “Ég þarf að þéna næga peninga í framtíðinni” o.s.frv.

Lesa einnig: Tungumálið sem enginn nema farfuglinn skilur

Ég og flest allir aðrir eiga fjölskyldu. Ég á stórfjölskyldur í tveimur löndum sem eru hvergi nálægt hvor annarri, ég átti gæludýr áður en ég hélt út í heim og leigði íbúð með einni bestu vinkonu minni. Vinkona mín tók kisann okkar alveg að sér og við fluttum báðar út úr íbúð sem við elskuðum út af lífinu, frá tímabili sem hafði verið eitt það skemmtilegasta í lífi okkar. En eitt tímabil tekur enda og annað tekur við. Við höldum öll áfram með líf okkar. Ég hef komið heim í hálft ár eftir eins og hálfs árs fjarveru og varla hitt vinkonur mínar því það eru allir svo uppteknir hvort sem er, fólk er í vinnu, á kærasta/kærustu, börn og o.s.frv. Maður er í raun og veru ekki að missa af neinu heimafyrir þegar maður ákveður að takast á við nýjar áskoranir og ævintýri út í heimi. ALLTAF þegar ég kem heim þá er yfirleitt allt alveg eins og það var og þegar ég hélt af stað í síðasta ævintýri. Hver einasta heimkoma sannfærir mig alltaf að ég hef hingað til tekið réttu ákvarðanirnar með að halda af stað í óvissuna og erlendu ævintýrin. Ég elska að hitta fólk og skoða nýja menningarheima, og einmitt þess vegna ferðast ég.

Láttu draumana þína rætast, hindranirnar eru bara í hausnum á þér!

Hvað sem það er sem kann að standa í vegi fyrir þér… ýttu því til hliðar og láttu drauminn þinn rætast hvað sem það kostar, þú munt aldrei sjá eftir því. Peningar koma og fara, hlutir koma og fara. En dagarnir þínir, næturnar þínar, tíminn þinn er það dýrmætasta sem þú hefur. Góður vinur minn sagði: “Hver einasti dagur er alltaf besti dagur lífs míns” Þannig verður alltaf næsti dagur betri en sá fyrri! Lifðu núna, ekki bíða með það.

Allt sem er Núna er Einstakt
Allt sem gerist á Eftir er Spennandi
Allt sem tilheyrir Fortíðinni er Viska

Ég rakst á þetta myndband á netinu og ég táraðist við að horfa á það því það snerti mig djúpt. Ég vona að það snerti þig líka.

Eigðu yndislegan dag. Eigðu frábærasta og besta dags lífs þíns… í dag

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.