Í lok október 2017 lá ég andvaka upp í rúminu mínu í Breiðholti og tókst að ákveða að fara til Indlands í yoganám og vetrargöngu í Indversku Himalayafjöllunum. Eftir smá gúggl fann ég gönguleið sem heitir Kuari Pass með fyrirtæki sem heitir Indiahikes og bókaði ferð gönguferð með þeim án þess að vera komin með flugmiða til Indlands eða pláss í yoganámi. Ég bókaði bara svo ég gæti sagt við sjálfa mig að ég væri á leiðinni í skemmtilega göngu og restin myndi ákveðast. Það rættist ágætlega úr þessu öllu saman og eyddi ég áramótunum með rúmlega 20 Indverjum á aldrinum 18-50 ára c.a. frá öllum krókum og menningarkimum Indlands. Þetta var yndisleg upplifun og hvet ég alla að prófa ferð hjá Indiahikes!

Mig vantaði nokkurn útbúnað fyrir þessa göngu og styrktu þau hjá GG sport mig um einn 65 lítra Ariel Osprey bakpoka og AKU gönguskó ásamt góðum göngusokkum frá Icebreaker í skóna. Snillingarnir hjá Cintamani sáu til þess að mér yrði ekki kalt og styrktu mig um föðurlandið Súld og Vindkul sem er úr mjúku dry-fit efni og nýttist vel í göngunni og einnig í yoganáminu sem ég var í, flíspeysuna Kolfinnu úr blöndu af ull og polýester – mjög hlý og andar vel, einnig fékk ég hjá þeim flíslambúshettu sem ég notaði mest í kringum hálsinn. Ég mun fara nánar yfir búnaðinn og fatnaðinn sem ég nota í næstu tveimur færslum sem eru væntanæegar 🙂

Indiahikes

Himalayafjöllin er stærsti fjallgarður í heimi og inniheldur ein stærstu fjöll jarðar og þau eru: Everest-8848m, Kangchenjunga-8586m, Lhotse-8516m og Makalu-8462m. Þessi fjöll eru kölluð ,,The Eight-Thousanders” vegna þess að þau eru öll yfir 8000m há. Fjallgarðurinn nær m.a. yfir Norður Indland, Nepal, Bhútan og Tíbet… Að þessu sögðu þá er alveg gefið að það eru fjölda gönguleiða í boði um Himalayafjöllin. Ég gekk um eina nokkuð auðvelda núna um áramótin sem heitir Kuari Pass og er í Norður Indlandi.

Ég bókaði mig í gönguna hjá indversku fyrirtæki sem heitir Indiahikes. Ég verð að segja að þjónusta þeirra, metnaður og aðbúnaður kom mér verulega á óvart. Ég ætla að tala aðeins um þetta fyrirtæki áður en ég segi frá göngunni sjálfri.

Ég bókaði gönguna í gegnum vefsíðuna Indiahikes.com sem kostaði mig litlar 15.000 krónur eða 8950 rúpíur. Innifalið í verðinu var gisting á hóteli í Joshimath í eina nótt fyrir gönguna og eina nótt eftir gönguna, þrjár GEGGJAÐAR grænmetismáltíðir á dag, te og heitt vatn, svefnpoki, liner, dýna og gisting í tjaldi á meðan göngunni stóð. Gjöf en ekki gjald fyrir 6 daga prógram!

Ég bara verð að gefa matnum sem var eldaður í þessari ferð alveg sérstakt hrós! Kjötlaus, eggjalaus, fiskslaus, ótrúlega ljúffengur, saðsamur og bráðhollur. Svo mikið thumbs up!
Einnig fengum við heitt chai te og heitt vatn í hvert einasta mál. Nema á kvöldin fengum við engiferte en ekki Chai 🙂

Metnaður fram í fingurgóma

Fyrir gönguna þurfti ég að fara til læknis og láta mæla blóðþrýstinginn og láta lækninn skrifa undir vottorð að ég væri nógu heil heilsu til að fara í High Altitude göngu. Svo fékk ég reglulega tölvupósta um hvernig ég ætti að undirbúa mig fyrir gönguna. Ég átti einnig að skila inn sönnunum þess efnis að ég væri líkamlega að undirbúa mig, en ég fékk undanþágu þar sem ég var í jógakennaranámi sem var ágætis líkamsrækt. Viðmiðið er að maður geti klaupið 5km á 40 mín til að vera líkamlega fær fyrir þessa tilteknu göngu. Fyrir stórborgarfólk getur þetta verið vandamál ef það er ekki vant að hreyfa sig, sem er svolítið raunin með Indverja frá stærri borgum landsins. Fólkið á bakvið Indiahikes er mjög meðvitað um þetta og vill ganga úr skugga um að fólk sé líkamlega undirbúið til að fara í svona ferð og er engir sénsar teknir. Við vorum öll blóðþrýstingsmæld og súrefnismæld í upphafi og síðan vorum við súrefnismæld fyrir og eftir göngur daglega þangað til þrautagöngunni lauk og var þeim upplýsingum haldið til hafa sem við geymdum í heilsudagbók. Að göngunni lokinni skiluðum við heilsubókinni og notar fyrirtækið upplýsingarnar til að mæla áhættuþætti og hverskonar. Fagmenn fram í fingurgóma verð ég að segja!

Green Trails

Ég sleppi ekki orðinu um Indiahikes fyrr en ég hef talað um Green Trails verkefnið líka. Það verður víst ekki hjá því komist. En Indiahikes er eina fyrirtækið sem starfar í Indversku Himalaya sem tekur náttúrumengun grafalvarlega. Til að spórna við frekar ruslauppsöfnun sem er mikið vandamál á þessu svæði skaffar fyrirtækið viðskiptavinum sínum ruslapoka “Eco-bags” til að henda ruslinu sínu í. Ekki nóg með það eru allir göngugarpar hvattir til að týna ruslið sem fyrir vegi þeirra verður. Ég stútfyllti pokann minn, en ekki hvað! Þúsund rokkstig á Green Trains og Móður Náttúru. Maturinn hjá Indihikes er líka partur af Green Trails. Enda er kjötiðnaðurinn einn af helstu mengunarvöldum á jörðinni í dag.

Nóg af rusli til að týna: ég með tvo eco ruslapoka!
Fatnaður: Súld (leggings) og Kolfinna (Peysa) frá Cintamani
Ferrero Stick Mustang göngustafir frá Ferrero fást GG sport

Kuari Pass gönguleiðin

Ég ætla að leyfa myndunum að segja söguna en gangan sjálf tók alls þrjár nætur/fjóra daga en alls var ferðin sex dagar með pick up og drop off í Rishikesh. Fyrsti og síðasti dagurinn sem er í raun bara ferðalag í bíl eru reiknaðir með. Aksturinn frá Rishikesh til Joshimath tekur rúmlega 10-12 klukkustundir þrátt fyrir að vegalengdin sé bara um 400km. Indversku fjallvegirnir eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, en ef maður kemur sér vel fyrir þá er ferðalagið þraukanlegt! 🙂

Göngudagur 1: Gengið frá Dhak til Akhot Geta

Við fengum góðan morgunmat og pökkuðum síðan hádegismat í nesti fyrir daginn og hófum ferðina frá Joshimath til Dhak sem var um 40 mínútna bílferð. Síðan hófum við gönguna léttklædd frá Dhak. Gangan var mjög passlega löng og brött og var útsýnið alveg geggjað. Skógarnir í Himalayafjöllunum eru mjög gamlir og er gróðurinn einstaklega fallegur. Mikið er um eikartré og háfjallagrös. Við enduðum daginn í Akhot Geta tjaldbúðunum í 9850 feta hæð og voru aðstöður til fyrirmyndar. Allavegana hef ég aldrei notað eins hrein útiklósett ever! Við höfðum nægan tíma eftir að komið var í búðirnar, borðuðum á okkur gat og spiluðum mafíuleikinn inn í stóru veitingatjaldi. Það tók að kólna allverulega þegar sólin settist og yfir nóttina var hitinn vel undir frostmarki. Það var allavega 15-20 stiga hiti á milli dags og nætur. Við sváfum alltaf í sama föðurlandinu sem átti ekki að nota í göngunni yfir daginn til að koma í veg fyrir að það blotnaði vegna svita. Ég svaf í föðurlandi, ullarsokkum og flíspeysu og var með húfu og var bara góð.

Yndislegi gönguhópurinn minn og frábæru guidarnir þrír lengst til vinstri. Mynd: Tanvir (@tanvirraihanislam á Insta)

Ég var ekki með slæma fjöðrun í þessari ferð! AKU gönguskórnir eru GEGGJAÐIR. Fást í GG sport

Dagur 2: Gengið frá Akhot Geta til Khullara Camp á Gamlársdag

Á degi tvö gengum við frá Akhot Geta til Khullara Camp sem var í 10.800 feta hæð, þannig það var ekki mikil hækkun en engu að síður vorum við smá spöl á leiðinni því leiðin var brött. Við vorum aðallega í skugga skógarins og nutum stórkostlegs útsýnis inn á milli. Um kvöldið spiluðum mörg okkar spil inn í tjöldunum og biðum eftir því að fagna nýju ári á miðnætti sem var afskaplega notalegt. Það var stórkostleg upplifun að fagna nýju ári einhversstaðar í Himalayafjöllunum í 10.800 metra hæð! Ég myndi gera þetta aftur allan daginn!

Dagur 3: Gengið frá Khullara að Kuari Pass 12.562 ft á Nýjársdag

Á þriðja degi fengum við að vera létt á fæti því við gistum aðra nótt í Khullara búðunum. Þar sem snjór var á leiðinni vorum við látin ganga í mannbroddum og með göngustaf upp að Kuari Pass, hæsta punkti ferðarinnar. Það létti ferðina töluvert mikið. Á toppnum byrjaði að snjóa léttilega, og voru margir yfir sig sáttir með það, enda höfðu margir indversku vinir mínir aldrei séð snjó. Svo hætti bara ekkert að snjóa heldur urðu flyksurnar bara stærri og stærri eftir því sem leið og við földum okkur að mestu inn í tjaldi og spiluðum á spil þangað til ég hvatti nokkra út í blíðuna. Ég fékk þann heiður að kenna krökkunum að búa til snjókall og vakti hann mikla lukku! Snjókoman gaf mér örlitla “heima” tilfinningu og ekki var það nú verra 🙂

Dagur 4: Gengið frá Khullara og niður að Dhak

Við enduðum gönguna á fjórða degi. Þar sem við höfðum fengið nýfallinn snjó var gönguleiðin ákaflega falleg og nóg af myndatökum á leiðinni. Það var líka svolítið um það að fólk var að renna í hálkunni, enda óvanalegar aðstæður fyrir flesta 🙂

Ég og hæsti tindur Indlands, Nada Devi í bakrunn
Fatnaður: Vindkul (föðurland) og Trausti í XS (göngubuxur) frá Cintamani
Gönguskór: AKU fæst í GG Sport
Bakpoki: Osprey Ariel 65 lítra færst í GG sport
Myndir: Tanvir (@tanvirraihanislam á Instagram)

Í lokin…

Þessi ferð var yndisleg og ég hefði ekki viljað skipta henni út fyrir neitt annað, nema örlítið erfiðari gönguleið kannski þar sem ég var engann veginn byrjandi miðað við indversku stórborgarbúana… en án þess þó að skipta út fólkinu mínu! 😉 Ég mæli rosalega mikið með því að bregða út af vananum um jól, áramót, afmæli eða hverju sem er sem þið kunnið að vera vanaföst í, og gera eitthvað öðruvísi. Það er svo ótrúlega gefandi. Ef Himalayafjöllin eru að heilla en ykkur langar að gera eitthvað öðruvísi en að ganga grunnbúðir Everest þá mæli ég með því að tékka á Indversku Himalayafjöllunum, og að sjálfssögðu mæli ég með Indiahikes!

 

Fagnað áfanganum á toppnum!
Mynd: Tanvir

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.