Þegar ferðast er um Asíu er afar algengt að flug millilendi í Kuala Lumpur. Margir ferðalangar ákveða hins vegar að halda sig einungis innan veggja flugvallarins í stað þess að eyða nokkrum dögum í borginni. Yfirleitt fæst sama verð fyrir flug frá A til B, hvort sem þú ákveður að millilenda í 3 klst eða 3 daga.

Ég nýtti mér það í nýlegri ferð frá Indlandi yfir til Japans. Eftir 1 og hálfan mánuð í óreiðu og óbærilegum hita í Indlandi var ólýsanlega góð tilfinning að lenda í Kuala Lumpur! Allt í einu blasti við mér þessi háþróaða og nútímalega asíska borg. Ég fékk það einna helst á tilfinningunni að ég væri komin tilbaka til Evrópu. Á hverju horni voru tískuverslanir, girnilegir veitingastaðir og krúttleg kaffihús. Kuala Lumpur er fullkomin borg til þess að versla og borða yfir sig af góðum mat!

Þar sem Indland tók bæði á líkamlega og andlega ákvað ég að nú væri komin til að splæsa í almennilegt lúxushótel! Eftir að hafa vafrað um á nokkrum leitarvélarsíðum komst ég að því að úrvalið er endalaust í borginni. Hér færðu flottustu lúxushótelin á frábæru verði. Yfirleitt á 10.000 – 12.000 kr nóttin. Flest þeirra bjóða upp á morgunverðarhlaðborð, “infinity” sundlaugar, líkamsrækt og heilsulind.

Að lokum varð GTower Hotel fyrir valinu, lúxus hótel staðsett í hjarta borgarinnar sem ég get persónulega mælt með.

GTower Hotel

Fyrir ykkur sem viljið eiga dekurdag í Kuala Lumpur mæli ég með því að nýta tækifærið og splæsa í 5 stjörnu hótel. Það er sjaldan sem hægt er að fá lúxushótel, með inniföldum morgunmat í göngufjarðlægð frá helstu stöðum borgarinnar á þessu verði. (Þú myndir fá sama pakka á Íslandi fyrir lágmark 30.000 kr). Ég ætla því að deila með ykkur hvað GTower Hotel hefur upp á að bjóða.

Hótelið er staðsett einungis nokkrum skrefum frá næstu metro stöð og það tók einungis 5 mínútur að komast frá hótelinu að hinum víðfrægu Petronas turnum. Fyrir þá sem vilja ganga eru þetta ekki nema 15 mín. Hótelið er staðsett afar miðlægt og er auðvelt að komast þaðan til og frá flugvöllinum þökk sé góðum samgöngum.

Herbergið

Ég gisti á “premier” herbergi sem er eins í hönnun og svokölluð “executive” herbergi, eini munurinn er að herbergisglugginn snýr að miðbænum með betra útsýni yfir helsta viðskiptahverfi borgarinnar. Herbergið var afar rúmgott útbúið öllum tólum og tækjum sem gætu hugsast; 37 tommu LCD skjá (með bíómyndum og þáttum til að velja úr), háhraða nettengingu, mini bar, og þægilega vinnuaðstöðu. Ég naut þess sérstaklega að vera með kaffibar á herberginu þar sem ég gat útbúið mér te eða kaffi hvenær sem er. Auk þess var fataherbergi, risastór sturta, allar helstu nauðsynjar á borð við tannbursta, sjampó, næringu, rakarkrem, inniskór og sloppar. Rúmið var þó líklegast toppurinn, með tvíbreiðri dúnsæng og sérstökum “kodda-matseðli” ha? Já, þú gast valið þér 4 kodda af sérstökum seðli.

Lestu meira um herbergið hér. 

Sundlaugarsvæðið

Sundlaugin var það sem ég var einna spenntust fyrir þegar ég bókaði hótelið. Enda var mestum tímanum eytt þar.

Það eru tvær sundlaugar til að velja úr á hótelinu, ein er staðsett við móttökuna en hin er samtengd líkamsræktarstöðinni. Báðar sundlaugarnar eru af svokallaðri “infinity” gerð, með ólýsanlegt útsýni yfir borgina. Sundlaugarsvæðið var afar rólegt og afslappandi og mér leið eins og ég hefði alla laugina út af fyrir mig. Það var endurnærandi að stinga sér ofan í kalda laugina og kæla sig meðal háu skýjakljúfrana allt um kring. Hér finnur þú betri upplýsingar um innviði hótelstins.

Veitingarstaðurinn

Veitingarstaður hótelsins, Tanzini, er staðsettur á næstefstu hæð hótelsins . Þaðan getur þú notið þess að sitja í rómantísku andrúmslofti, með frábært útsýni yfir þessa iðandi stórborg. Kokkur veitingarstaðarins, Kenneth Loke, er ungur en afar efnilegur á sínu sviði! Hann hefur starfað nokkur ár í Svíþjóð, en á Tanzini blandar hann saman skandinavískum áhrifum við framandi malasísk hráefni. Hann virtist vita betur en ég sjálf hvað bragðlaukarnir mínir þráðu heitast. Ég leyfði honum því að ráða hvað yrði eldað um kvöldið og stóðst það mínar háu væntingar.

Það beið mín 9 rétta máltíð, þar sem hver réttur toppaði þann fyrri. Kvöldið einkenndist af hverri gæsahúðinni á eftir annarri. Hver réttur var settur fram eins og listaverk og var fullkomin blanda af kjöt, sjávar- og grænmetisréttum. Auk þess smakkaði ég stingskötu (stingray) í fyrsta sinn á ævinni sem var margfalt betri en þær skötur sem ég hef smakkað á Þorláksmessu. Að lokum voru 9 litlir eftirrétir bornir fram í skemmtilegri umgjörð.

Rooftop bar

Á þaki hótelsins finnur þú glæsilegan bar, kallaður The View Rooftop Bar, undir berum himni með frábært útsýni yfir borgina. Staðurinn er nútímalega hannaður og neon lýstur á kvöldin. Hér naut ég þess að sötra á svalandi drykkjum til að kæla mig niður eftir hitann og rakann á daginn. Barþjónarnir eru afar færir og nota ferska ávexti í alla drykki.

Líkamsræktin

Oft á tíðum gefst ekki mikill tími til að rækta heilsuna á bakpokaferðalögum, ég ákvað því að nýta tækifærið og skella mér loksins í gymmið! Ég var afar hrifin af þessari stöð enda er hún gædd náttúrulegri birtu og fallegu útsýni. Á hverjum degi er boðið upp á hóptíma á borð við spinning og budy pump. Það var skemmtileg reynsla að taka þátt í þeim ásamt öðrum hótelgestum og fastagestum. Þjálfararnir voru mjög líflegir og persónulegir og duglegir að aðstoða í tímunum. Hér finnur þú frekari upplýsingar.

Spa

Hótelið er með spa staðsett inni í líkamsræktarstöðinni. Þar getur þú skellt þér í nudd, andlitsbað og dekur. Spaið er byggt í malasískum stíl, þar sem veggirnir eru umkringdir viðargreinum.

Morgunmaturinn

Morgunmaturinn er borinn fram á The Club.

Á meðan mér finnst sundlaugin á hótelinu mikilvægasti þátturinn er kærastinn ósammála og leggur helstu áhersluna á morgunverðarhlaðborðið! Við þurfum því yfirleitt að velja hótel sem býður upp á topp sundlaug og hágæða hlaðborð á morgnana. Við urðum alla vega ekki fyrir vonbrigðum með matinn sem blasti við okkur. Það var allt flæðandi í ferskum ávextum og salurinn ilmaði af nýbökuðu bakkelsi. Kokkarnir voru á sínum stað, tilbúnir að útbúa ommulettu eða hrærð egg eftir pöntun. Við smökkuðum einnig ýmsa ávexti sem við höfðum aldrei séð áður. Síðar um daginn beið okkar flug til Tokyo og lögðum við af stað í næsta ferðalag södd og sæl eftir fullkomna dvöl í Kuala Lumpur.

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.