Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur, er flestum landsmönnum að góðu kunn. Borgin skiptist í tíu hverfi og er Vesterbro eitt þeirra. Hátt í tvær milljónir manna búa á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Skömmu fyrir miðnætti komst lestin loks á leiðarenda eftir fimm tíma fremur tíðindalitla ferð frá Gautaborg. Í minningunni var aðaljárnbrautarstöðin í Kaupmannahöfn tilkomumikil, hýst í feiknastórri byggingu í nýklassískum stíl – mannmörg og hávær. Ég –16 ára gömul í fyrsta sinn í stórborg – sá ekki margt kunnuglegt ef undan er skilinn hinn kyrfilega vel merkti skyndibitarisi „McDonalds“. Í fljótu bragði stóðu tvær útgönguleiðir til boða. Við útidyrnar austanmegin stóð hið heimsþekkta Tívólí. Við vesturendan – Istegade með sínum sorglegu strippbúllum og sprautufíklum. Vestrið varð fyrir valinu og eftir töluverða ringulreið, rak ég inn nefið á einna-stjörnu hótel í hringiðu rauða hverfisins og bað um ódýrasta hótelherbergið. Þetta voru mín fyrstu viðkynni af Vesterbro fyrir tveimur áratugum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta átti sér stað. Kaupmannahöfn er ein af þeim borgum sem ég heimsæki reglulega og hefur Vesterbro tekið undraverðum breytingum á undanförnum árum (minnir á uppbyggingu Kreuzberg í Berlín og Brooklyn í New York). Nú iðar Vesterbro af lífi þótt enn hvíli skuggar í skjóli næturs.

Ástæðan fyrir því að ég geri Vesterbro að umtalsefni er einfaldlega sú að nú er óhætt að ganga út um vesturendan á aðaljárnbrautarstöðinni (Hovedbanegården) án þess líða eins og villuráfandi sauð. Hverfið er vissulega móðins en ég ábyrgist að þar bíður ykkar spennandi veröld með aragrúa af verslunum, veitingastöðum, kaffihúsum, og skemmtistöðum. Afslappað en samt allt á suðupunkti!

Stemning

 • Félagsleg sambúð í hæsta gæðaflokki. Fjölskyldufólk og námsmenn. Hæfileg blanda af menningarelítu og jaðarsettum setur svipmikinn brag á hverfið. Hverfið verður fínna eftir því sem vestar dregur. Uppar, útrásarvíkingar og plebbar eru vel sýnilegir enda er fermetraverðið á leiguíbúðum með því hæsta sem gerist í landinu.
 • Andrúmsloftið á Vestebro er alls konar enda sambúðin fjölbreytt. Það ríkir frönsk stemning á Værnedamsvej þar sem upplagt er að byrja daginn á góðum bolla og virða fyrir sér götulífið.
 • Það er líka himneskt að ráfa um Sønder Boulevard á vorin þegar bleiku kirsuberjatrén standa í blóma. Kvöldum er best eytt í Kødbyen eða á Istegade ef þú vilt aðeins minni skarkala.
 • Algengasti fararmátinn er án efa reiðhjól enda kunna Danir þá list mætavel að vera lekker á hjóli – jafnvel í rigningu.
 • Hér gildir reglan um látlausan klæðaburð og flatbotna skó (a.k.a. strigaskór í takmörkuðu upplagi).

Gisting

 • Heimagisting er að mínu mati alltaf best enda Danir smekkfólk upp til hópa sem er annt um híbýli sín. Hér eru þó tveir áhugaverðir gistikostir sem óhætt er að mæla með.
 • Guldsmeden er vistvæn hótelkeðja með aðsetur víða þ.á.m. í Reykjavík. Tvö hótel eru staðsett á Vesterbro, annað á Istegade og hitt á Vesterbrogade. Bambustannburstar eru á hverju herbergi og morgunverðarhlaðborðið er lífrænt frá a-ö.
 • Central Hotel & Café er staðsett á hinni sjarmerandi Værnedamsvej. Þetta einstaka hótel er afar smávaxið en aðeins eitt herbergi er á hótelinu.

 

Næring  

 • KAFFI → Það er algjört lífsspursmál fyrir mig að drekka gott kaffi daglega. Eitt af fjölmörgum kostum Kaupmannahafnar er að þar er fremur auðvelt að verða sér út um gott kaffi. Fyrir eðalstöff og lengra komna mæli ég með Riccos og Enghave kafe.
 • MATUR Á Værnedamsvej og í Kødbyen eru veitingastaðir sem bræða alla bragðlaukana. Brunch á Granola eða Les Trois Cochons og pítsur á Mother er eitthvað sem margir eru reiðubúnir að standa í röð fyrir. Bod Organic Bistro er stærsti lífræni veitingarstaðurinn í Danmörku.
 • VÍN Fljótandi veigar eru partur af prógramminu í Kaupmannahöfn. Grjótharðir geta fengið sér bjór og Jägermeister í morgunmat án þess að þurfa að skammast sín. Mikkelsen bar er mekka bjóráhugamanna þar sem hundruð tegunda er í boði. Fyrir hágæðavín mæli ég allan daginn með Malbeck. Sams konar staður er einnig á Nørrebro.

Sjá einnig: Gott að borða í Kaupmannahöfn

Afþreying

 • Ómissandi hluti af hverri borgarferð er að heimsækja söfn eða gallerí. V1 Gallery er áhugavert gallerí í Kødbyen sem opnar reglulega sýningar eftir innlenda og erlenda myndlistarmenn. Á sama svæði er líka Fotografisk Center sem sýnir ljósmyndir eftir skandinavíska listamenn.
 • Það er víst enginn maður með mönnum í dag nema stunda jóga kvölds og morgna – helst klæddur hvítum kufli. Yoga Vesterbro er notalegt stúdíó þar sem unnt er að auðga andann og droppa inn í tíma.
 • Þeir sem elska tísku þurfa ekki að örvænta en ættu að halda vel í veskið því allt um kring eru fallegar verslanir, s.s. Ganni, Mads Nørgaard, Playtype, Designer Zoo, Kyoto, Jeromy Vintage, og Kaffe & Vinyl. Istegade er aðal verslunargatan á svæðinu með mikið af litlum sérverslunum.
 • Ef það er rigning, þá er um að gera að skella sér í bíó í regnbogahöllinni Palads.

Ekki missa af:

 • Granola
 • Enghave kafe
 • Malbeck
 • Værnedamsvej
 • Ködbyen
 • Ganni
 • Hjólasnáknum (brúin)

P.s. Þrátt fyrir að Vesterbro sé málið þá er alltaf skemmtilegt að rölta um Jægersborggade á Nørrebro (uppáhalds gatan mín í borginni).

Sérstakar þakkir fá Hrefna Jónsdóttir fyrir að hýsa mig í öll þessi ár, Birna Bryndís Þorkelsdóttir fyrir að draga mig á hipp&kúl bari og Arnar og Haffi fyrir stórkostlegt útsýni!

Myndir úr einkasafni.

– Ingunn Eyþórsdóttir –

Instagram

About The Author

Ingunn Eyþórsdóttir

Ingunn er markaðsstjóri, tveggja barna móðir, og forfallinn ferðafíkill. Daglegar athafnir Ingunnar snúast um að drekka gott kaffi, dansa sólarsamba, starfa í Háskóla Íslands, koma börnum sínum frá A-B, og skipuleggja næstu ferð. Ingunn hefur ferðast víða en er með sérstakt dálæti á Asíu og Miðausturlöndum. Hún eyðir (mest)öllum fjárhag heimilisins í ferðalög en það er hverrar krónu virði.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.