Þegar ég hélt að Japan gæti ekki komið mér meira á óvart, frétti ég af KANÍNUEYJUNNI, OKUNOSHIMA!

Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um, ég varð að komast þangað….

Eyjan Okunoshima var upphaflega notuð undir framleiðslu á efnavopnum í seinni heimstyrjöldinni. Í mörg ár var þessi afskekkta eyja falin umheiminum. Hún var hernaðarleyndarmál, birtist hvergi á landakortum og allir íbúar eyjunnar bundnir þagnareið um tilvist hennar.

Þrátt fyrir dimma fortíð, er eyjan í dag líklegast einn krúttlegasti staður heims! Yfir þúsund kanínur búa nú þar og er vel hugsað um þær af þeim örfáu sem búa á eyjunni. Eyjan er enn nokkuð óspillt en er þó farin að verða vinsælli og vinsælli meðal ferðamanna sem gera sér dagsferð úr leið frá hinum hefðbundu áfangastöðum til að hitta þessar loðnu krúttsprengjur.

Ekki er nákvæmlega vitað hvernig kanínurnar komust upphaflega á eyjuna og náðu að fjölga sér svona hratt. Margt bendir til þess að þær hafi verið fluttar á eyjuna sem tilraunardýr til að kanna áhrif efnavopnanna, en starfsmenn verksmiðjanna sleppt þeim lausum í lok stríðsins.

Á sólríkum degi hélt ég af stað til eyjunnar frá Hiroshima og hoppaði um borð á “Shinkansen” lest. Á 300 km/klst  var ég ekki lengi að komast áleiðis og áður en ég vissi af var ég komin í lítinn, sætan veiðimannabæ við sjóinn. Ég rakst á hátæknisjálfsala og keypti mér rjúkandi heitan cappuccino og fylgdist með veiðimönnunum á meðan ég beið eftir ferjunni yfir á eyjuna.

Ég hafði heyrt um eyjuna frá nokkrum japönskum skvísum en vissi í raun engan veginn við hverju ég átti að búast. Á meðan ég sat í ferjunni varð ég smá stressuð um að verða óheppin og kannski ekki sjá neinar kanínur. Ég hafði þó keypt nokkrar gulrætur ef ske kynni að ég myndi að hitta þessa loðnu félaga.

Sú hugmynd staldraði þó ekki lengi við, eftir því sem ég nálgaðist eyjunna gat ég séð hvernig kanínurnar, 20, 50, 100 talsins röðuðu sér upp meðfram bryggjunni. Þær vissu vel hvað ferjan þýddi – MATARTÍMI!

Ég gat ekki hætt að brosa, það er bara alltof fyndið að sjá allar þessar kanínur komnar saman á einum stað. Þær eru ekkert líkar kanínunum í Öskjuhlíðinni sem flýja undan manni um leið og þær sjá mannfólk. Þessar kanínur eru afar gæfar og hændar mönnum. Um leið og ég steig fæti á eyjuna byrjuðu kanínurnar að hoppa í áttina að mér. Ég settist niður og útdeildi nokkrum gulrótum. Eftir stutta stund var ég umkringd kanínum, þær hoppuðu upp í kjöltuna hjá mér og aðrar reyndu að krafsa sér leið upp á bakið á mér.

Margar þeirra standa á afturfótunum og setja upp þessa týpísku “kanínupósu”…ekki slæm leið til þess að vera ofurkrúttlegar og biðja um meiri mat. Aðferðin virkaði alla vega vel á mig því fljótlega var ég farin að sjá eftir því að hafa ekki fleiri gulrætur meðferðis.

Þegar ég komst yfir gleðivímuna við að vera umlukin þessum loðkrúttum ákvað ég að kanna staðinn betur. Eyjan sjálf er algjör paradís; umlukin hvítum ströndum og túrkísbláum sæ, og kanínur leynast bókstaflega ALLS STAÐAR.

Ég hafði heyrt um fortíð eyjunnar og var því áhugasöm um að finna gömlu verksmiðjuna sem var eitt sinn notuð til þróun efnavopna. Fljótlega fann ég steypta göng þar sem glitti í verksmiðjuna á hinum endanum. Hún var algjörlega yfirgefin og í niðurníslu, flestar rúður brotnar og gróður farinn að þekja öll yfirborð.

Svæðið var afar kyrrlát en nokkrar kanínur hoppuðu um hér og þar. Sumar eltu mig inn í verksmiðjuna í von um meiri mat. Ég eyddi smá tíma inni í verksmiðjunni og reyndi að ýminda mér hvernig hún hefði litið út á tímum stríðsáranna.

Að heimsækja Okunoshima var klárlega eitt af mínum eftirminnilegustu augnablikum á 5 vikna ferðalagi um Japan. Ef leið þín liggur til Japans mæli ég hiklaust með því að heimsækja þessa heillandi eyju.


About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.