„Hvernig takið þið myndir af ykkur saman?” er spurning sem við fáum lang
oftast eftir að við stofnuðum Instagram aðganginn okkar 
@Icelandic_Travelers.
Í gegn um þetta ferli höfum við þróað með okkur nokkrar aðferðir sem hafa
hjálpað okkur mikið við að ná flottum para-myndum og okkur langar að deila með ykkur!

1. Fjárfestið í þrífæti

Við tökum nánast allar myndirnar okkar með þrífót og finnst algjört möst að taka hann með í
ferðalag. Oft ferðumst við á staði þar sem við erum eina fólkið á ferð og þá er gott að geta stillt þrífætinum upp nákvæmlega eins og við viljum hafa myndina. Eftir að við keyptum okkur þrífót
höfum við heldur ekki þurft að spyrja ókunnugt fólk hvort það vilji taka myndir af okkur sem getur verið mjög vandræðaleg aðstaða.

2. Notið Self-timer eða þráðlausa fjarstýringu

Flestar myndavélar í dag eru með self-timer eða tímastilli, við stillum oftast á 10 sek ef við notum þá tækni. Hins vegar eru mjög margar myndavélar í dag líka með þráðlaust net sem hægt er að tengja við símann og nota sem fjarstýringu.
Myndavélin sem við notum heitir Sony A6000 og hefur einmitt þennan eiginleika.

Myndirnar okkar urðu mikið flottari þegar við komumst að þessu en þetta virkar sem sagt þannig að við náðum í app í myndavélinni sem heitir „Smart remote control” og app í símanum
sem heitir „PlayMemories”. Þegar við tökum síðan myndir stillum við myndavélinni upp á þrífót og tengjum símann við WiFi-ið í vélinni. Öppin tvö tengja svo skjáinn á myndavélinni við skjáinn á
símanum þannig við sjáum nákvæmlega hvernig myndin kemur út.  Við getum stillt okkur upp eins og okkur finnst flottast og tökum svo mynd þegar við erum tilbúin.

Athugið samt að vegalengdin sem WiFi-ið nær er um 10 metrar þannig það er ekki hægt að nota
þessa tækni ef þið ætlið að taka myndina lengra frá. Við vitum ekki hvort þetta sé svona á öllum
myndavélum sem hafa Wifi en það er um að gera að athuga það því þetta er algjör “life-saver”.

3. Hjálpist að við að stilla ykkur upp

Það getur tekið tíma að stilla öllu upp fyrir mynd þannig að bakgrunnurinn skyggi ekki á okkur og landslagið fái að njóta sín. Okkar leið er oftast þannig að annar aðilinn stillir sér upp fyrir framan myndavélina og hinn stillir vélina og leiðbeinir.
„Færðu þig aaaaðeins lengra til hægri, nei, aðeins meira til vinstri, ok, og farðu síðan aðeins framar” getur verið þreytandi en það er samt þess virði að leggja smá vinnu í að ná flottum myndum. Munið bara að hafa ykkur í fókus og vera afslöppuð! Þá verða myndirnar flottastar.

4. Notið Sólarljósið

Veturnir á Íslandi geta verið sérstaklega erfiðir þegar kemur að lýsingu á myndum. Við höfum oft lent í því að ætla að fara að taka myndir en síðan verður allt í einu myrkur klukkan 17:00 og lýsingin
í kjölfarið allt of dökk.
Við mælum með því að skoða gang sólarinnar og tímasetja ferðirnar ykkar samkvæmt því, núna í febrúar-mars er sólarupprás um 9-10 og hún sest um 17-18 leytið. Þið getið einnig skoðað þetta
þegar þið farið erlendis en það er alltaf fallegt að ná myndum á gullna tímanum við sólarupprás eða rétt áður en sólin sest.
Hér er linkur þar sem hægt er að skoða klukkan hvað sólin sest og rís alls staðar í heiminum.

5. Gerið eitthvað nýtt og skemmtilegt

Það er mjög skemmtilegt að eiga alls konar mismunandi myndir saman, sérstaklega ef þið ætlið
að búa til sameiginlegt albúm eða Instagram síðu. Við reynum eins og við getum að vera frumleg
og fáum oft skemmtilegar hugmyndir frá öðrum para-bloggurum. Hér eru nokkrar hugmyndir;

  • Farið í fjallgöngu saman og takið útsýnismynd með ykkur í forgrunni.
  • Takið mynd af ykkur í útilegu með tjaldinu.
  • Farið á hæðsta útsýnispallinn erlendis og takið mynd yfir borgina með ykkur í forgrunni.
  • Prófið mismunandi sjónarhorn í sömu myndatöku, kannski er flott að hafa myndavélina aðeins neðar eða ofar?
  • Verið einlæg, knúsið hvort annað, kyssist, leiðist hönd í hönd og hlægið.
  • Prófið að vera á mismunandi stöðum á myndinni, annar nær og hinn fjær.
  • Prófið #followmeto mynd þar sem annar aðilinn heldur í hendina á hinum sem tekur myndina.

6. Takið ykkar tíma og hafið gaman!

Fólk starir oft á okkur þegar við erum að taka myndir og það getur verið mjög
vandræðalegt en reynið að láta það ekki trufla ykkur. Leyfið fólkinu bara að stara á ykkur og hugsið „við erum aldrei að fara að hitta þetta fólk aftur”.
Takið ykkar tíma því það er svo skemmtilegt að eiga fallegar myndir saman sem endast út lífið. Hlæið, ekki taka ykkur of alvarlega og umfram allt hafið gaman og njótið að vera saman!

Takk fyrir að lesa!

Tanja & Sverrir
Instagram: @icelandic_travelers

 

 

About The Author

Tanja og Sverrir eru ferðaglatt par sem finnst fátt skemmtilegra en að skoða nýja staði saman. Frá því þau byrjuðu saman hafa þau ferðast mikið um Ísland jafnt og aðra staði í Evrópu. Þau hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og reyna að fanga öll þeirra dýrmætustu augnablik á filmu. Auk þess að blogga hér eru þau með Instagramið @icelandic_travelers þar sem hægt er að fylgjast nánar með ævintýrum þeirra.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.