Eins og þeir vita sem lásu pistilinn minn Ferðalagið með ungbarn til Balí, sankaði ég að mér öllum heimsins ráðum og upplýsingum um hvað ég þyrfti að hafa með mér og hverju ég þyrfti að passa mig á. Ég er að tala um marga leiðangra á google.com, umræður í mömmuhópum á facebook og bætti svo við ofan í tösku það sem ég var bara 100% viss um að ég þyrfti líka að nota.
Já, þetta var meira og minna allt saman ferlegur óþarfi. Mömmuhjartað veit oft bara best.

Það sem ég ráðlegg að hafa meðferðis þegar flogið er með ungbarn (að minnsta kosti 0 – 3 mánaða):

 • Bleyjur
 • Blautþurrkur
 • Þunna skiptidýnu eða taubleyju (ef þið viljið ekki leggja barnið beint á skiptiborðið)
 • Taubleyjur/gasbleyjur
 • Pela & mjólk – eða graut/mauk/skvísu (ef það á við og barnið farið að fá slíkt. Gott til dæmis að vera búin að venja barnið á að drekka mjólk við stofuhita til að losna við að þurfa að hita. Í flestum vélum er það þó ekkert mál. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hversu mikið má taka með í flug þegar ferðast er með ungbarn, svo taktu meir en þú heldur. Allavegana stoppaði mig enginn með allt mitt).
 • Pela með vatni
 • Vatnsflösku(r) (fyrir þig ef þú ert með barnið á brjósti og kannast við það að þorna upp líkt og eyðimörk um leið og barnið byrjar að drekka)
 • Snuð og aukasnuð ef hitt týnist (ef barnið tekur snuð. Kannski líka ef það tekur ekki snuð – hver veit nema þetta sé staðurinn sem það byrjar að elska það. Ég var allavegana með 6 mismunandi tegundir. Esjar ákvað samt ekki að taka snuð..)
 • Eitthvað sótthreinsandi ef þú hefur áhyggjur af sýklum (ég held það sé best að ég fari ekki út í þennan punkt hjá okkur…. Úff!)
 • Aukaföt á barnið, þig og makann (fjöldi stykkja fer eftir lengd flugs en hafið í huga breytt hitastig í vélunum. Ég var reyndar með sjö galla á Esjar – óþarfi, og 3 dress á okkur – líka óþarfi.)
 • Poka fyrir aukafötin
 • Sæng/teppi (já, ég var með bæði. Ég var líka með aukasett af rúmfötum utan um sængina hans. Notaði það ekki).
 • Stíl (Notist í neyð. Eða ekki. Esjar fékk fyrir flugin. Kannski hjálpaði það honum að sofa. Kannski gerði það ekkert. En hann svaf!)
 • Dót eða annað áhugavert til að stela smá athygli (oftast var samt hitt fólkið í vélinni mest spennandi fyrir Esjar).
 • Einnig má fara með kerru/vagn upp að flugvél hjá flestum flugfélögum (er síðan mismunandi hvort að það bíður manns um leið og komið er úr vélinni, á færibandinu með töskunum eða á færibandi fyrir stóra hluti), hægt er að hafa bílstól í sæti hjá sumum flugfélögum (ef keypt er sæti undir ungbarnið) og sumum finnst gott að hafa barnið í burðapoka framan á sér.

Aðrar upplýsingar sem ég fékk var til dæmis:

 • Nudda barnið í nokkra daga fyrir flug því það er svo slakandi og nokkra daga eftir flug til að hjálpa til við flugþreytu (veit ekki meir – en ég nuddaði og nuddaði… auðvitað).
 • Nefsprey fyrir hljóðhimnuna í flugtaki/lendingu (Esjar hefði náttúrulega aldrei hætt að öskurgrenja ef ég hefði sprautað nefspreyi í nefið á honum svo ég sá ekki hvernig ég átti að nota þetta. Lét þó Önju, 10 ára, nota það í öllum flugunum og hún fann lítið fyrir hellu)
 • Svefnlyf – uppáskrifað hjá lækni! (Fékk ég svoleiðis og keypti dýrum dómi? Já. Já ég gerði það. Notaði ég það svo? Nei, ég hætti sem betur fer við að nota það þegar við fórum að lesa aukaverkanirnar. Ég á því núna bara ógeðslega stóra flösku af svefnlyfi fyrir börn hér úti á Balí… Var ég ekki búin að koma að því að ég væri nett móðursjúk?)

Þegar kemur að ungbarnafarangri og mat virðast ekki vera nein takmörk eins og ég komst að. Allavegana stoppaði mig enginn – þrátt fyrir að það hafi oft verið horft á mig með stórum augum og flissað af mér. Ég var til dæmis með bleyjur, blautþurrkur og þurrmjólk í öllum handfarangurstöskum hjá fjölskyldumeðlimum svona ef einhver þeirra myndi týnast. Eðlilegt…

Ég flaug síðan með Esjar til Kuala Lumpur þegar hann var alveg að nálgast 5 mánaða. Það var 3ja tíma flug, en þá var griðarlegur munur á honum síðan í fluginu út til Balí þegar hann var rétt að verða 3ja mánaða. Nú trufluðu flugvélahljóðin hann, hann náði ekki að festa svefn því það voru kveikt ljósin í rýminu, hann vildi vera mun meira á ferðinni, fékk fljótt leiða og var meir krefjandi (já ég fór að grenja 2 í því flugi. En ég var ósofin og einn hress félagi fyrir framan okkur var alltaf að gefa okkur ljótan svip þegar Esjar grét). Ég bætti aðeins við töskuna (eðlilega) til að hafa með í því flugi.

Ef flogið er með barn frá 4 mánaða – 1 árs mæli ég með að bæta við listann hér að ofan:

 • meira dót sem gleður (ég keypti eitt nýtt áður en við fórum með Esjar í flug þegar hann var að nálgast 5 mánaða. Það vakti gleði!)
 • meiri mat – graut, skvísur, barnamauk og kex (aftur virtust eingin takmörk vera. Ég fékk allavegana að fara í gegn með heilann lager af mat)

Ég mæli að lokum með því að:

 • Plana brjósta/pelagjöf við flugtak og lendingu (til að reyna að koma í veg fyrir hellur)
 • Hafa í huga að stundum er ógeðslega heitt í flugvélum og stundum ógeðslega kalt (plana fötin og teppi/sæng eftir því).
 • Labba um vélina og skoða fólkið og allt það nýja sem er hægt að sjá í flugvélinni. Fyrir lítið barn er þessi stóra vél nýr heimur!
 • Pæla sem minnst í hinum farþegunum ef barnið fer að gráta eða er pirrað (Barnið og þið hljótið að hafa fullann rétt til að ferðast og eiga slæman dag eins og hitt barnlausa fólkið!)
 • Halda ró í fluginu þó svo að allt fari á versta veg. Börnin okkar skynja nefninlega allar okkar tilfinningar. Það á sérstaklega við þegar við erum stressuð eða í ójafnvægi. Þetta tekur enda – flugin klárast og skemmtilegt frí er framundan!

 

 

 

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.