Um miðjan júlí 2017 gekk ég 100 kílómetra um Hornstrandir með sjö fræknum göngugörpum. Orð fá því ekki lýst hvað ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta einstaka tækifæri að stíga fæti á þennan undurfagra strað. Það er líklega ekki fyrir alla að ganga 100 km á fimm dögum, eða sofa í tjaldi í fimm nætur í röð og bera allan farangurinn á bakinu og taka allt ruslið með sér heim. Eða skíta í illa lyktandi “compost” kamar. En þetta er svo sannarlega eitthvað fyrir mig!
Ekki það að ég elski kamrana, en Hornstrandir er bara svo sjúkur staður að sturtulausir fimm dagar, þreyttir fætur og aumar axlir eru svo sannarlega þess virði þegar toppnum og botninum er náð. Fjöllin, firðirnir og víkurnar eru svo sannarlega fallegar. Ég hef allavega aldrei komið á jafn ósnortinn stað á ævinni. Á Hornströndum eru engir bílar, ekkert símasamband, engar ruslatunnur, engir hestar og engir hundar. Bara villtir manngælnir refir og hamingjusamt göngufólk. Lífið er alveg einstaklega fallegt á Hornströndum, því mæli ég með að allir skelli sér þangað a.m.k. einu sinni á lífsleiðinni. Það þarf ekki endilega að halda í fimm daga sturtulausa gönguferð, heldur eru einnig hús á Hornströndum sem eru til útleigu á sumrin. Um að gera að tékka á því ef full-on ganga er ekki fyrir þig.

Við heimsóttum nokkrar víkur og klifum nokkra tinda á þessum fimm dögum sem ég og hópurinn minn gengum saman. Vonandi njótið þið í botn og látið ykkur dreyma á meðan ég nýt minninganna og læt leyfi mér að hlakka til um að koma þangað aftur næsta sumar!

Örlítið um undirbúninginn…

Fyrir forvitna, þá má áætla að kostnaður fyrir svona ferð sé á bilinu 40-50 þúsund fyrir bensíni, bátsferð og mat í fimm daga. Ef þú þarft að kaupa búnað þá hækkar auðvitað kostnaðurinn. Annars er stundum hægt að leigja búnað fyrir sanngjarnt verð. Ég mun fara yfir búnað fyrir svona gönguferð í annari færslu sem er væntanleg von bráðar. Í þessari færslu ætla ég að sýna ykkur myndir og segja ykkur stuttlega frá gönguleiðunum sem ég og hópurinn minn fórum.

Kvöldganga á Hesteyri

Við byrjuðum ferðirna á tveggja nátta stoppi á Hesteyri. Við ákváðum að ganga í Aðalvík á degi númer tvö með létta bakpoka og koma svo aftur í Hesteyri og sofa þar aðra nótt vegna þess að okkur þótti það fýsilegri kostur að hita upp og njóta í stað þess að byrja þramma strax á fyrsta og öðrum degi með allan matinn og munaðinn. Það munaði svo sannarlega miklu að taka fyrstu tuttugu kílómetrana létta. Fjörðurinn er umlukinn fallegum fossum og litríkum gróðri. Svo skjóta selir stundum upp kollinum eða hafa það notalegt á grjótdyngju út í sjó!

 

Dagsferð í Aðalvík frá Hesteyri

Við gengum niður í Aðalvík yfir Hesteyrarskarð og niður Norður-Aðalvík á leiðinni niður í Aðalvík og svo á leiðinni til baka gengum við upp Miðvík og aftur í Hesteyrarskarð niður í Hesteyri.

 

 

 

 

 

 

Gengið frá Hesteyri til Hlöðuvíkur

Á þriðja degi gengum við frá Hesteyri til Hlöðuvíkur um Kjaransvíkurskarð með allan farangurinn á bakinu. Það var smá vindur á leiðinni og rigndi aðeins en við sluppum afar vel miðað við það að fólk talaði um að búast mætti við mikilli lægð. Við vorum allavegana vel búin og afar sátt með leiðina og óblíðuna því ef það hefði verið bongó þá hefðum við líklega kálast úr hita! Það er alveg lúmskt þægilegt að fá svona la-la veður þegar maður gengur 15-20 kílómetra með 15-20 kíló á bakinu.

Þarna vorum við að ganga yfir Kjaransvíkurskarð frá Hesteyrarfirði og sést sá fagri fjörður í bakrunni á næstu myndum.

Ég óð svo greitt yfir þennan læk að ég hrasaði ofan í hann og setti skóna á bólakaf. Það var ekki gaman. En ég reddaði því með plastpokum og þurrum sokkum. Ég mæli með VAÐSKÓM eða að fara úr gönguskónum! Meira um göngufatnað má sjá í færslunni minni Fatnaður til útivistar.

Gengið frá Hlöðuvík til Hornvíkur

Á fjórða degi gengum við frá Hlöðuvík yfir í Hornvík um Atlaskarð. Við tókum smá krók í Rekavík þar sem við hentum farangrinum af bakinu og ætluðum okkur að ganga Hælavíkurbjarg og njóta útsýnisins þar. Fólk þorði mislangt því göngubrúnin var frekar mjó og jaðraði við það að maður þyrfti að tryggja sig í línu. Það voru tveir ofurhugar í hópnum sem fóru alla leið og fékk ég því myndir þaðan að láni frá henni Dagbjörtu vinkonu þar sem ég var of mikill kjúlli til að þora. Að háskaförinni lokinni héldum við göngunni áfram niður að Höfn í Hornvík.

 

 

 

Dagsferð á Hornbjarg, Kálfatinda og Miðfell

Hornbjargardagurinn okkar var sá sólríkasti og besti í göngunni. En þar sem við höfðum planað að gista í Hornvík í tvær nætur þá höfðum við sömuleiðis planað að ganga upp á Hornbjarg og hugsanlega aðra tinda með létta bakpoka. Það var eins og við hefðum pantað veðrið miðað við planið því fullkomnara gat það ekki verið! Ég ætla að leyfa myndunum að njóta sín fyrir neðan. Miðfell er því miður ekki á kortinu en var minni tindur við hliðin á Kálfatindum.

 

 

 

 

 

Við vorum algjörlega í skýjunum með að hafa gengið á tindana þrjá, enda alveg magnað útsýni frá hverjum og einum þeirra. Þó að vaðið yfir ána var kalt á leiðinni til baka þá fær þessi dagsferð Eitt stórt VÁ! <3
100%

Gengið frá Hornvík í Veiðileysufjörð

Síðasta daginn okkar gengum við frá Hornvík yfir Hafnarskað og niður í Veiðileysufjörð þar sem Sigurður skipstjórinn okkar sótti okkur. Það rigndi í upphafi ferðar en síðan hætti fljótlega að rigna og var mest megnis þoka alla leiðina. Þetta var jafnframt stysta gangan okka, eða um 11km. Létt og góð því við vorum meira og minna búin með allan matinn! Hér eru nokkrar vel valdar frá þeim degi.

Mysteríska þokan hélt bara áfram. Það var í lagi því hún var elskuð og dáð af svitnandi göngugörpum. Dagur númer fimm án eiginlegrar sturtu var alveg farinn að segja til sín! Hérna vorum við að ganga upp Hafnarskarð frá Hornvík.

 

 

 

 

 

 

 

Breiðaskarðshnúkar á Hornströndum from Elin Kristjansdottir on Vimeo.

Útsýnið sem við fengum úr bátnum var alveg geðveikt. Bátsferðirnar tvær voru upplifun út af fyrir sig og þessi ferð töfrum líkust í heild sinni. Ég endurlifi hana oft í minningunni þó það sé ekki langt síðan ég fór! Enda ætla ég klárlega aftur að ári liðnu og skoða aðra króka og kima Hornstranda. Þessi gullfallega náttúruperla er staður sem enginn Íslendingur má láta fram sjá sér fara! Takk fyrir mig!

Elín 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.