Helsinki er borg sem kom mér töluvert á óvart, en hún hefur í gegnum árin verið frekar neðarlega á bucket listanum þegar kemur að draumastöðum að heimsækja. Það helsta sem ég bjóst ekki við, er hversu gífurlega menningarleg borgin er og hversu mikið hún hefur upp á að bjóða. Hvort sem það er menning og saga, matur, list eða fornar minjar sem heillar, þá er sitt hvað að gera fyrir alla. Einnig er úr nægu að velja þegar kemur að útivist og náttúru, hvort heldur sem innan borgarmarkanna eða fyrir utan, en margir fallegir garðar eru í Helsinki auk þess sem stutt er í næsta þjóðgarð. Borgin sjálf skiptist upp í nokkur hverfi sem gaman er að rölta um og sjá hversu fjölbreyttur byggingarstíllinn er, en stundum átti ég erfitt með að átta mig á hvort Helsinki minnti mig frekar á skandinavíska borg eða sovíeska, en í gegnum söguna hafa bæði Svíþjóð og Rússland haft mikil áhrif á núverandi mynd borgarinnar.

Hér að neðan eru mínar helstu hugmyndir af skemmtilegum stöðum til að skoða, í og nálægt Helsinki!

Suomenlinna

 

Í góðu veðri er gaman að skella sér í stutta ferju ferð yfir til Suomenlinna, en þar er að finna nokkrar eyjur sem liggja rétt fyrir utan höfn Helsinki. Eyjurnar eru sex talsins og eru þær tengdar saman með brúm, en eyjaklasinn er þekktastur fyrir virkið sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í gegnum söguna. Fyrr á tímum var eyjan aðallega notuð af hermönnum og síðar heimamönnum, en síðastliðin ár hefur Soumenlinna þróast út í einn helsta ferðamannastað Helsinki, enda með eindæmum falleg eyja sem er þess virði að gefa sér nægan tíma til að skoða. Þó svo að þetta sé orðið að ferðamannastað verður að taka tillit til þeirra sem enn búa þar, en af og til rekst maður á skilti þar sem ferðamenn eru beðnir um að halda sig á göngustígunum og vinsamlegast ekki vaða inn í garða fólks og einkalóðir. Lítil kjörbúð er á eyjunni, kaffihús og brugghús sem ég mæli hiklaust með að gefa séns, enda fátt betra en einn kaldur í sólinni.

Sauna

Það fer ekki nokkur maður til Finnlands nema skella sér í sauna! … svona fyrir utan mig sjálfa. Helsinki er höfuðborg gufubaða og má finna slík út um allar trissur, sama hvort það er að ströndinni, í miðbænum eða heima hjá næsta manni. Það eru allir vitlausir í þetta heita sveitta loft sem erfitt er að ná andanum í, en þegar kemur að sauna eru Finnar komnir á svo allt annað level miðað við aðrar þjóðir. Það er því algert möst að skella sér í eitt slíkt, en þó ég sé ekki mikill aðdáandi sjálf hef ég heyrt að sauna í Helsinki sé ,,the thing to do”.

Nuuksio þjóðgarðurinn

 

Finnland er þekkt fyrir þéttvaxna skóga, stöðuvötn og fallega náttúru og er Nuuksio þjóðgarðurinn þar engin undantekning. Í Nuuksio er að finna fjöldan allan af gönguleiðum, stöðuvötnum og tjaldsvæðum sem býður uppá margskonar möguleika á dagsferðum og lengri ferðum um svæðið. Ýmsar plöntur, fugla og önnur dýr má finna á svæðinu, svo það er fullkomið fyrir náttúruáhugamenn. Nuuksio er ekki svo langt frá Helsinki og hægt er að komast þangað með almenningssamgöngum, þó svo að það geti tekið sinn tíma og því tilvalið að gefa sér að minnsta kosti tvo daga, en lítið mál er að finna stað til að tjalda á og tilvalið að taka með sér eitthvað á grillið.

Hakaniemen Kauppahalli og Old Market Hall

Um er að ræða tvo markaði sem eru nokkuð álíka, en báðir minna þeir á okkar ástúðlega Kolaport. Hægt er að kaupa ýmsan finnskan mat, bæði heimagerðan og fjöldaframleiddan, ferskan fisk og kjöt, sælgæti og sultur og svo mætti lengi telja. Sé um matgæðinga að ræða er algerlega hægt að missa sig í úrvalinu. Sniðugt er að koma við í öðrum hvorum markaðnum til að nesta sig upp fyrir daginn, enda nóg af ferskum mat í boði og gaman að geta verslað við heimamenn. Það er þó ekki einungis eitthvað matarkyns í boði, heldur er einnig mikið úrval af handunnum minjagripum, fötum og finnskum merkjavörum svo sem iittala og Marimekko.

Kauppatori markaðurinn

Þessi markaður er utandyra og hægt er að finna ýmsan varning til sölu, svo sem minjagripi, ferska ávexti og annað góðgæti. Hann er staðsettur rétt við Kauppatori höfnina þar sem margar af farþega ferjunum koma og fara, en einnig er stutt í miðbæ Helsinki frá markaðnum. Kauppatori er opinn allan ársins hring og á veturnar er hægt að stinga sér inn í upphitaða bása og sötra heitt kaffi eða kakó, en hann er þekktasti og eftirsóttasti markaðurinn í borginni.

Arabia verksmiðjan

Eins og flestum íslendingum er líklega kunnugt, þá er iittala finnskt vörumerki og var í fjölda ára hannað og framleitt þar í landi, nánar tekið í Helsinki. Þó verksmiðjan í Helsinki sé ekki lengur starfræk þá kemur hún enn að góðum notum og eru þar nú til sölu ýmsar vörur frá iittala, á lægra verði en gengur og gerist. Factory Outlet hjá iittala hljómar alls ekki svo illa, svo fyrir þá sem eru á leiðinni til Helsinki gæti verið gott að vita af þessum stað, svona til að vita hversu margar auka töskur þarf að bóka fyrir flugið heim!

Söfn, kirkjur og aðrir merkisstaðir

Í Helsinki, eins og í öðrum stórborgum, er fullt af fallegum byggingum og sögulegum stöðum. Nóg framboð er af kirkjum, söfnum og öðrum álíka stöðum til að skoða og má þar helst nefna Temppeliaukio kirkjuna, Seurasaari safnið, Helsinki sundhöllina, nútímalistasafnið Kiasma og Senate torgið, þar sem er hægt að njóta mannlífsins með sjálfa dómkirkjuna sem útsýni. Þar sem að veðrið var ekki upp á marga fiska daginn sem ég ætlaði að skoða miðbæinn hef ég því miður ekki mikið að segja um þessa staði, en deginum var eytt í að forðast úrhellis rigningu inná kaffihúsum borgarinnar. Ég get þó staðfest að það er hægt að fá mjög gott kaffi og ágætis kökur í Helsinki, svo borgin algerlega þess virði að heimsækja!

About The Author

Selma Kjartansdóttir
Færsluhöfundur

Selma Kjartans

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.