Ég hef sett mér markmið að reyna heimsækja fleiri nýja staði þegar ég ákveð að fara í ferðalög. Ég fór til Finnalands um daginn, bæði því það var land sem ég hefði ekki komið til og vegna þess að mig langaði að kynnast menningu og þjóð betur þar sem ég var afar fáfróð um það.

 

 

Þegar ég skipulagði ferðina sá ég fljótt að það var mjög stutt á milli Helsinki og höfuðborgar Eistlands, Tallinn. Ég bókaði ferjumiða þangað en þið getið lesið meira um Tallinn ferðina hér à Dagsferð til Tallinn.

Eftir góðar ábendingar og hugmyndir var komið gróft plan fyrir helgina en fyrsta kvöldið okkar var þriggja klukkutíma matur á Michelin veitingarstað sem heitir OlO. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt ykkur um þennan stað. Höfum það samt upp á borðinu að þessi staður er ekki fyrir gikki. Ég er sjálf smá gikkur og átti mjög erfitt með mig að borða of fancy mat. Finnar leggja mikið upp úr mat með sveppabragði sem ég hélt að ég yrði nú sátt með en að borða snakk með sveppabragði gekk fram af mér. Í heildina voru þetta um tuttugu réttir og kostaði þessi upplifun 120€. Ég get samt ekki ekki mælt með þessu – því þetta er algjör upplifun og þjónustustigið þarna er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað. Geymið þetta ef þið eruð á budget ferðalagi en kýlið á þetta ef ykkur langar að prófa eitthvað frábrugðið og nýtt. Og já, ágætlega dýrt.

Laugardegi var eytt í að skoða helstu staðina sem og versla. Íslendingar ættu ekki að grípa í tómt því Finnland er mekka hjarðhegðunnar okkar en þeirra helstu merki eru Múmín (Arabia), Iittala og Marimekko. Fyrir svoleiðis unnendur er hægt að eyða dögum saman í verslunarleiðangur, vintage iittala muni, söfn Alvars Aalto og meira segja múmín kaffihús. Við römbuðum inn á mjög gott kaffihús og þar var meðal annars hægt að fá ís í múmínbolla og maður fékk svo að eiga bollann. Ætli ég hafi ekki fengið í kringum 20 spurningar á Instagram hvað þessi staður hét en hann heitir Roberts bakery.

 

Sauna er líka helsta einkenni Finnlands en við pöntuðum okkur pláss á Löyly sem er saunastaður. Það var mjög notalegt að koma eftir langan dag, sauna sig í gang, fá sér Long drink (sem er einhverskonar gin og grape í finnskum búning) og endurhlaða batteríin. Aðgangurinn kostar tæplega 20€ og ég læt það nú vera. Sæi það fyrir mér að íslensk concept myndi rukka svona lítið. Not.

 

Lokakvöldið borðuðum við á Patrona, lítill mexíkanskur staður með rosalega góðan mat. Þarna var mexican mule drykkur kvöldsins ásamt rækju taco-i og churros í eftirrétt. Mjög góður staður fyrir þá sem fýla mexíkanskan mat!

 

Gott að vita

  • Flugið er rúmlega 3 klst
  • Gjaldmiðillinn er Evra
  • Finnar eru flokkunaróðir – kudos á þá!
  • Sauna er staðalbúnaður
  • Á finnsku eru allir stafirnir lesnir. A L L I R

 

Helstu spurningar sem ég fékk á meðan ég var úti

Munar miklu á Iittala þarna og hérna heima?

Bæði já og nei. Það fer svolítið eftir því hvað þú ætlar að kaupa. Ætli það sé ekki svona 10-20% álagning á hlutunum heima. Sumt borgaði sig að kaupa heima (og þar af leiðandi að þurfa ekki að ferðast með þetta) en fyrir dýrari hluti geturðu verið að spara þér þúsundkallanna. Ég á ekki mikið af iittala vörum en ég t.d. keypti mér hlut í Special Edition vörunum sem ég hef ekki séð hér á landi.

Var hægt að kaupa ófáanlega múmínbolla?

Já. Og margir múmínbollar á djók verði þarna (í kringum 9€). Svo voru einhverjir vináttubollar (ég er að hafa þetta eftir vinkonu minni – hef ekki hundsvit á þessu) í sölu þarna sem komu víst ekki til landsins.  Þar að auki var til rosalega mikið af múmín dóti þarna, allt frá viskastykkjum yfir í lampa.

Hvar mælirðu með að gista?

Við gistum í þessari Airbnb íbúð og hún fær öll mín meðmæli. Ég er dugleg að breyta til úr Airbnb yfir í hótel en mér finnst alltaf voðalega notalegt í hópferð að vera með íbúð þar sem hægt er að kaupa í matinn og vera ,,heima hjá sér”.

Bregðið útaf vananum og heimsækið nýjar borgir!

Góða skemmtun í Helsinki!

 

 

Guðfinna Birta 

@gudfinnabirta

About The Author

Guðfinna Birta
Ritstjóri og færsluhöfundur

Guðfinna er einn eigandi Gekkó með endalausa þörf fyrir ferðalögum og oftar en ekki með 3-4 ferðir í pokahorninu. Hefur ferðast mestmegnis í Bandaríkjunum og Asíu - en tekið ástfóstri við Mið-Austurlöndin síðastliðin ár. Guðfinna talar líka um ferðalög með börn, enda engin ástæða fyrir því að hætta ferðast til framandi landa þó það fjölgi í fjölskyldunni.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.