Helgarferð fyrir jólin til Gdansk

Ég er búin að vera að mónitora heimasíðu wizzair dálítið uppá síðkastið því mig var farið að langa að fara í helgarferð til Evrópu og þá helst austur-. Foreldrar mínir hafa áður farið til Gdansk svo nú fannst þeim kominn tími til að leiðsegja okkur dálítið um í staðin fyrir öfugt.
Þessi ferð okkar var svo ótrúlega kósý og ég get eginlega ekki mælt nóg með því að fara til Gdansk svona rétt fyrir jólin. Borgin er lítil og því finnst mér tveir og hálfur dagur alveg nægur tími til að skoða sig um og troða sér í jólagírinn.

Ég ætla að fara smá yfir helgina okkar og útbúa litla guide book.
*Það er hægt að smella á myndirnar til að gera þær stærri*

þetta praktíska

Wizz air

Það er náttúrulega snilldin ein að geta flogið beina leið til austur evrópu frá Keflavík fyrir lítinn pening.
Við ferðuðumst fimm saman og borguðum um 85.000kr fyrir flugið fram og til baka með tveggja daga fyrirvara. Wizz air flýgur á milli Keflavíkur og Gdansk á föstudögum og sunnudögum kl 19:50 og er flugtími 3 tímar. Wizz air er lággjalda flugfélag svo það þarf að kaupa alla þjónustu um borð, sem og farangur en innifalið í hverjum miða eru 10kg handfarangurs töskur sem má innrita, en það ætti að vera meira en nóg fyrir stutta helgarferð. Sætin eru alls ekki óþægileg en raðirnar eru þriggja sæta.

Fótaplássið er heldur ekki til að kvarta yfir en það er samt ekki hægt að halla sætunum og gangarnir á milli sætaraðana eru frekar þröngir svo það er erfitt að komast framhjá flugfreyjunum með söluvagnana til að komast á klósettið.
Flugvöllurinn í Gdansk er mjög þægilegur og auðvelt er að fá leigubíla beint fyrir utan.

Á leiðinni heim var innritunarröðin þó frekar löng (full vél og allir með troðfullar töskur af pólskum jólagjöfum) og vegna strangra reglna Wizz air hvað varðar farangur og annað gekk innritunin frekar hægt svo það er ágætt að gera ráð fyrir alveg tvemur tímum í innritun og vopnaleit. Við vorum þó bara með handfarangur svo við hefðum svosem geta mætt aðeins seinna.

Transport

Vegna þess að við vorum 5 saman og með litla bróðir minn 10 ára með í för lá beinast við að taka bara leigubíl frá flugvellinum en við borguðum um 2500/3000kr fyrir okkur fimm en 50% álagning leggst á gjaldið þegar fimm eða fleiri ferðast saman (sem ég skil ekki alveg en ok).
Við fórum yfir til Sopot á laugardeginum og tókum leigubíl líka þangað og til baka. Það var auðvelt að fá leigubíl fyrir fimm og það kostaði okkur 1700 kr (með 50% fimm-manna-álagningu) að keyra í um 25 mínútur (14km)  yfir til Sopot. Lestapervertinn í mér fékk því miður enga reynslu á lesta- og tram-kerfið, en það virkar frekar auðvelt í notkun og er að sjá lesta- og tramstöðvar hér og þar um borgina. Miði í tram kostar um 95ISK.

Gisting

Við gistum á Neptun aparthotel sem er staðsett mjög miðsvæðis í gamla bænum, á milli göngugötunnar og Amber götunnar. Við fundum hótelið á booking.com en pöntuðum í gegnum email og fengum því rúmlega 10% afslátt á tveggja hæða “pent house” íbúð sem er tveggja herbergja með geggjuðu útsýni og hjónarúmi í risinu. Morgunmaturinn var að vísu ekki innifalinn en það kemur ekki að sök þar sem að það er að finna svo marga aðra frábæra veitingastaði allt í kring. -kem aftur að því aðeins neðar.
Á hótelinu er spa og nudd en það þarf að panta með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Þjónustan og starfsfólkið var til fyrirmyndar og herbergið okkar mjög snyrtilegt. Get mælt með hótelinu fyrir bæði einstaklinga og fjölskyldur / vinahópa.

Ég get eginlega ekki mælt með öðru en að gista alveg miðsvæðis því þar sem borgin er lítil, göturnar þröngar og traffíkin í takt við það getur verið erfitt að komast í gamla bæinn. Í gamla bænum er hinsvegar allt í göngufæri og mikið úrval af allskyns gistingu, flest á frábæru verði.

Það er ágætt að miða við þennan hring þegar gisting er valin

Borða

Það kom mér mikið á óvart hversu góður maturinn var og hvert sem við fórum fengum við gott að borða og borguðum aldrei mikið fyrir.

Cafe Libertas – Yndislegt og heimilislegt lítið kaffihús sem býður uppá morgunmat, dögurð, samlokur, dásamlegar kökur og langan og veglegan kaffi- og te seðil. Allt á matseðlinum er heimagert á efri hæð kaffihússins, meira að segja sírópið í piparkökulatteið og BBQ sósan. Okkur líkaði svo vel að við enduðum á því að borða morgunmatinn okkar tvo daga í röð.

Mono Kitchen – Við höfðum heyrt að sá staður væri góður, bæði í hádeginu og á kvöldin svo við borðuðum þar kvöldverð, í föðurlandinu innanundir sparifötin okkar við lifandi latino salsa tónlist sem tók okkur Kaali aftur til Mið-ameríku í huganum. Uppi á vegg í andyrinu var plakat með dagskrá yfir næstu viðburði á staðnum og sýndist mér að flestar helgar væru einhverskonar þemakvöld og lifandi tónlist. Staðurinn er dálítið eins og Brooklyn hipsterastaður með smá 70’s væbi. Staðurinn var stútfullur af fólki sem er oftast merki um góðan stað. Maturinn var líka góður og þjónustan sömuleiðis.

Piwna47 – Það fyrsta sem við gerðum við komu var að bóka okkur borð á Piwna47 en fengum ekki borð fyrr en á sunnudeginum sem gerði staðinn enn meira spennandi fyrir mér. Við klæddum okkur upp og mættum tímanlega til að missa ekki borðið okkar. Á móti okkur tók frábær þjónn sem bauð okkur uppá freyðivínsglas við komu, sem gaf staðnum um leið eitt rokk stig. Strákarnir fengu sér allir villisvín í aðalrétt og við mamma fengum okkur gæs í súkkulaði sósu og mikið sem það bragðaðist vel. Vínseðillinn þeirra var geggjaður og hafa þau unnið verðlaun fyrir hann. Í eftirrétt fengum við okkur svo sér pólskan eftirrétt, súr en sætur marengs desert með döðlum, namm!
Ég mæli klárlega með að allir sem eiga leið til Gdansk að panta sér borð á Piwna47.

UMAM kökuhús – Kökurnar bragðast jafn vel og þær líta út fyrir að gera. Við pöntuðum okkur öll sitthvora kökuna til að smakka og voru þær hver annarri betri. Ég mæli með að prufa Rokitnik sem er gerð úr pólskum súrum ávexti, hjúpuð hvítu súkkulaði. Starfsfólkið á staðnum var faglegt og töluðu góða ensku og fengum við góða útskýringu á hverri og einni köku, þar sem allt var skrifað á pólsku. Kaffið bragðaðist bara mjög vel og jólagjöggið enn betur. -Mæli með!

Hilton Hotel – Ég er klárlega talskona þess að borða local og versla ekki við keðjur en ég gat ekki annað en farið með á Hilton Hotel í hádegisverð þegar stungið var upp á því. Foreldrar mínir gistu þar síðast þegar þau voru í Gdansk og höfðu ekkert nema gott um hótelið og matinn að segja. Kaali hélt ser við Local regluna okkar og smakkaði pólska brúnbrauðssúpu. Við mamma fengum okkur tartar sem leit út eins og listaverk og bragðaðist algjörlega eftir því.

Bónus um jólin: Jólamarkaðurinn – Við Kaali höfum reynt að venja okkur á það að smakka eitthvað nýtt i hverju landi fyrir sig og það gerðum við svo sannarlega á jólamarkaðnum. Við röltum á milli bása og reyndum að kaupa eitt af hverju og deildum til að smakka. Allt frá reyktum grilluðum osti yfir í pólskar pulsur og heitan bjór. Þessi matarupplifun var ein af mínum uppáhalds þar sem við smökkuðum allskyns mismunandi þjóðarétti og lærðum hellings af þeim sem gátu spjallað við okkur á ensku.

Nammibúðin á göngugötunni – Aðallega bara skemmtileg að heimsækja, en þar er brjóstsykurinn rúllaúður upp í allskyns form og myndir fyrir framan gesti og gangandi. Á veggjunum hanga svo tilbúnir brjóstsykrar og nammi í öllum regnbogans litum.

Vodka og Nintendo

No to Cyk – retro bar í 80’s stíl, sá allra flippaðasti! Borðin eru strauborð, með straujárnum og á barnum er nintendo tölva. Í glugganum eru gínur í 80′ fötum. Á drykkjarseðlinum er bara í boði bjór, vodka eða skot, en þetta fyrirbæri – skot bar – virðist vera vinsælt. Bjórinn þar kostar í kring um 150kr ISK.

Brasa og skoða

Í gamla bænum eru allskyns göngugötur, sýki og torg. Mér finnst frábært er að það eru nánast engar búðir (fyrir utan minjagripi) í miðbænum. Ég er með hálfgerða búðafóbíu svo ég naut mín í botn algjörlega áreytislaus. Það er skemmtilegt að geta rölt um, skoðað litrík húsin og virt aðeins fyrir mér sögu bæjarins þar sem mikið af gamla bænum fór í rúst í seinni heimstyrjöldinni. Húsin voru flest byggð aftur og nánast öll í sama stíl og með svipuðu formi og áður. Áhugavert er að sjá hvernig byggt hefur verið verið ofan á gamlar rústir.

Göngugatan heitir Dluga
og byrjar við Brama Zlota hliðið. Inni í því hliði er hægt að sjá myndir frá stríðinu, fyrir og eftir. Fyrir aftan hliðið er svo jólamarkaðurinn sem ég mæli klárlega með að allir skoði, seim eiga leið í borgina í desember.
Mariacka gatan, en þar er að finna búðir sem selja frægu Amber steinana í allskyns formi.

Kirkjan – Kościół Rzymskokatolicki pw. św. Jana eða Kirkja st.John er ótrúlega flott, en kuldaleg kirkja sem var endurbyggð eftir stríðið. Hún er stærsta múrsteins kirkjia  evrópu og telur 407 tröppur upp turninn með útsýni yfir borgina. Ég lagði þó ekki í þá göngu að sökum strengja, en við fórum í Amber sky Parísarhjólið í staðin en það er við enda göngugötunnar. Það tekur korter að fara þrjá hringi og er útsýni yfir alla borgina. Aðgangseyrir í parísarhjólið er um 800kr fyrir fólk yfir 1,40cm, en 500kr fyrir lávaxna.

Allskyns söfn eru í borginni en ég hef heyrt góða hluti um stríðsmynjasafnið. Ég fór ekki sjálf, en litli bróðir minn fór með pabba sínum og hafði mjög gaman af.

Sopot

Á laugardeginum gerðum við okkur ferð til Sopot. Sopot er í um 14 km frá gamla bænum í Gdansk og er dálítið “Beverly Hills of Gdansk” sagði leigubílstjórinn okkar. Þar á ríka fólkið sumarhús og eyðir þar sumarfríinu sínu á ströndinni. Við kíktum að sjálfsögðu á jólamarkaðinn þar og skoðuðum fræga bylgjuhúsið sem er byggt í Dr.Seuss stíl.
Sopot er algjörlega staður sem ætti að troða inn í Gdansk dagskránna, en 2-4 tímar ættu að duga í rölt um bæinn a.m.k að vetri til, en þó hef ég heyrt góðar sögur af veitingastöðunum þar.

 

Dæmi um kostnað

Gisting: Skv. mínum reikningum, miðað við Booking.com er nótt á hóteli að kosta í kring um 4500kr
Transport: Leigubíll frá flugvelli að gamla bænum: 2500-3000kr
Transport: Tram 95kr
Kaffibolli: 150-400kr
Morgunmatur: 700kr
Hádegis/kvöldmatur: 1200kr pr. disk
Bjór: 150-500kr

Fylgdu mér á Instagram

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.