Ég er dálítill Grænlendingur í mér og eftir að hafa meira og minna búið þar og þrifist síðan ég var 16 ára finnst mér ég þekkja land og þjóð nokkuð vel.

Grænland er áfangastaður sem engin ævintýramanneskja má láta fram hjá sér fara.
Það er ekki auðvelt að komast á þangað en ferðalagið er vel þess virði. Grænland er einstakur staður að heimsækja og bæirnir eins ólíkir og þeir eru margir. Fjölbreytnin í náttúrunni og dýralífinu er mikil og hvert sem litið er eru háir tignarlegir fjalltoppar stórir ísjakar og er ósnert náttúran einkennandi fyrir landið. Grænlendingar eru gestrisnir og þægilegir heim að sækja.

 

Mynd: Josepha Thomsen

Hvernig kemst ég til Grænlands?

Air Iceland connect (Flugfélag Íslands) flýgur til Grænlands allan ársins hring. Flogið er til Kulusuk og Nuuk allt árið en á sumrin bætast við þrír áfángastaðir, Ilulissat, Kangerlussuaq og Narsarsuaq.
Flugtími er allt frá klukkutíma og upp í fjóra tíma. Air Greenland sér svo um að fljúga frá Danmörku, en Ísland og Danmörk eru einu löndin sem hafa beina flugtengingu við Grænland en auðvitað er hægt að komast þangað sjóleiðina, þótt ég mæli ekki með því. Samgöngur innanlands eru ekki uppá marga fiska en þar eru engir vegir á milli bæja og ferðast flestir um á bátum, með þyrluflugi eða á snjósleðum, ef veður og land leyfir.

Mynd: Josepha Thomsen


Suður Grænland

Suður Grænland er paradís göngumannsins. Þar er landslagið líkara því íslenska þótt fjöllin og í rauninni náttúran öll sé dálítið ýktari. Þar er hægt að fara í léttar fjallgöngur og allt upp í erfiðari göngur sem taka nokkra daga.

Qaqortoq er höfuðstaður suður Grænlands og þar er flesta þjónustu að finna svo sem  gistingu, veitinga- og skemmtistaði. Þar er gott að hafa ,,base” fyrir göngur eða aðrar ferðir um suður-Grænland. Bærinn er líka bara svo flottur og skemmtilegur að skoða að þar er alveg hægt að eyða nokkrum dögum.

Narsaq er næsti bær við Qaqortoq og er örlítið minni. Engu að síður er fínasta hótel og gistihús í bænum. Þar eru Íslendingar að reka ferðaþjónustu og bjóða þau upp á allskyns ferðir út frá Narsaq.

Mynd: Josepha Thomsen

Uunartoq þýðir á grænlensku heitur staður og stendur það algjörlega undir nafni því á Uunartoq eyjunni er eina heita náttúrulaug Grænlands. Þangað er gaman að fara í dagsferð og njóta lífsins í heitu vatni, umvafin ísjökum.

Mynd: Josepha Thomsen

Aalluitsup paa er fallegt lítið þorp stutt frá Uunartoq. Þar er skemmtilegt að stoppa á siglingu sinni um suður Grænland og skoða sig um og kíkja í þorpsbúðina pilersuisoq.

Mynd: Josepha Thomsen

 

Narsarsuaq flugvöllur er gömul herstöð og ber bærinn þess merki, þar sem byggingarnar eru í gömlum herstíl en ekki litrík tréhús eins og húsin í hinum þorpunum í kring. Grænlandsjökull nær nánast alveg að bænum og eru fallegar gönguleiðir frá bænum og að jöklinum.
Hinu megin í Narsarsuaq firði er Qassiarsuk (Brattahlíð) sem Eiríkur Rauði kom í land og bjó.

 

 

Íris  

 

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.