Bergur er framleiðslustjóri hjá íslenska nýsköpunar reiðhjólafyrirtækinu Lauf Forks. Hann er fyrst og fremst hjólari, snjóbrettamaður, ferðalangur og lífskúnstner að eigin sögn. Ég veit ekki um neinn sem hjólar eins mikið og hann! Ég prófaði að hjóla með Bergi um daginn og hann veit alveg hvað hann syngur þegar hjól eru annars vegar. Gef honum orðið.

Hvenær byrjaðir þú að hjóla?

Ætli ég hafi ekki byrjað að hjóla þegar ég var 5 ára. Hjólaði mjög mikið þangað til ég fékk bílpróf og tók þá heldur langa pásu. Byrjaði aftur af einhverju viti 24 ára og hefur þetta farið stigmagnandi síðan þá.

Er þetta ekkert hættulegt?

Ef maður þekkir sín takmörk er þetta ekki hættulegra en margt annað. En til þess að vita hvar takmörkin eru fer maður stundum fram úr sjálfum sér og dettur. Þá er mikilvægt að vera með góðan hlífðarbúnað.

Hvers konar hjól og búnað þarf til að byrja í fjallahjólamennsku?

Fulldempað fjallahjól, þ.e. fjöðrun að framan og aftan, er æskilegt í fjallahjólamennsku. Á veturna er síðan gaman að vera á breiðhjólum (e. fatbike). Góður hjálmur, hnéhlífar, bakbrynja og hanskar eru nauðsynlegur hlífðarbúnaður. Svo þarf líka góðan bakpoka undir nesti, föt, verkfæri, varahluti og sjúkrakitt.

Er ekkert vesen að ferðast með allt þetta dót? Hvað þarf maður að hafa í huga þegar maður ferðast um landið og skoðar það á fjallahjóli?

Sumum vex þetta í augum en þetta er ósköp lítið mál þegar þetta er komið í rútínu. Á Íslandi er mikilvægt að vera við öllu búinn og þá sérstaklega slæmu veðri. Ég er t.d. alltaf með bæði hlýjan jakka og regn-/vindheldan jakka í bakpokanum. Svo má ekki gleyma að bera virðingu fyrir bæði fólki og náttúru. Ekki hjóla út fyrir stíga og hægja á sér, brosa og bjóða góðan daginn þegar maður mætir göngufólki.

En þegar ferðast er erlendis til að hjóla? Hvað þarf að hafa í huga?

Sama gildir erlendis en fatnaður fer þó að sjálfsögðu eftir veðurfari á viðkomandi stað. Stundum getur verið gott að leigja leiðsögumann til að nýta tímann sem best. Þeir vita um alla bestu slóðana og sjá um akstur ef á þarf að halda.

Hvaða áfangastaðir eru bestir? Þinn uppáhalds?

Ég hafði mjög gaman af að hjóla á Tenerife. Colorado, California og Alparnir eru t.d. líka mjög góðir áfangastaðir fyrir fjallahjólara. Minn uppáhaldsstaður er samt Landmannalaugar.

Hvaða hjóli mælirðu með fyrir okkur sem langar til að prófa? Og hver er áætlaður startkostnaður?

Fyrst þarf að ákveða í hvað á að nota hjólið og hvað það má kosta. Sjálfum finnst mér skemmtilegast að hjóla niður frekar bratt, gróft og tæknilegt. Í þannig hjólamennsku mæli ég með fulldempuðu hjóli með 140-160mm slaglengd. Mikill kostur er ef hægt er að hækka og lækka sætið með takka í stýrinu.

Svona útbúin hjól kosta ný frá u.þ.b. 300 þúsund kr. Þá ertu líka kominn með hjól sem getur enst þér í mörg ár ef því er vel viðhaldið. Einnig er hægt að finna ódýrari hjól, bæði notuð og ný, en margir sjá fljótt eftir því að hafa ekki fengið sér aðeins betra hjól í byrjun. Annar kostnaður fer svo eftir því hvort einhver föt og hlífðarbúnaður leynist ofan í skúffum eða ekki.

Einhver skotheld ráð fyrir byrjendur og lengra komna?

Reyna að njóta þess líka að hjóla upp og jafnvel ganga upp brattar brekkur með hjólið á bakinu þó að það sé erfitt. Það kemur þér í betra form og þú átt niðurferðina svo sannarlega skilið. Svo er bara að halda í stýrið og hafa gaman!

Hvert er förinni síðan heitið næst?

Ég var að koma heim af hjólasýningunni Eurobike í Þýskalandi. Þetta er stærsta hjólasýning í heimi. Við hjá Lauf Forks vorum þarna að sýna nýja hjólið okkar, Lauf True Grit, með góðum árangri. Hérna heima er síðan enduro haustfagnaður sem er einskonar lokahóf fjallahjólara á Íslandi 15.-16. september sem ég ætla að taka þátt í. Svo stekkur maður bara á ævintýrin þegar færi gefast til.

Myndir: Bergur Benediktsson

Prófaðu að hjóla í haust með Icebike Adventures!

Fyrir áhuga sama sem vilja prófa að hjóla þá býður fyrirtækið Icebike Adventures lesendum Gekkó 15% afslátt af hjólaferðum í haust! Tilvalið tækifæri til þess að skella sér út í náttúruna í haustlitunum! Notið prómókóðann þegar þið bókið ferð.

Ég þakka Bergi kærlega fyrir fróðlegt og skemmtilegt spjall! Einhverntíman í vetur mun ég tékka á breiðhjólunum! Svo lumar Bergur auðvitað á bráðskemmtilegu myndbandinu af hjólaævintýrum sínum hér fyrir neðan. Núna verða allir prófa!

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.