,,…ég var heillaður og þegar ég yfirgaf Víetnam myndaðist stórt gat í hjartanu mínu og er enn”

Eiríkur Viljar er einn af þessum dásemdum sem maður kynnist á ferðalögunum sínum og veitir manni innblástur til þess að halda áfram að lifa lífinu til fulls. Þegar við hjá Gekkó kynntumst honum fyrst var hann nýskriðinn af mánaðarferð um Víetnam á mótorhjóli, drulluskítugur og með sítt hár.  ÚTVILEK kynntu nú á dögunum ferð til Víetnam á mótorhjóli og því fengum við Eirík til þess að deila með okkur fimm ráðum fyrir þá sem eru að fara í sumar! Gefum honum orðið. 

Ég held að þetta sé með því erfiðara sem ég hef gert! Að rifja upp það allra skemmtilegasta sem ég hef gert á minni stuttu lífstíð ári síðar, umkringdur roki og rigningu. Jæja- here we go: topp 5 listinn minn í hluti sem þú verður að gera í mótorhjólaferð í Víetnam!

1. Láttu Víetnama laga hjólið þitt

 Hjólið þitt mun bila eða brotna, það eru 100 % líkur á því. Hjólin eru upp til hópa flestöll (ef ekki öll!) algjört drasl. Þau eru létt, léleg, brothætt og bila annan hvern dag. Hvort sem það eru ljósin, bremsurnar eða hvað sem er, þá mun hjólið þarfnast lagfæringar á einhverjum tímapunkti. Það er klárt mál. En þar koma hinu fingralöngu og snjöllu Víetnamar til sögunnar. Þeir eru meistarar í að henda sér í hnébeygjustöðu og laga hjólið þitt, sitja jafnvel tímunum saman með bros á vör. Að vera vitni af aðferðum Víetnama þegar kemur að lagfæringum á vélum er unun út af fyrir sig. Þeir eru handlögnustu menn sem ég hef kynnst! Ef pústið brotnar undan hjólinu þá mæli ég með því að þú fylgist með því hvernig Víetnaminn logsýður það saman og einnig hvað hann notar til að festa það aftur á hjólið.

2. Farðu til Mai Chau

Í 4 klukkustunda fjarlægð frá Ha Noi er einn fallegasti staður á jörðu að mínu mati, Mai Chau. Við fundum hann fyrir algjöra tilviljun, þvílik slembilukka! Eftir að hjóla í 2-3 klst upp fjöll byrjar vegurinn að fara aftur niður á við í Mai Chau dalinn. Útsýnið er stórfenglegt á leiðinni niður og ég mæli eindregið með að eyða nótt þarna. Staðurinn er meira og minna gjörsamlega laus við túrisma og því eins „lókal“ og þeir gerast. Það er mikið um hrísgrjónarækt þarna og fólkið er yndislegt. Þau eru meira en tilbúin til að opna gistiheimilin sín fyrir þér. Við létum fjölskylduna sem gistum hjá vefa klúta á okkur og skörtuðum þeim stoltir niður Víetnam, allt þangað til hitinn bar okkur ofliði og fátt var um föt.

3. Stoppaðu á vegkaffi og fá fáðu þér Ca Phe da


 Það er allt morandi út í hinum svokölluðum vegaköffum í Víetnam. Þetta eru þá litlar fjölskyldur sem eru búin að hengja upp nokkur hengirúm út í vegakanti og bjóða þér upp á ískaffi. Það er fátt betra á heitum og löngum hjóladegi að safna orku fyrir komandi átök í einum af þessum vegaköffum, slakandi á í hengirúmi með svalandi drykkinn í höndinni. Ég tárast við tilhugsunina.

4.  Hjólaðu um draumkennt landslag Víetnam í 30° stiga hita á hlýrabol, með þína uppáhalds tónlist í eyrunum

Já ég veit, hlýrabolur er ekki viðurkenndur hlífðarfatnaður á mótorhjólum. Ég mæli eindregið með því að vera með vaðið fyrir neðan sig og klæða sig skynsamlega því slysin gera ekki boð á undan sér -þvert á móti. Við fengum klárlega að kynnast fyrir því. Hinsvegar, þá tek ég hattinn ofan fyrir þeim sem geta slakað á í þykkum hlífðarfatnaði og fara eftir öllum reglum í  + 30° hita og allt að 95% raka.

5. Farðu ótroðnar slóðir og upplifðu hina sönnu Víetnam

Ferðamenn flykkjast á helstu túristastaðina enda er margt að sjá og upplifa. Víetnam er fallegt á svo marga vegu.  Fólkið, maturinn, kaffið, landið, menningin, allt fallegt. Ég var allavega heillaður og þegar ég fór frá Víetnam myndaðist stórt gat í hjartanu mínu og er enn. Þar eru þó staðir sem mörgum ferðamönnum finnast hráir og óaðlaðandi sem mig langar að mæla með. Þessir staðir sem “bjóða ekki uppá neitt fyrir ferðamanninn” eru einmitt staðirnir sem heilluðu mig og er hin raunverulega Víetnam fyrir mér. Á þessum slóðum upplifðu við okkar bestu og mögnuðustu augnablik. Ævintýrin og vandræðin sem við lentum þar eru þau sem standa mest upp úr í ferðinni, ef ekki þau sem standa mest upp úr í öllu mínu lífi. Borgir einsog Thanh Hoa, Kon Tum, Pleiku og Buon Ma Thuot eru ekki taldar upp í neinni Lonely Planet bók sem “Must visit cities in Vietnam”, ég get fullyrt það, þær eru eins víetnamskar og þær gerast! Er það ekki þess vegna sem þú ákveður að fara til Víetnam?

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.