Þú þarft EKKI að segja upp vinnunni til að ferðast reglulega út fyrir landssteinana. Það hefur Andri sannað…

Andri Unnarsson er Kópavogsbúi og hefur starfað víða undanfarin ár. Hann hefur eldmóð fyrir því að skoða sem mest af heiminum og mikinn áhuga á fótbolta. Hann stundar nú langþráð Kírópraktornám í Bandaríkjunum.

Hann hefur ekki bara unnið eins og berserkur og ferðast eins og frjáls fuglinn um víðan heimsvöllinn, heldur hefur honum einnig tekist að safna pening fyrir Kírópraktornámi í   Bandaríkjunum á þessum sama tíma, geri aðrir betur! Þetta hefur honum tekist með því að setja sér markmið frá árinu 2011 og upp frá því, stefnt að því með miklum eldmóð. Gefum Andra orðið…

Fullt nafn: Unnar Andri Unnarsson      Fyrstu fjórir: 01.06

Þrjú lýsingarorð sem lýsa þér best: Ætli það sé ekki dugnaður, ákveðni og þrjóska.

Múttunni og systurinni boðið til Mílanó í boði Andra árið 2014

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að safna þér fyrir kírópraktornáminu í Bandaríkjunum? Afhverju ekki bara hefðbundin námslán?
Þetta byrjaði fyrst með því að félagi minn, Kolbeinn Sigþórsson hafði verið mikið meiddur í baki ásamt öðrum meiðslum sem héldu honum frá fótbolta lengi en ég fór einu sinni með honum til Kírópraktors á Sogaveginum og fékk smá tilfinningu fyrir hvernig starf þetta væri. Mamma hafði einnig verið mjög bakveik og fór til Kírópraktors og ég fékk einnig að fara með henni. Eftir að hafa farið í vísindaferð í Háskólanum í Sporthúsið 2010 og rætt við Magna hjá Kírópraktorstofu Íslands þá setti ég alfarið stefnuna á það og fékk ýmsar góðar upplýsingar frá honum og Gunnsteini sem þá var í USA að klára. Þeir hafa hjálpað mér mikið hvert ætti að leita og hvert ætti að stefna og mæli hiklaust með að tala við Kírópraktorstofu Íslands, finnir þú til í bakinu.

Skoða einnig: Apríl á RVKGYPSY: Svona var fyrsta reisan mín, ever!

Fjögur störf í einu…

Þegar ég fór svo að leita leiða til að fjármagna námið, með fótboltastyrk eða einhverju slíku þá kom í ljós að enginn styrkur af þessu tagi var í boði í þessum skóla. Ég athugaði þá með námslán einnig, en þá kom í ljós að LÍN lánar ekki nema fyrir 50% rúmlega (6 milljónum) að ég held í þetta nám en skólagjöldin eru rúm 12 milljónir í dag og fer hækkandi. Þá var í raun eitt í stöðunni og það var að setja sér markmið og ná að safna upp í meirihlutann af náminu. Ég byrjaði á að vera atvinnulaus í 3 mánuði og sótti um vinnur nánast daglega en sem betur fer hafði ég samt sem áður moggann til að bera út kl 6 á morgnanna til vara, sem ég hafði gert síðan árið 2004.
Á endanum skilaði leitin svo árangri og fékk ég störf hjá Símanum og Grillmarkaðnum á sama tíma og seinna meir aukavinnu hjá Símanum sem úthringistarfsmaður, þannig allt í allt var ég kominn með fjórar vinnur!

Fyrst þú varst búinn að setja þér skothelt markmið um að safna fyrir náminu, hvernig og afhverju ákvaðstu samt að ferðast svona mikið í millitíðinni? Kostaði það ekki sitt?
Ég hef alltaf viljað skoða heiminn og ferðast eins mikið og kostur er. Það sem gaf mér tækifæri til þess var að ég var að vinna ótrúlega mikið, oft frá 12-18 klst á sólarhring í 3 ár. Ég áætlaði að geta lagt til hliðar x mikla upphæð í sparnað fyrir skólann, en sú upphæð tvöfaldaðist og með því að vinna svona mikið gat ég lagt y mikið til hliðar í ferðasparnað ásamt því að fá orlof svo það var ekki spurning að nýta það í að ferðast einnig. Þetta hefur kostað gífurlegar upphæðir, en þetta var peningur sem ég gerði ekki endilega ráð fyrir varðandi skólasparnaðinn og sé alls ekki eftir honum.

Skoða einnig: Fólk á flakki: Arnheiður

Skipulögð sparnaðaráætlun

Hvernig fórstu að þessu? Gerðiru sparnaðaráætlun? Einhverja áætlun? Endilega deildu leyndarmálinu þínu með okkur hinum!
Margir hafa sagt við mig að ég eyði of miklu og ég ætti aldrei eftir að fara út í þetta nám og lifi svo hátt svo ég hef aldeilis fengið að heyra það! Á tímabili sýndist mér upphæðin ekki hækka nægilega mikið svo ég settist niður og gerði áætlun fyrir því og skrifaði niður allt sem ég eyddi í. Áætlaði mér að eyða um 70 þús í mat, djamm, bensín og þess háttar yfir mánuðinn þar sem ég bý heima. Eftir að hafa gert það, þá sá ég að sparnaðarreikningurinn rauk upp og ég hafði betra yfirlit með því. Hafði svo tök á því að bjóða mömmu til Madridar þegar við fjölskyldan fórum árið 2012 ásamt því að bjóða systur minni og mömmu til Ítalíu núna 2014.

Hvað er það við að ferðast sem drífur þig áfram?
Alveg klárlega að skoða nýja menningarheima, kynnast nýjum matarvenjum, kynnast nýju fólki útum allan heim og einfaldlega njóta þess að vera burt frá öllu stressi hérna heima á Íslandi. Það er alltaf gott að koma heim aftur, en ég myndi vilja eyða meira af lífinu í að ferðast og skoða allt sem heimurinn hefur upp á að bjóða.

Skoða einnig: Hlutir sem þú verður að gera fyrir þrítugt

Á annan tug landa ásamt trilljón upplifunum… frá árinu 2011

Haft það náðugt í infinity laug á Maldives 2014

Hvað hefuru ferðast til margra landa síðan árið 2011 og hvaða ferð stendur mest upp úr?
Þegar ég fór að skoða ferðirnar og löndin sem ég hef farið í síðan 2011 þá eru það gífurlega margar ferðir!
England: Tónleikaferðir, verslunarferðir, fótboltaferðir
Danmörk, Svíþjóð, Dubai, Tæland (Bangkok, Pattaya, Phuket, Koh Phangan, Koh samui, PhiPhi Island), Spánn (Mallorca, Madrid, Alicante), Ítalía, Dubai, Singapore, Kuala lumpur, Indonesia (Balí), Filipseyjar (Boracay, Malapascua og Manila), Maldives og Kambódía.
Ætli það sem að standi mest upp úr er reisan núna 2014 og Maldives sem fallegasti staðurinn og köfunarnámskeið á Malapascua með hákörlum.

Hvernig ferðalangur ertu? Gistiru á hostelum eða góðum hótelum? Ertu yfirleitt á einu svæði í nokkra daga eða ertu á hreyfingu? Ætli ég sé ekki frekar snobbaður í að vera að gista á hostelum svo ég hef kosið frekar að vera á ágætis hótelum. Það sem við reyndum helst að ganga út frá í ferðinni núna sumarið 2014 er að hafa safetybox fyrir vegabréf, kort og peninga ásamt því að hafa loftræstingu. Skalinn fór úr 3 stjörn hótelum upp í lúxus 5 stjörnu hótel á Maldives sem hafði allt til alls.

Nýtiru þér ferðafríðindi? Er pósthólfið þitt stútfullt af djúsí nettilboðum sem þú nýtir þér endrum og eins eða syndiru bara með sjónum þegar kemur að gistingu, flugum og þess háttar?
Ætli inboxið mitt sé ekki yfirfullt af ferðatilboðum frá mörgum flugfélögum og hótelsíðum víðsvegar um heiminn. Það kemur vart dagur sem það kemur ekki tilboð um útlandaferðir. Það freistar alltaf jafn mikið og held ég hafi eytt dágóðum tíma í að skoða dohop og hotels.com síðustu árin.

Skoða einnig: Eiríkur Viljar keyrði um Víetnam á mótorhjóli!

 Hvað er það sem þú hefur lært mest af því að ferðast?
Ég held að það hafi allir gott af því að ferðast og upplifa mismunandi menningu. Fyrst þegar ég kom til Tælands árið 2005, þá var það gríðarlegt menningarsjokk ásamt því að labba út af flugvellinum var eins og að labba á vegg, það var svo mikill raki og hiti. Þegar þú ferðast svo til svona fátækra landa eins og Tælands, Filipseyja og Kambódíu, þá læriru að meta þitt eigið land betur og allt það góða sem þú hefur. Þetta fólk hefur virkilega ekki neitt á milli handanna og til að mynda var næturvörður sem var fyrir utan herbergið okkar á Boracay í Filipseyjum með 18 þús kr íslenskar á mánuði fyrir fullt starf! Þetta er það margir fá yfir eitt kvöld/nótt í vinnu hér.  Einnig er mikið um fátækt og munaðarlaus börn þarna og mjög gott að geta hjálpað til við það á einn eða annan hátt t.d. fór ég í svona Children’s foundation í Tælandi 2012 og eyddi degi þar, það gaf mér virkilega mikið.

Nokkrar spurningar í lokin…

Versta ferðaaugnablikið? Að hafa misst af flugi frá London og heim þegar við sáum vélina nánast fara. Það var hrikalega vont. Ætli það hafi samt ekki verið töluvert verri tilfinning að labba upp í flugvél hjá Malaysia airlines 4 mánuðum eftir að ein týndist af radar og svo var önnur skotin niður nokkrum dögum áður en við áttum flug með þeim. Ég virkilega skalf við að labba um borð í vélina.
Besta ferðaaugnablikið? Að vera neðansjávar í köfun er eitthvað sem ég gæti vel vanist. Einnig var einstakt að hafa tök á því að láta gott af sér leiða og eyða degi með munaðarlausum börnum í Tælandi. Einnig var mjög gaman að fá tækifæri að synda með höfrungum.

Okei ein í viðbót, ertu með lífsmóttó sem þú uppfyllir í daglegu lífi eða reglulega? Eftir að mamma mín greindist með krabbamein fyrst að mig minnir 2008 og hefur fengið 3x eftir það, þá hef ég reynt að lifa lífinu töluvert betur og reyna að sjá um mína nánustu. Það hefur skilað sér í því að hafa náð að bjóða þeim til útlanda og skapa góðar minningar.

Sjá einnig: Láttu drauminn rætast!

Myndir frá ferðalögum andra frá 2011-2014

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.