Ég líkt og stór hluti landsmanna keypti mér utanlandsferð í maí og kenndi rigningunni um kaup mín. Borgarferð til Berlínar varð fyrir valinu. Fjórir dagar af menningu, sól og hita biðu mín í Berlín og það gerði maí mánuð mikið skemmtilegri! Í þetta skiptið hafði ég ferðafélaga, systir mín kom með mér en við höfðum ekki farið saman í utanlandsferð síðan 1993, þegar við heimsóttum Benidorm.

Allir sem ég sagði frá ferðalaginu til Berlínar höfðu góða hluti að segja um borgina, gegnumgangandi þráður í umræðunni var hvað það væri skemmtileg menning í Berlín, hún væri ótrúlega skemmtileg, græn og falleg. Ekki má þó gleyma sögunni, sem nánast allir minntust á. Mögnuð og mikil saga einkennir borgina sem býður upp á ógrynni af áhugaverðum söfnum, stöðum og minjum.

Berlín er hverfaskipt, hvert hverfi hefur sinn miðbæ sem er það skemmtilega við borgina. Ég var aðallega í Mitte hverfinu sem ég mæli mikið með. Alexanderplatz er gamla miðborgin og er miðbær Mitte hverfisins. Mitte hverfið hefur mikla tengingu við gamla tímann, þar bjuggu margir gyðingar sem teknir voru og sendir í útrýmingabúðir eða flúðu land á stjórnartíma Hitlers.

Suðupottur af menningu

Berlín er suðupottur af menningu, það er mjög sýnilegt og áþreifanlegt um alla borgina. Veitingastaðir eru frá öllum heimshornum og mikil og skemmtileg markaðastemmning er um allt, mismunandi markaðir poppa upp hér og þar í mismunandi hverfum borgarinnar. Sumir markaðir eiga fasta daga, aðrir ekki. Þá daga sem ég var í Berlín var Afríku-hátíð á Alexanderplatz (miðbærinn í Mitte hverfinu). Á markaðinum voru básar með minjagripum frá mismunandi löndum í Afríku, matar- og drykkjar vagnar, afrískri tónlist var blastað í hátölurum sem og það var live tónlist, sögustund og annar gjörningur upp á sviði inn á milli.

Mikið af byggingum í Berlín voru sprengdar í seinni heimstyrjöldinni, margar þeirra voru endurbyggðar í upphaflegri mynd. Byggingarstíllinn er skemmtilegur þar sem gamli og nýji tíminn lifir saman í góðu jafnvægi. Mikil uppbygging er í borginni, kranar og lokuð vinnusvæði eru út um allt. Þetta hefur verið svoleiðis síðustu tuttugu ár og mun verða áfram næstu tuttugu ár líklega.

Villst af leið og hjólað um

Sjónvarpsturninn í Berlín er oft notaður til þess að finna út í hvaða átt miðbærinn er.

Almennningssamgöngur eru fínar, það er auðvelt að finna lestarnar og strætó er mjög sýnilegur sem og leigubílar. Við löbbuðum um allt eða hjóluðum, sem var nokkuð auðvelt. Við systur eigum það sameiginlegt að vera mjög áttaviltar og eigum álíka erfitt með að lesa út úr kortum. Það gat því verið mjög tímafrekt að finna út í hvaða átt við áttum að fara. Til dæmis tókst okkur að ganga 5 km á um 250 metra radius og við héldum alltaf að við værum að ganga í rétta átt, ekki í hring. No joke!

Verið að prófa sig áfram með kortalestur, hér er notuð “Joey” aðferðin!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það voru margir búnir að mæla með að fara í ferð með Berlínum (berlinur.de), íslensku leiðsögufólki sem býður upp á allskonar ferðir um Berlín. Það má lesa um þær hér. Við systur ákváðum að fara í hjólaferð með Berlínum og það var frábært. Leiðsögukonan okkar, hún Erla, var skemmtileg og sagði skemmtilega og eftirminnilega frá. Hún sýndi okkur óhefbundna staði ásamt því helsta í Berlín. Í bland við Brandenborgarhliðið, múrinn, Checkpoint Charlie og fleira sögulegt blandaðist inn í ferðina Michael Jackson, Angela Merkel og elsta danshús Berlínarborgar. Mæli með þessari ferð!

 

Berlín – Travel Plan! Hér fyrir neðan er ferðin okkar í heild sinni inn á Trip Planner 🙂

Ég mæli með Trip Planner, skemmtileg og auðveld leið til þess að hanna sitt eigið ferðaplan.

Dagur eitt

Lentum um 11:30 og tókum lestina á Alexanderplatz (það var mjög auðvelt að finna út úr því þegar komið var á flugvöllinn). Við ákváðum að fá okkur hádegismat nálægt lestarstöðinni því við vorum orðnar mjög svangar. Við sáum Sigga Hlö sitja á þýskum veitingastað rétt hjá og töldum það nógu góð meðmæli með staðnum. Við fórum “all in” og pöntuðum okkur það þýskasta á matseðlinum, kurrywurst! Hún var merkilega góð 🙂

Hótelinnritun var klukkar 15:00 og við gengum með hjálp google maps að hótelinu okkar, Hampton by Hilton. Það tók um 10 mínútur.

Fyrsti áfangastaður ferðarinnar var East Side Gallery, listaverk á múrnum sjálfum eftir marga mismunandi listamenn. Við löbbuðum frá hótelinu okkar sem var nálægt Alexanderplatz að múrnum. Þetta var mjög áhugaverð ganga en starfsmaður á hótelinu mælti með þessari gönguleið fyrir okkur. Hann sagði að við myndum ganga í gegnum “litlu Moscow” sem var góð lýsing hjá honum þar sem okkur leið pínulítið eins og við værum komnar aftur í tímann. Um kvöldið fórum við út að borða á Momotaro tawern, asískum skyndibitastað sem sveik okkur ekki.

       

Dagur tvö

Eyddum deginum í að skoða Mitte hverfið, m.a. safna eyjuna eða museum island þar sem er að finna fimm söfn á litlu svæði. Sáum Dómkirkjunna og fórum á DDR safnið. Fórum aftur “all in” og fengum okkur snitzel í hádegismat á Jedermann’s, þýskum veitingastað. Því næst fórum við að Brandenburg Tur (hliðinu) og kíktum á frábært safn, The Spy Museum Berlin. Mæli hiklaust með því. Um kvöldið borðuðum við á Monsieur Vuong, geggjaður víetnamskur veitingastaður.

      

Dagur þrjú

Hjólaferð með Berlínum, hjólað var um Mitte hverfið sem við höfðum reyndar skoðað áður. Það skipti þó engu máli því við sáum margt nýtt og fræddumst betur um staðina sem við höfðum farið á. Við hjóluðum einnig um Tiergarten, Central Park Berlínar. Tiergarten er risastór garður í hjarta Berlínar og tilheyrði Vestur-Berlín á tímum skiptingarinnar. Frábær ferð og endalaust af fróðleik.

 

Dagur fjögur

Röllt um hverfið, aðalega um göturnar Alte og Neue Schönhauser Strasse. Þar eru allskonar skemmtilegar fatabúðir eins og Monki, & Other Stories, Urban Outfitters og Weekday ásamt öðrum stærri verslunum. Við fengum okkur hádegismat á tyrkneskum veitingastað, Mustafa’s Gemuese Kebab, áður en við tókum lestina frá Alexanderplatz upp á flugvöll.

Mæli með!

Ég get ómögulega talið upp alla þá staði sem áhugavert er að skoða í Berlín en ég get þó mælt með þeim sem ég skoðaði og þótti áhugaverðir.

 Mitte hverfið Checkpoint Charlie, Berlin Wall, Brandenburg hliðið, safnaeyjan (5 söfn á litlu svæði m.a. Pergamon safnið, Neues safnið og Altes safnið sem eru á heimsminjaskrá Unesco) og Dómkirkja Berlínar (Berliner Dom).

East side Gallery – 1,3 km af Berlínar múrnum þar sem margir litamenn hafa fengið að gera list á múrinn.

Memorial of the Muredered Jews of Europe – Minnisvarði um helförina.

Checkpoint CharlieEin af þremur bandarísku landamæra-varðstöðvunum í Berlín þegar borginni var skipt. Þessi varðstöð er í miðborginni og var á milli bandarísku og sovésku hernámsvæðanna.

Hjólaferð með Berlínum – “…Berlín er mjög stór að flatarmáli, það getur verið erfitt að fá yfirsýn yfir borgina en í hjólreiðarferðinni gefst þó tækifæri til að átta sig aðeins á hverfunum, helstu kennileitunum eins og Brandenburgarhliðinu, þinghúsinu eða minnismerkinu um helför Gyðinga. Að ógleymdri þeirri dásemd sem það er að hjóla í gegnum Tiergarten, græna lunga Berlínar og helsta útisvæði vestur Berlínar á tímum skiptingar borgarinnar” (tekið af www.berlinur.de).

DDR safnið – Skemmtilegt safn sem gefur innsýn í líf íbúa Austur-Þýskalands á tíma múrsins frá 1961-1989. Meira um það hér.

Njósna safnið – Mjög skemmtilegt safn þar sem mikinn fróðleik er að finna um njósnara Austur-Þýskalands og víðar. Hægt að spreyta sig á allskonar leikjum og gátum. Meira um það hér.

Alte og Neue Schönhauser Strasse – Verslunargötur, skemmtilegar litlar búðir í bland við stórar merkja búðir. Lítil kaffihús og góðir veitingastaðir.

 

Ég mæli hiklaust með Berlín, hún var gómsæt! 

 

    


Sjá einnig: Brot af Berlín eftir Guðfinnu Birtu.

 

Ásrún Bjarnadóttir

About The Author

Færsluhöfundur

Mannfræðingur sem elskar ferðalög, ferðasögur og ferðaskrif.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.