Við fjölluðum nýverið um sorglegan sannleik á bak við Tiger Temple í Thaílandi, þar sem slæm meðferð á dýrum hefur viðgengist til lengri tíma. Dýraverndunarsamtök hafa undanfarið sett aukna pressu á stjórnvöld í Thaílandi og nú í apríl á þessu ári var musterinu endanlega lokað, dýravinum til mikillar ánægju! Það er vissulega vitundarvakning að eiga sér stað í heiminum en þó eru ótal margir staðir sem enn eiga langt í land.

Í ljósi þess komum við að málefni dagsins: Fílar í ferðamannaiðnaðinum

Marga Asíufara dreymir um að fara á fílabak og komast í snertingu við þessa vinalegu risa. Það er mjög skiljanlegt enda varla hægt að hugsa sér betri ferðamáta í gegnum hinu villtu hitabeltisskóga Asíu en á baki 4 tonna fíls!

En hvað ef þú vissir að fílarnir þurfa að vera beittir bæði ofbeldi og misnotkun til að geta tekið þig á bak án vandræða? Hvað ef þú vissir að þátttaka þín viðheldur ofbeldinu? Þá myndi sennilega sjarminn hverfa, ekki satt?

Flestir sem taka þá ákvörðun að fara á fílabak eru dýravinir. Það er eflaust enginn að fara að klifra upp á bak fíls sem líkar illa við fíla. Flestum skortir ekki umhyggju fyrir dýrunum heldur aðallega betri þekkingu. Betri þekkingu á því hvað liggur á bak við þá þúsundkalla sem fara í nokkra klukkutíma fílabaksferð.

FÍLAR Í FERÐAMANNAIÐNAÐINUM

Fílar koma víðsvegar fyrir í tengslum við ferðamenn og þá aðallega í Asíu en einnig í auknum mæli í Afríku. Fílar sjást í frumskógarferðum, stórborgum, sirkúsum og jafnvel á málverkarnámskeiðum!

Fílatemjarar eru allir með sama markmið í huga; að þéna af ferðamönnum. Það fyrsta sem þarf að átta sig á varðandi fíla í ferðamannaiðnaðinum er að hver einn og einasti fíll hefur gengið í gegnum ákveðið misnotkunarferli sem á endanum brýtur þá niður og gerir þá undirgefna mannfólki. Þetta ferli er þekkt meðal fílatemjara í Asíu og kallast “the crush” eða “phajaan” í Thaílandi.

“THE CRUSH” – BÆLINGARFERLIÐ SJÁLFT

Fílar í villtri náttúru leyfa ekki mannfólki að fara á bak, slíkt krefst tamningar, en hún fer þó ekki fram eins og við þekkjum með hesta hér heima. Aðferðir sem viðgangast í Asíu og Afríku eru mun hrottalegri.

Fílar eru félagslynd dýr að eðlisfari og mynda sterk fjölskyldutengsl í náttúrunni þar sem nokkrar kynslóðir halda sig saman. Yfirleitt eru það kálfarnir sem eru teknir af fjölskyldum sínum þar sem erfitt er að temja fullvaxta fíl.

Ef þú varst gráti nær eftir Disney-myndina Dúmbó, þá mun þér ekki líka aðferðirnar sem á eftir verða lýst.

Gaddakylfan, einnig þekkt sem “bull hook”

Eftir að fílnum hefur verið rænt er hann bundinn niður á öllum fótum og komið fyrir í afar litlu rými þar sem erfitt er að hreyfa sig. Fílnum er haldið þannig í minnst viku, barinn og stunginn endurtekið með sérstakri gaddakylfu, einnig þekkt sem “bull hook”. Þessi gaddakylfa mun fylgja fílnum til frambúðar því fílatemjarar nota hana til þess að stýra fílunum (ef þú ferð í fílabaksferðir í gegnum frumskóga Thaílands munt þú sjá temjarana bera þessa kylfu). Fílar eru með einstaklega gott minni og gleyma því seint þeim sársauka sem kylfan olli. Þeir verða ævinlega hræddir þegar kylfan berst í augnsýn.

Næst í ferlinu er fílinn sveltur á mat og drykk, og kennt nokkrar skipanir sem hann á að fara eftir. Að lokum er áætlunarverkinu náð; fílinn er bældur, undirgefinn manninum og hlýðir hverri skipun um leið og gaddakylfan fer á loft.

Ofbeldið endar þó ekki þar, heldur tekur á sig mismunandi myndir eftir því hvert leið hans liggur.

FÍLAR Í FRUMSKÓGARFERÐUM

Frumskógarferðir á fílabökum hafa ávallt notið mikilla vinsælda, þá sérstaklega í Thaílandi og nú í auknum mæli í Afríku. Þú getur hins vegar fullvissað þig um að hver einasti fíll í hópnum hefur gengið í gegnum bælingarferlið hér að ofan til að tryggja öryggi ferðamanna.

Hryggur fíla er ekki hannaður til að bera mikinn þunga líkt og önnur burðardýr. Þrátt fyrir að fílar séu stórir og virðist sterklega byggðir þá er mænan þeirra mun berskjaldaðari en mætti halda ólíkt t.d. hestum. Jafnvel minni háttar þyngd á baki fíls getur valdið langtíma skaða á hrygg og í verstu tilfellum mænu. Fílar eru langt því frá hannaðir til að geta borið þunga bekki með eina, hvað þá tvær manneskjur. Fílarnir fá einnig oft á tíðum slæmar blöðrur undan bekkjunum sem eiga það til að sýkjast, en margir eigendur hika þó ekki við að skella bekk yfir sýkta svæðið svo þeir missi ekki úr degi.

Til að reka fílana áfram eru þeir stundum slegnir í lappirnar en oft nægir að ógna þeim með gaddakylfunni. Auk þess notast margir eigendur við hringlaga króka sem komið er fyrir í eyrum fílanna (eitt viðkvæmasta líkamssvæðið), sem þeir toga í til að ná fram hlýðni. Á ferðalagi mínu um Asíu hef ég séð marga fíla með hálftætt eyru, því oftar en ekki rifnar hringurinn frá við slíka meðferð.

Fílarnir fá því miður litla hvíld því aðsókn ferðamanna er enn að aukast. Margir þeirra örmagnast, aðgengi að næringu og vatni er oft af skornum skammti (þurfa 150 kg af gróðri og 100L af vatni á dag)  og yfirleitt eru þeir látnir vinna yfir heitasta tíma dags. Milli ferða eru margir þeirra hlekkjaðir niður og einangraðir frá hvort öðrum.

Across Asia, elephants are abused so that tourists can ride them. Now this cruel industry is spreading in Southern Africa. A lifetime of cruelty, just for entertainment. Together we can stop this suffering. Join the movement http://ow.ly/S1vZ5

FÍLAR Í STÓRBORGUM

Í Indlandi sá ég einna mest af fílum í borgum og bæjum en ekki í frumskóginum. Líf stórborgarfíla er sennilega einna verst. Ferðamenn borga gjarnan vel fyrir að láta taka mynd af sér með fílum eða fyrir stutta ferða á baki um götur borgarinnar. Fætur fíla eru hins vegar viðkvæmir og fullir af skynnemum og því ekki hannaðir til að ganga á malbiki. Stórborgarlífið veldur þeim langvarandi stressi enda langt frá þeirra náttúrulega umhverfi. Í þéttbýlum borgum er stressandi umhverfishljóð og oft verða þeir fyrir árekstrum við farartæki.

Fílar tjá tilfinningar og þurfa mikla félagslega örvun en lífið í stórborgunum fullnægir engan veginn þeim þörfum. Besta leiðin til þess að útrýma þessum bransa er að hundsa fólk sem eru með fíla í eftirdragi, sýna þeim enga athygli og aldrei taka myndir af þessum fílum. Með því að sýna þeim áhuga erum við að viðhalda vítahringnum.

DEYJA FYRR OG FJÖLGA SÉR HÆGAR

Rannsóknir hafa sýnt að fílar í ferðamannaiðnaðnum lifa mun styttra en fílar í villtri náttúru. Auk þess er fjölgun þeirra tíu sinnum hægari en í náttúrunni; fíll í haldi manna eignast að meðaltali einn kálf á lífsleiðinni samanborið við fjóra til sex kálfa í villtri náttúru. Fílum hefur nú þegar fækkað um 62% á síðasta áratug, og talið er að þeir verði að mestu útdauðir í lok næsta áratugar.

Fílar eiga margt skylt við mannfólk. Þeir stunda samskipti, halda fjölskyldutengslum, eiga vini, finna fyrir sársauka, sorg og hamingju. Þegar þeir eru í haldi manna eru þeir sjaldnast í tengslum við aðra fíla og í mikilli einangrun.


img: Shutterstock

NÝTT TREND Í AFRÍKU

Fílar hafa verið áberandi í ferðamannaiðnaðnum víðsvegar í Asíu á meðan Afríka hefur verið þekkt fyrir ævintýralegar safaríferðir. Frá síðustu aldamótum byrjaði hins vegar þessi slæma iðja að teygja arma sína yfir til Suður-Afríku, þar sem hefðbundnum safaríferðum fer fækkandi en fílabaksferðum fjölgar.

Víðsvegar um Afríku eru enn fyrirtæki sem einblína á safaríferðir þar sem ferðamenn geta upplifað villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi. Með því að velja safaríferðir fram yfir dýragarða eða fílabaksferðir styður þú við heilbrigðari og vistvænari ferðamannaiðnað. Þú sérð dýrin í sínum heimakynnum en á sama tíma styrkir þú heimafólkið, ríkið og fyrirtæki sem hafa hagsmuni dýra í fyrirrúmi í stað þess að skaða þau.

Í Suður Afríku í dag eru um 144 fílar í haldi í minnst 28 mismunandi görðum. Þar að auki eru 47 fílum haldið í 7 mismunandi görðum í Zimbabwe, 13 í Zambia og 11 í Botswana.

Fílarnir eru einnig ræktaðir innan garðanna og síðar seldir til annarra fílagarða víðsvegar um Asíu. Nýlega seldu stjórnvöld í Zimabwe 24 unga fíla til skemmtigarða í Kína. Þar munu þeir lifa ævilangt við sama ofbeldi og áður hefur verið lýst, því með engum öðrum hætti geta þeir framkvæmt þau skemmtiatriði sem þar fara fram, né hleypt mannfólki óáreittu á bak.

Það sorglega er, að raunverulega þarf þetta ekki að vera svona. Afríka er einn besti staður í heiminum til þess að sjá villt dýr í sínu náttúrulega umhverfi. Með þessari þróun er þó ekki ólíklegt að Afríka muni halda áfram að færast nær Asíu í þessum málum.

EKKI LÁTA BLEKKJA ÞIG

Fleiri og fleiri ferðamannastaðir eru farnir að breyta nöfnunum á fyrirtækjunum sínum til þess að laða að dýravini. Fyrirtæki nota nöfn á borð við “elephant conservation”,“elephant orphanages”, eða “eco-tourism” en oft er um blekkingu að ræða. Ef boðið er upp á fílabaksferðir eða sýningar þar sem fílarnir sýna einhverjar brellur ættu viðvörunarbjöllurnar að hringja. Margir fílagarðar bjóða upp á að baða fílana og gefa þeim að borða. Það er vissulega betra en að fara á bak, en ekki það sem er fílunum fyrir bestu, því helst þurfa þeir að vera í eins lítilli snertingu við mannfólk og mögulegt er til að lifa stresslausu lífi og líða vel. Jafnvel þótt fílinn virðist elskulegur eða glaður þá máttu ekki gleyma því að fíllinn hefur þurft að þola mikið ofbeldi til að komast á þann stað sem hann er, langt frá fjölskyldu og sínu náttúrulega umhverfi.

HVER ER BESTA LEIÐIN TIL AÐ KOMAST Í NÁVIST FÍLA?

Í rauninni er eina rétta leiðin að sjá fíla með eigin augum í vernduðum náttúrugörðum. Jafnvel þá ætti mannfólk aldrei að koma of nálægt þeim þar sem það veldur streitu og getur haft áhrif á fjölgun þeirra.

Mikilvægt er að kynna sér vel fyrirtækin sem farið er með og ganga úr skugga um að þau hafi öll tilskilin leyfi og séu vel upplýst um velferð dýranna.

Eina leiðin til að stöðva þennan iðnað er ef bæði ferðamenn og ferðaþjónustur standa saman og sniðganga staði sem fela í sér misnotkun á fílum. Kæru ferðalangar, sniðgöngum fílabaksferðir með öllu!

Elephant Sanctuaries – Fílamustur

Það er komin ákveðin hreyfing af stað sem kallast Elephant Sanctuary. Þetta eru dýraverndunarfélög sem hafa verið stofnuð með sérstaka fílavernd og björgun í huga frá ferðaiðnaðnum. Hér eru nokkur Elephant Sanctuary sem þið getið skoðað að styrkja eða aðstoða sem sjálfboðaliðar ef þið viljið komast í nálægð við þessi stórkostlegu dýr.

Elephant Sanctuary Thailand

Elephant Jungle Sanctuary Phuket (Thailand)

The Elephant Sanctuary in Tennessee (Bandaríkin)

VILLT ÞÚ HAFA ÁHRIF?

Taktu þátt í baráttunni gegnmisnotkun fíla hér –http://www.worldanimalprotection.org/

og hér: https://www.facebook.com/#/WorldAnimalProtectionInt?ref=ts&fref=ts

Helmingur dýrategunda heimsins hafa horfið síðan 1970! Heimild

About The Author

Ása Steinarsdóttir
Ritstjóri og færsluhöfundur

Ása er ein af þremur eigendum Gekkó og rekur einnig ferðabloggið FromIceToSpice Ása er þekkt fyrir að flakka um allan heim og grípa ótrúlegustu augnablikin á filmu, hvort sem það er í ævintýraferð í Mongólíu eða af náttúruperlum Íslands.

Related Posts

4 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.