Það er eitthvað órúlega heillandi og rómantískt við Feneyjar. Ég kíkti þangað í byrjun september og naut þess að ganga um þröngar göngugötur borðandi ekta ítalskan ís á meðan ég gluggakeypti nýja ítalska leðurtöskur hverja á fætur annarri. Augljóslega var áherslan á ‘gluggakaup’ þar sem lítill bakpoki í handfarangur kippti manni fljótt af bleika verslunarskýjinu. Að ganga um Feneyjar eins og að stíga aftur í tímann. Borgin er rík af sögu og mannvirki eins og Basilica di San Marco, Rialto brúin, og Ponte dei Sospiri eru dæmi um hvað þessi ævintýralega eyja hefur að geyma. 

Helst kom mér á óvart stærð borgarinnar. Einhverra hluta vegna bjóst ég við því að borgin væri minni og ég sé núna að löng helgi var ekki nóg til að kanna allt á listanum. Það væri sjálfsagt yfirþyrmandi verkefni að kanna alla borgina og krefðist líklega flutninga til lengri tíma. Eitthvað til að íhuga seinna meir.

Þrátt fyrir að borgin væri stærri en ég bjóst við fannst mér nóg af fólki á ferli. Sérstaklega á þessum óvenjulegu Covid tímum. Fjöldinn var nóg til að fylla þröng strætin á daginn og valda umferðateppu hér og þar. Á meðan ég snakkaði á súkkulaði prufum hjá Nino and Friends hugsaði ég til þess að rölta um á háannar ferðatíma og get ímyndað mér að andrúmsloftið væri töluvert breytt í mannmergðinni. Fyrir athyglissakir spurði ég afgreiðslumanninn hvort það væri mikil breyting á. Hann bar þetta saman við traffíkina á veturna og benti á að yfir sumartímann breyttust margar göngugöturnar í einstefnu götur til að auðvelda aðgengi að borginni.

Í sömu andrá og við þökkuðum fyrir súkkulaði smökkunina bættum við einni pumpu af handspritti í lófana og prísuðum okkur sæl að ekki væri meira fólk í borginni.

Það sem stóð uppúr

Ca’ Marena

Í versluninni er að finna handgerðar grímur. Listamenn á verstæðinu handgera þær og bjóða líka reglulega upp á námskeið í grímugerð. Sem mikill DIY nörd hefði ég farið í það ef ég hefði vitað það fyrr.

Venice Free Walking Tour

Við fórum á degi tvö í gönguferð um borgina með frírri leiðsögn hjá Venice Free Walking Tour með leiðsögukonunni Simona. Leiðsögnin var upplýsandi um sögu Feneyja og samtíma. Meðal annars fræddi hún okkur um reglulegar innanhús breytingar á íbúðinni hjá sér þegar flóðspár væru +135cm. Íbúðin sjálf stendur í 140cm yfir sjávarmáli. Í lokinn fengum við kort af Feneyjum með ábendingum með veitingastöðum og hefðum ekki getað fengið betri meðmæli.

Doge’s Palace

Hertogahöllin er staðsett á fræga San Marco torginu. Höllinn er að sjálfsögðu skreytt listaverkum og hvert herbergi ber gríðamikla sögu. Hinsvegar er einnig veittur aðgangur að fangelsinu og gefinn er möguleiki á því að ganga yfir Ponte dei Sospiri eða brú andvarpanna. Síðasta sjón af Feneyjum áður en göngunni er haldið áfram inn í fangelsið.
Secret Itinerary tour um hertogahöllina gefur enn meiri upplýsingar um falin rými og einstök herbergi í höllinni sem eru ekki opin almenningi nema með þessari sérstöku leiðsögn.

Murano

Eyjan er þekkt fyrir glerlist og er ekki síður fallegri en Feneyjar. Möguleiki er á því að sjá listamenn blása og vinna með gler í verksmiðjunum. Eyjan er stutta bátsferð frá F.te Nove bátastöðinni.

San Marco Torgið

Það þarf líklegast ekki að taka það fram þar sem flestir sem fara til Feneyja koma til með að ganga um torgið oftar en einu sinni. Til að ná góðum myndum af torginu er best að vakna snemma og fara af stað. Það er líka ákveðin rómantík í því að upplifa staðinn í rólegheitunum áður en aðrir vakna.  

T Fondaco Dei Tedeschi

Í staðinn fyrir klukkuturninnn, St Mark’s Campanile, kíktum við á toppinn á verslunarmiðstöðinni T Fondaco og fengum gott útsýni yfir Rialto.  Aðgangur er frír en þarf að bóka fyrirfram.

Libreria Acqua Alta

Vel þekkt bókabúð í Feneyjum sem hefur sett bókaflóðið í báta og baðkör til að sporna gegn skemmdum þegar vatnsborðið hækkar og flæðir inn.

Rosa Salva

Bakaríið er fullkomið til að byrja daginn á góðum espresso og úrvali á sætabrauði. Bakaríð opnaði 1879 og hefur hlotið mörg verðlaun fyrir gæða bakstur.

Banco Lotto no.10

Banco Lotto er kjóla og fataverslun staðsett í Castello hverfinu. Það sem er einstakt við þessa litlu boutique er að allt er hannað og saumað í Feneyjum, í kvennafangelsinu.

Gelatoteca Suso

Ein af eldri ísbúðum í Venice og vel þekkt fyrir langa biðröð. Vel þess virði.

Báta taxi á flugvöllinn

Eins og allar góðar ferðasögur þarf eitthvað að klikka hér og þar. Þegar komið var að því að fara upp á flugvöll var seinkun á bátunum sem fara þessa leið. Eftir góða 40 mínútur var þetta farið að verða heldur tæpt og fólkið í kringum okkur orðið óþreyjufullt. Þar sem fleiri voru greinilega í sömu sporum og við náði ég á taxa sem stóð skammt frá. Eftir að hafa rætt verðið fórum ég, maðurinn minn og 10 aðrir seinir ferðamenn með spíttbát upp á flugvöll. Mættum með gott 10 mínútna svigrúm fyrir flug.

Feneyjar

About The Author

Avatar
Ritstjóri og færsluhöfundur

Sigþrúður Dóra Jónsdóttir

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.