Ferðaöryggi. Hundleiðinlegt hugtak en samt svo mikilvægt. Flest fólk í þessum heimi er gott og blessað og hreinlega yndislegt. En svo eru svartir sauðir inn á milli sem svertir orðspor mannkynsins, í orðsins fyllstu merkingu. Svo er það ekki bara fólk. Það er líka Móðir Náttúra sem ber að vera a varðbergi fyrir. Hún er fögur og góð, fæðir okkur og nærir. En hún á það alveg til að vera grimm líka. Í þessari færslu fer ég yfir nokkra linka og öpp tengt ferðaöryggi á Íslandi og víðar, ásamt stuttum texta um Ísland sem ferðamannastað. Síðan á eftir eru 21. ferðaráð um hvernig best er að gæta að sínu eigin ferðaöryggi á ferðalögum.

Góðir hlekkir fyrir ferðaöryggi á Íslandi og víðar

SAFETRAVEL.IS
SafeTravel upplýsir ferðamenn á Íslandi með mikilvægum hætti í þeim tilgangi að draga úr áhættusamri hegðun, auka slysavarnir og tryggja örugg og þægileg ferðalög. “ SafeTravel er ekki eingöngu íslenskt fyrirtæki. Ef þið googlið SafeTravel, þá getið þið dottið inn á SafeTravel í Nýjasjálandi, Bandaríkjunum og víðar.

VEDUR.IS
Veðurstofa Íslands, en ekki hvað?

ACCUWEATHER.COM
AccuWeather er frekar sniðug vefsíða og app til að tékka á veðrinu út um allan heim. Hægt er að athuga veður sérstaklega fyrir sérstök útivistaráhugamál og heilsufar, t.d. fyrir ofnæmi og kvef.
Sæktu appið frítt fyrir iPhone, Android, og Windows 8 og Windows 10.

ROAD.IS
Athugaðu færð á íslenskum vegum áður en þú leggur af stað, sérstaklega að vetri til.

Smáforritið 112 ICELAND
“Snjallsímaforritið 112 ICELAND er afar einfalt i notkun og hefur tvennskonar virkni. Annarsvegar er hægt að kalla á aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða. Hinsvegar að skilja eftir sig „slóð“ en slíkt má nota ef óttast er um afdrif viðkomandi og leit þarf að fara fram.”
Sæktu snjallsímaforritið 112 ICELAND fyrir Android síma, Windows síma og iPhone.

Statista.com 
Statista.com er vefsíða sem heldur úti mælingum um þau lönd sem eru bæði óörugg og örugg í heiminum. Samkvæmt Statista er Ísland í fyrsta sæti yfir öruggustu lönd heimsins! Húrra fyrir okkur!

Ísland sem ferðamannastaður

Ísland er eitt af mest eftirsóttustu áfangastöðum í heimi í dag fyrir erlenda ferðamenn. Íslenskt ævintýrafólk með mikla útivistarþrá hefur lengi vel notið hennar og elskað hana og dáð. Einnig er landið okkar eitt öruggasta land í heimi til að búa í, glæpatíðni er með þeim lægstu sem gerist í heiminum og Íslendingar eru almennt ótrúlega næs fólk.

Hinsvegar, þá eigum við hina Íslensku, einu sönnu Móður Náttúru. Hún getur stundum tekið reiðisköst, verið ósvífin, og komið okkur í klípu. Hún er rosalega seig. Við þekkjum hana öll, er það ekki?

Það er mjög mikilvægt að vanmeta ekki íslenska veðrið og náttúruna okkar. Hún er afar fögur, en hún er líka afar hættuleg ef fólk er ekki í stakk búið til þess að mæta öllum heimsins veðrum og vindum sem hún getur kastað á okkur.

Verið alltaf klædd eftir veðri, kíkið á veður og færð áður en þið leggið af stað, og pakkið með ykkur nesti og nóg að drekka 🙂

Lesa einning: Staðalbúnaður útivistargarpsins

Almenn ferðaráð fyrir ferðalög hvar sem er

1. Kynntu þér algengustu ferðasvindlin (e.travel scams)

Vertu bara yfir höfuð vakandi yfir slíku. Allir halda að þeir séu of klárir til að lenda í einhverju svindli – en svindlin gerast! Bilaðir taxamælar er algengt svindl. Eða bara enginn taxamælir og uppsett verð fyrir taxa. Fara í hinar og þessar verslanir um heila borg að skoða allskonar verslanir. Þar á meðal klæðaskurð. Ef þið viljið láta klæðskera sauma á ykkur, þá mæli ég bara með að þið gerið heimavinnuna ykkar á netinu og farið sjálf til þess aðila sem ykkur líst best á.

2. Skrifaðu niður neyðaraðstoðarupplýsingar

Hvað er númerið hjá næsta spítala eða heilsugæslustöð og hvar er hún staðsett? Hvað er neyðarnúmerið í landinu sem ég er staddur í? Gott er að hafa þetta punktað rafrænt í símanum, og svo á blaði í veskinu þínu t.d.

3. Skoðaðu og kynntu þér hvort að landið sem þú sért að fara til sér öruggt

Og hvort það séu einhverjar hættur sem þarf að vera meðvitaður um. Á vefsíðu Statista.com er hægt að sjá lista yfir öruggustu sem og óöruggustu lönd í heiminum. Hér er listi yfir hættulegustu löndin um þessar mundir

Lesa einning: Sandra Marín á móti straumnum: Fór til Egyptalands þrátt fyrir óeirðir og slæmt orðspor landsins

4. Hafðu auga með dótinu þínu og læstu skápum sem þú geymir verðmætar í.

Ef ég á að vera alveg hreinskilin, þá tossa ég sjálf hér. Það er ekki sniðugt. Ég mæli 100% með að ferðast alltaf með góðan lás sem maður notar til að læsa skápum á hostelum og jafnvel bara til að læsa töskunni sinni við eitthvað. Auk þess er gott að hafa lítinn lás eða lára til að læsa rennilásunum á bakpokunum eða ferðatöskunni. Það er hægt að kaupa sérstakan vír til að koma í veg fyrir að taskan sé tekin.

5. Vertu með góða ferðatryggingu og gakktu úr skugga um að hún sé nógu langdrægin fyrir ferðalagið þitt.

Flestar íslenskar ferðatryggingar gilda einungis í þrjá mánuði eftir að þú ferð ytra. Það er hægt að kaupa framlengingu á ferðatryggingu, en bara ef þú ert ekki farin úr landi. Hafðu samband við þitt tryggingafyrirtæki til þess að spyrjast fyrir um trygginguna þína. Annars finnst mér best að reiða bara á kreditkortið mitt. Kreditkort koma með mismunandi góðum ferðatryggingum. Algengasta er líklega Vildarpunka Gullkort (mér finnst vildarpunktar svo mikið sem gagnslausir en tryggingarnar eru fínar) en svo er Platinum mjög gott fyrir þá sem ferðast mjög mikið. Hægt er að fá að framlengja kortatryggingar. Hafið samband við ykkar viðskiptabanka fyrir frekar upplýsingar.

Ef ferðatryggingin þín rennur út á miðju ferðalagi þá mælum við með ferðatryggingu WorldNomads. Hægt að tryggja sig hvar og hvenær sem er, eins lengi og maður þarf. Hinsvegar er þessi trygging alveg frekar dýr. Ég mæli ekki með henni í staðinn fyrir íslenska ferðatryggingu sem fylgir með heimilistryggingum og kreditkortum. En það er gott að vita af henni ef þú lendir í því að vera tryggingalaus.

6. Fáðu ferðaráð hjá lókalnum

Spurðu innfædda hvað er merkilegt að sjá í nágreininu. Þeir vita yfirleitt um þetta mest ósnortu staði sem enginn veit um. Ekki samt búast við því að þeir láti upplýsingarnar í té. Leynistaðir eru leynistaðir fyrir ástæðu.

7. Ef þú færð ferðaráð hjá lókalnum um ósnortna staði – virtu lókalinn og staðinn.

Þið vitið hvernig þetta virkar. Eins kaldhæðnislegt og það kann að vera að lesa þetta af ferðabloggi. Sumir staðir eiga bara að vera “low key”. Reykjadalur er gott dæmi um leynisvæði sem einhver bloggaði um og allt í er staðurinn bara einhver túristabomba. Reynum að halda a.m.k. einhverju “hard to find” og spennandi. Ekki blogga um svona staði, og ekki shoutouta þá með location-i á instagram eða samfélagsmiðlum. Keep it authentic, keep it real.

8. Láttu vita af þér: láttu vini og ættingja hafa ferðaplanið þitt.

Heyrðu í vinum og fjölskyldu reglulega. Ef eitthvað kemur fyrir þá vita þau c.a. hvar þú varst síðast þegar þau náðu tali af þér.

Hér kemur 112 ICELAND einnig að góðum notum: “112 ICELAND má nota bæði hérlendis og erlendis. Samskiptin eru þó alltaf við 112 á Íslandi en sértu erlendis hafa þeir samband við viðbragðsaðila í því landi sem þú ert í.” Það er neyðarhnappur í appinu sem þú getur ýtt á. hvar sem þú ert í heiminum.
Sæktu snjallsímaforritið 112 ICELAND fyrir Android síma, Windows síma og iPhone.

9. Ekki ofdeila upplýsingum með fólki sem þú þekkir ekki

Þú hefur líklega séð Taken, eins og 99% íslensku þjóðarinnar. Vinkonan deilir með einhverjum ókunnugum gæja hvar þær vinkonur eru að gista, eða þær leyfa honum að deila með sér taxa alveg heim að dyrunum þar sem þær eru að gista. Boom.

Ekki segja ókunnugri manneskju hvar þú ert að gista. Hótel herbergi eru ekki 100% örugg þó það sé öryggisvörður í lobbýinu. Ekki deila hótel upplýsingunum þínum á Instagram eða á samfélagsmiðlum fyrir galopnum almúganum heldur. Bara alls alls alls ekki láta einhvern John Johnson hafa upplýsingar um hvar þú gistir. Heimurinn er alveg 99% öruggur en það drepur þig a.m.k. ekki að hafa varann á. Þó má öllu ofgera – reyndu að vera vinaleg eða vinalegur við ókunnuga samt sem áður. Farðu í kvöldmat, kíktu í drykk. Hafðu gaman (innan skynsamlegra marka)! Bara ekki deila hótel, hostel eða airbnb upplýsingunum þínum.

Litlar hvítar lygar hafa aldrei verið afsakanlegri en í tilfellum þar sem þér finnst þú ekki 100% örugg eða öruggur

 • Láta sem þú sért að hringja í einhvern og láta vita af þér
 • Hafa 112 neyðarhnappinn tilbúinn (kannski?)
 • Tala um kærastann þinn, hvort sem hann er tilbúningur eða ekki.
 • Eða bara eitthvað annað sniðugt sem þér dettur í hug.

10. Veldu öryggi – jafnvel þótt það kostar meira

Það ódýrasta er oftast ekki það öruggasta.

Ódýrustu hostelin geta verið án láss – þannig hver sem er getur komið inn og sofið í sama rými og þú, rænt dótinu þínu eða bara abbast upp á þig. Ódýrustu flugin geta stundum verið að lenda um miðja nótt eða seint að kvöldi til. Ef þú þekkir ekki til þá getur það verið mjög óþægileg lífsreynsla að vera í taxa með bílstjóra sem reynir varla að tala við þig, er aggressívur og heimtar meiri pening – og hótar þér með hníf. Þetta hefur gerst og þetta er ekki næs. Ég þekki Bangkok orðið svo vel að mér finnst ég nánast alltaf örugg. Ég veit hvernig þjónustu ég get fengið og hvar ég get fengið hana. Þess vegna kippi ég mér ekki upp við það að lenda í Bangkok um miðjar nætur. En ef ég væri að fara eitthvert sem ég hef aldrei farið áður, þá passa ég upp a það þegar ég bóka að vélin sé að lenda á kristilegum tíma. Þú ættir að gera það líka 🙂

Lesa einnig: Eyrún Lydía Jöklaleiðsögukona: Afhverju ég ferðast ein

11. Festu töskuna þína við eitthvað óhreyfanlegt eða illhreyfanlegt

Þjófar eru seigir. Það þekkist að þjófar hrifsi töskur úr TukTuk bilum á ferð og á almenningsstöðum þar sem þeir sjá töskur hálfgerlega yfirgefnar. Ég nota karabínu í TukTuk og læsi henni. Þannig er alveg ómögulegt fyrir einhvern keyrandi mótorhjólagæja að hrifsa töskuna mína. Það er margfallt ólíklegra að einhver þori að hrifsa í töskuna þína ef hún er fest við eitthvað apparat, eins og stól eða borð. Svo nýtist karabína líka í margt annað en öryggisfestingar 🙂

12. Lærðu smá sjálfsvörn

Það er alls ekki vitlaust að kunna örfá sjálfsvarnartök ef þú yrðir svo óheppin/nn að lenda í því að ráðist sé á þig. Svo eru bardagaíþróttir bara frekar spennandi! Allir ættu að kunna eitthvað smá 🙂

13. Vertu vakandi og lestu umhverfið þitt

Þeir sem hafa það í hyggju að ráðast á fólk finna sér heppileg fórnarlömb. Þeir lesa fólk aðallega með því að fylgjast með líkamstjáningu þeirra. Heppileg fórnarlömb eru þeir sem eru:

A. Ekki á neinskonar varðbergi og með töskurnar sínar hálf- eða galopnar.
B. Fólk sem kann ekki sitt hóf þegar kemur að drykkju
C. Berskjaldað á einhvern hátt.

Vertu meðvitaður og sýndu að þú sért með hausinn á réttum stað. Þá er mun ólíklegra að einhver óprúttinn aðili þori að abbast upp á þig. Óprúttnir aðilar óttast öruggt fólk. Í grunninn er mikilvægt að þú sért meðvitaður eða meðvituð um það sem er að gerast í kringum þig og hver er í kringum þig. Ekki ganga í hringi og láta það auðveldlega í ljós að þú sért viltur eða ringlaður. Og reyndu að láta sem minnst bera á hræðslu ef þú ert eitthvað óttaslegin/nn.

14. Feldu einhversstaðar neyðarpeninga

Mér finnst þetta mjög góð hugmynd. En ég geri þetta ekki sjálf. Ég geymi bara peningana mína á 2-4 mismunandi stöðum og það er alveg nóg fyrir mig. Auk þess er gott að eiga nokkur greiðslukort. Þessi kort geta auðveldlega týnst eða horfið. Ég mæli alveg með að ferðast með 2 debitkort og 1 kreditkort eða jafnvel 2 debetkort og 2 kreditkort. Stundum er 1 kredit og 1 debit nóg. Ekki ferðast bara með eitt kort. Og ekki geyma öll kortin þín á einum stað.

En fyrir ykkur sem viljið endilega fela nokkra dollara í neyðarpeningum þá eru góðar hugmyndir í fyrstu mínútunum í vídjóinu fyrir ofan.

15. Fæðu- og drykkjaröryggi

Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður fyrir því að matur víðsvegar í heiminum er ekki undir eins ströngu eftirliti og það sem við kunnum að venjast. Það er mjög mikilvægt að passa upp á það að það sem þið látið ofan í ykkur er tiltölulega hreint. Gott er að hafa á bakvið eyrað að götumatur þarf ekki að vera verri en matur í verslunarmiðstöð. Ég hef fengið matareitrun vegna íss sem ég fékk mér á KFC. Stundum er verið að geyma mat umfram þann tíma sem hann þolir að vera geymdur! Hinsvegar, þá er götumatur hjá stöndum þar sem er alltaf þéttsetið alltaf með nýtt hráefni daglega. Ef það er þéttsetið þá er mjög líklegt að maturinn er í lagi. Ég treysti sjálf klökum og vatnskönnum sem borið er fram á borðið í Taílandi, hef drukkið það í mörg ár og aldrei orðið fyrir óþægindum. Það er mikilvægt að þið gúgglið og lesið ykkur til um mataröryggi í því landi sem þið eruð að fara til og vitið hvað ber að varast. Google is you really really good friend my friend.

16. Ábyrg hraðbankanotkun

Persónulega þoli ég ekki að ferðast til nýrra landa þar sem mér finnst nýjir hraðbankar svo sketchy. En hvað um það. Girl gotta use her money. Ég spyr yfirleitt aðra ferðalanga hvað þeir hafa notað og hvað þeir mæla með. Einnig spyr ég hvað er það mesta sem hægt er að taka út. Hámarksúttekt er mjög mismunandi eftir hraðbönkum í þeim löndum sem þið eruð í, og kortunum sem þið eruð að taka út af. Oft eru úttektargjöldin mjög há: 500-1000 kr fyrir hverja úttekt. Ég myndi því taka út eins mikið og hægt er að taka út hverju sinni, en innan skynsemismarka að sjálfssögðu.

17. Ekki nota rassvasann þinn sem peningageymslu

Ekki gera það. Bara í alvörunni. Hann rennur auðveldlega úr þessum vasa fyrir það fyrsta. Svo er þessi staður alveg alltof easy fyrir vasaþjófa. EASY PEASY.

18. Ferðastu með Fyrstu Hjálpartösku

Þetta er ferðavani sem ég hef persónulega vanið mig á. Og ég skal segja ykkur alveg eins og er; þetta er snilldar ferðavani. Ég á alltaf plástur, sótthreinsi, verkjalyf ýmiskonar, sárabindi, lítil skæri og hvað eina. Ég á þetta helsta og fylli á reglulega. First Aid taskan mín er alltaf töltölulega full, og ég gríp mjög reglulega í það fyrir aðra sem og fyrir sjálfa mig.

Það sem ég á alltaf í Fyrstu Hjálpartöskunni

 • plástra í nokkrum stærðum og gerðum
 • sótthreinsir
 • sólarvörn
 • anti-histamín
 • sárabindi
 • Sportstape (þetta er bara travelhakk tape í raun og veru… nýtist í mjög margt!)
 • verkjalfyf (íbúfen eða paratabs)

19. Haltu þér nokkuð edrú

Það er í góðu lagi að fá sér nokkra og hafa gaman, en reyndu eftir bestu getu að vera með rænu og reyndu að láta vín ekki breyta þér í svín.

Það eru ófáir sem hafa lent upp á kannt við heimamenn einungis vegna þess að þeir létu vín breyta sér í svín. Svo ef þú hefur ekki rænu þá er mjög auðvelt fyrir þjófa að tæma vasana þína. Hægt er að koma í veg fyrir svona vesen með því að halda sér skýrum 🙂

20. Hlustaðu á innsæið!

Innsæið er ekki bara eitthvað djók eða einhver tilbúningur sem við notum í daglegu tali. Við erum í alvörunni með innra viðvörunarkefi í líkamanum okkar, taugakerfinu eða hvar sem þetta “Fight or Flight” kerfi er staðsett – sem varar okkur við hættu. Taugakerfið okkar er ekkert að djóka með þetta. Ef þú færð óþægilega tilfinningu, eða þér líst ekki á blikuna, hlustaðu á tilfinninguna og komdu þér ut úr þeim aðstæðum sem þú ert í eins fljótt og þú getur. Heilinn á þér veit að það er eitthvað gruggugt í gangi.

21. Aðeins um áhættuhegðun og Instaperfect myndir í lokin…

Áhættuhefgðun er telst undir þá hegðun sem viðkomandi framkvæmir í hálfgerðu hugsanaleysi. Þetta gæti verið að dangla fótunum þínum niður af mörg hundruð metra háum kletti, eða labba á mjórri klettabrún sem augljóslega telst hættuleg. Þetta á líka við selfiemyndatökur og aðrar myndatökur á stöðum þar sem aðstæður eru ekki alveg safe. Það er mikilvægt að ferðast með öryggisbúnað í ferðalög sem krefjast þess og kunna að nota hann. Það er líka mikilvægt að nota hjálm á vespu. Einnig er mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfi sitt. Ekki snúa baki við sjó þar sem mikill öldugangur er fyrir myndatöku. Ekki taka selfie á lestarteinum eða á meðan þú ert að aka ökutæki.

Hér eru nokkur Selfie eða Instagram dauðatilfelli sem þið getið lesið ykkur til um ef þið elskið að vera smá vitlaus. Bara svona til að rétta ykkur aðeins af 😉

Ég vona að þessi listi og þessir linkar eigi eftir að nýtast ykkur eitthvað á komandi ferðalögum og í framtíðinni 🙂

VERTU ÖRUGGUR OG ÁBYRGUR FERÐAMAÐUR

xx Elín Kristjáns

Ég er á Instagram

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.