Þegar við Steinar vorum að taka þá ákvörðun að eyða stærsta hluta fæðingarorlofsins á Balí, hætti ég við alveg ótal oft einungis út af tilhugsuninni að ferðast með Esjar svona lítinn alla þessa leið. Við vildum ekki bíða of lengi með þetta, þar sem veturinn og kuldinn á Íslandi var ekki að heilla okkur þegar við vorum farin að hugsa um Balí. Við stefndum því að fara með þegar Esjar væri um 3ja mánaða því hann gat fengið bólusetningar 2.5 mánaða. Það er mjög algengur misskilningur hjá okkur að börnin okkar séu ótrúlega brothætt og best sé að vera bara heima í bómul þar til þau verða stór. Þau þola miklu meira en við höldum þessar elskur (hafa ber í huga hér – innan skynsamlegra marka. Ég er alveg ábyrg móðir líka.. lofa!).

 

En þá var það ferðalagið á áfangastað!

Nú, þar sem Balí er nánast hinumeginn á hnettinum var ekki hjá því komist að við yrðum að ferðast alveg ferlega langt með Esjar & Önju. Anja mín var þó mun minna áhyggjuefni, þar sem hún er eins og hugur manns og hefur ótrúlega þolinmæði og dundhæfileika. Áhyggjur mínar voru allar á ungbarninu.
Við vorum strax viss um að við vildum stoppa einhversstaðar á leiðinni og gista í 1-2 nætur til að hvíla börnin, og að við vildum bóka í gegnum ferðaskrifstofu til að vera örugg ef eitthvað kæmi uppá með flugin. Við vorum þá aðallega með í huga að fá bætt fjárhagslegt tjón og að fá mat og gistingu ef við myndum lenda í einhverju veseni. Hver nennir að standa á flugvelli eftir langt ferðalag með 2 svöng og þreytt börn og eiga ekki gistingu? Pant ekki!
Með aðstoð Kilroy ákváðum við því að fljúga til London (3 tíma), þaðan til Dubai (6:45 tíma), gista þar í 2 nætur og halda síðan áfram til Balí (9:50 tími). Þessa síðustu tvo leggi ákváðum við að taka með góðu flugfélagi, þrátt fyrir að vera ögn dýrara, vegna þjónustunnar við börn og fjölskyldufólk og enduðum með Emirates. Við sjáum sko ekki eftir því! Hjá Emirates fengum við til dæmis:

 • sæti með vöggu fyrir framan okkur handa Esjari (þetta er þó hægt annarsstaðar eins og
  til dæmis Qatar Airwayes),
 • bæði börnin fengu gjafir frá þeim sem nýtast
  í fluginu og á ferðalaginu,
 • Í sjónvarpinu hjá þeim eru þúsundir bíómynda,
  sjónvarpsþátta, tónlistar og tölvuleikja,
 • Anja fékk mun betri mat með súkkulaðiköku í
  eftirrétt, ásamt því að fá snakk og drykki í
  ótakmörkuðu magni alla ferðina,
 • við vorum spurð að því strax hvort Esjar væri
  á pela/graut eða hvort okkur vantaði einhverja
  aðstoð við að útbúa matinn hans. Við fengum því forgangsaðstoð við að hita pela handa honum
  þegar þess þurfti.
 • Ef við þurftum að skipta um bleyju á Esjari fórum við framfyrir
  raðirnar á klósettið,
 • En auk þess þurftum aldrei að bíða í röð á einum
  einasta stað í gegnum alla þessa flugvelli á ferð okkar út.

Auk þess pöntuðum við bíla til að sækja okkur á áfangastöðum til að koma í veg fyrir þreytta og langa bið eftir leigubíl.

Biðin eftir fluginu..

Eftir að hafa pantað flugið til Balí var fínn mánuður fyrir mig til að fá þónokkur kvíðaköstin yfir því að vera að ferðast þetta með Esjar, þónokkrar næturnar sem ég lá andvaka og endaði á því að vekja Steinar og ausa yfir hann hvaða vitleysa og vanræksla þetta væri í okkur. Í alvöru, ef ég vissi hversu oft ég hvíslaði “fyrirgefðu” í eyrað á Esjari í móðusýkiskasti því ég sá fyrir mér alla þessa klukkutíma af öskri og vanlíðan og gráti. Hér er kannski best að bæta því inn í að Esjar er ákveðinn ungur drengur sem lætur okkur (og alla í næsta nágrenni) heyra af því ef hann er ósáttur. Hann veit og hefur alltaf vitað nákvæmlega hvernig hann vill hafa hlutina og sættir sig ekki við neitt annað. Og já, auk þess hefur hann nánast aldrei sofið á daginn nema nokkrar mínútur hér og þar (en alltaf mjög vel yfir nóttina). Tilhugsunin um að fara með þennan ákveðna dreng í þetta ferðalag ætlaði því að ganga frá mér dauðri!
Ég sankaði því að mér öllum heimsins ráðum fyrir börn og flugvélar, var með stærstu tösku sem leyfð var í handfarangri fulla af öllu allskonar í fluginu (en pistil um hvað leyndist þar ofan í má finna hér) og ætlaði bara alls ekki að klikka á einu né neinu!

Nú, þetta var móðursýkiskast til einskis! Esjar naut sín mjög vel í öllum þessum flugum. Svaf, drakk og babblaði á milli þess sem hann rölti með okkur um vélarnar og sjarmaði farþega og starfsfólk. Þessar vöggur eru náttúrulega það besta sem til er og sofnaði Esjar meira að segja einu sinni sjálfur í henni (já nei, það gerðist nánast aldrei að hann sofnaði sjálfur!) Á meðan sat dásamlega Anja mín og horfði á sjónvarpið, spilaði tölvuleiki, teiknaði eða svaf. Aldrei heyrðist svo mikið sem eitt kvart eða ein spurning um “hvenær komum við?!”

 

Það er líka fullt jákvætt við að ferðast með ungbarn!

Þrátt fyrir að það sé aðeins erfiðara að ferðast með ungbarn, getur það stundum verið mikill kostur. En til að mynda höfum við ekki þurft að bíða í einni einustu röð á þessu ferðalagi okkar. Má þar til dæmis nefna þegar við fórum í ofur-ferðamanna pakka upp Burj Khalifa, þar sem var samankominn örugglega hver einasti ferðamaður í Dubai á þessum tíma! Á meðan þau mjökuðust hægt og rólega í hverri röðinni á fætur annarri til að njóta útsýnisins, mættum við með Esjar og fórum beint upp á 125. hæð að njóta!

Það kom sér síðan mjög vel að hafa einn pirraðann vælara með í för þegar við skráðum okkur inn í lounge á Heathrow á meðan við biðum eftir fluginu okkar til Dubai. En um leið og við stigum fæti inn í þetta fína lounge byrjaði Esjar að öskrugrenja. Okkur var því húrrað inn í rosalega fínt VIP herbergi til að trufla ekki hina gestina. Þar gátum við slakað á, verið á bara tánum, gefið brjóst í rólegheitum, horft á sjónvarpið, hangið á netinu, skipt á Esjari í sófanum (en hann gubbaði reyndar líka yfir hann allann) og fengið 100% þjónustu frá starfsfólkinu sem færði okkur mat og drykki þangað inn! Takk Esjar!

Það var því frekar næs þegar við svo loksins lentum á Balí og kvíðahnúturinn í maganum á mér gat yfirgefið pleisið. Eða það hélt ég… En það er reyndar efni í annan pistil.

About The Author

Linda Sæberg
Færsluhöfundur

Linda býr fyrir austan á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og er eigandi vefverslunarinnar unalome.is. Hún elskar að ferðast og eyddi fæðingarorlofinu sínu á ferðalagi með fjölskylduna, þar sem þau eyddu mestum tímanum búsett á Balí. Hún veit ekki alveg hvað hún ætlar að verða þegar hún verður stór, en hefur lokið námi í félagsráðgjöf og lýðheilsuvísindum. Linda hefur einstakann hæfileika í að njóta lífsins, grípa augnablikið, meta litlu hlutina, gera ógeðslega mikið mál úr litlum hlut (hvort sem það er jákvætt eða neikvætt mál), og í raun bara vera til. Hún reynir að taka myndir af sem flestu sem hún gerir og ætlar að deila því skemmtilega með ykkur.

Related Posts

2 Responses

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.