Árið 2018 er liðið og nýja árið okkar 2019 nú þegar hafið með æsingi.

Þegar ég sá alla facebook- og instagram statusana um hversu fyrirferðamikið og glæsilegt 2018 hefði verið hjá “öllum hinum” hugsaði ég til baka um mitt og hugsaði “ah, mitt var average”.
En svo þegar ég lít til baka, skoða myndirnar sem ég tók á árinu sé ég að 2018 var eitt heljarinnar ár.

Eins og ég gerði árið 2017, ætla ég að fara yfir ferðaárið mitt 2018.

Ég bætti fleiri löndum við í safnið, 6 til að vera nákvæm en heimsótti í heildina 12 lönd á árinu, þar af heimsótti ég bæði París og Budapest tvisvar.
Svo það má segja, hvað útlandaferðir varðar að 2018 hafi verið ansi viðburðaríkt ár enda fannst mér ég ekki gera annað en að brölta illa sofin í gegnum Leifsstöð.

Fyrir utan öll þau útlandaferðalög sem mér tókst að troða inn í árið, fór ég að sjálfsögðu nokkrum sinnum heim til Ísafjarðar, keyrði vestfirðina, Snæfellsnesið, suður- og Norðurlandið og átti eitt dásemdar sumar heima á Íslandi með vinum og vandamönnum. Ég virðist ómeðvitað vera að spara Austfirðina til betri tíma, það er kannski mission fyrir 2019 að heimsækja Austfirðina og Lindu!

Þrátt fyrir frábært ferðaár var ég ekki eins dugleg að blogga og ég dauðskammast mín – mér finnst nefnilega svo skemmtilegt að lesa um farnar ferðir og hugsa til baka því það er svo oft sem ég gleymi allskonar litlum smáatriðum og skemmtilegum sögum. Ég ætla að reyna að standa mig betur á þessu ári.

MAROKKÓ

Ég tók mér janúar í ferða frí. Við Kaali eigum bæði afmæli í jan en strax í byrjum febrúar vorum við orðin þreytt á vonskuveðrinu sem átti síðan eftir að verða þemaveður ársins. Í flýti hentum við öllum litríku fötunum okkar í tösku og héldum af stað til Marokkó í góða 10 daga.

Við ferðuðumst um landið: keyrðum frá Marrakesh til Tangier með nokkrum geggjuðum stoppum hér og þar. Allt árið er ég í laumi búin að vera að plana aðra ferð til Marokkó þar sem þetta var hið huggulegasta frí en samt sem áður troðfullt af allskyns uppákomum.

PARÍS

Á leiðinni heim frá Marokkó komum við svo við í einni af okkar uppáhalds borgum, París.
Við höfum varið all nokkrum dögum í París svo í þetta skiptið nutum við þess að rölta um uppáhalds hverfin okkar, sofa dálítið út, borða góðan mat og þykjast vera Parísarbúar yfir helgi í góðri fjarlægð frá Effel turninum og Louvre safninu.

Við vorum svo arfaslök að við tókum varla myndir.

BELFAST

Air Iceland Connect hætti því miður að fljúga til Belfast snemma á árinu. Ég varð því að nýta tækifærið og fara í eina af þeirra síðustu ferðum til Belfast og tók alla fjölskylduna með.
Við gistum því huggulegri íbúð rétt við Titanic safnið. Belfast er iðnaðarborg en þó stútfull af áhugaverðri sögu. Við fórum í ferð um borgina með leiðsögumanni sem hafði sjálfur upplifað borgarastríðið og gat því sagt okkur sögur af stríðinu og afleiðingum. Við borðuðum að sjálfsögðu dásemdar mat en Belfast kom okkur á óvart hvað góðan (geggjaðan!) mat varðar.

PARÍS – aftur

Við Kaali vorum sammála um að stutta stoppið í París eftir Marokkó hefði ekki verið nóg svo um leið og við áttum bæði langt helgarfrí úr vinnu hentumst við til Parísar.
Sumarið var svo sannarlega komið í París svo við héldum bara áfram þar sem að frá var horfið: héldum áfram að borða góðan mat, drekka freyðivín, rölta um uppáhalds hverfin okkar og fórum í pik-nik.

HEIM TIL GRÆNLANDS

Að venju fórum við svo heim til Qaqortoq. Við áttum 10 yndislega daga þar þrátt fyrir smá veikindi í lokin en í staðin áttum við meiri tíma með fjölskyldunni. Við fórum í brúðkaup, héldum uppá þjóðhátíðardaginn og fórum í heitu laugarnar í Uunartoq í fyrsta skipti síðan 2012.

KAUPMANNAHÖFN

Ok nú er ég farin að hljóma eins og biluð plata en vont veður bara gerir ekkert fyrir mig. Við Kaali semsagt flúðum enn og aftur veðrið í leit að sumri og enduðum hjá gömlum og góðum Grænlenskum vinum í Kaupmannahöfn – löng helgi enn og aftur. Danmörk sló hvert annað hitametið á eftir öðru í sumar svo við gátum ekki látið okkur vanta.
Þvílík dásemdar helgi – ódýrt grænmeti á grillið, bjór, vín og Islands brygge. Topp næs!

BUDAPEST – VÍNARBORG – PRAG

Ég er svo heppin að eiga fjölskyldu í Vínarborg og ömmu sem er hægt að plata í ferðalög. Í þetta skiptið var það þó hún sem plataði mig í ferðalagið, ég snéri bara aðeins uppá hana og lengdi það og bætti við áfangastöðum.
Hún semsagt þurfti að “skutla” lítilli frænku heim til sín og bauð mér með sér til að fylgja sér heim þar sem það er ekki flogið beint frá Vínarborg. Mamma flaut með okkur og skoðuðum við þrjár borgir, Budapest, Vínarborg og Prag á einni viku í sól og sumaryl. Við þeittumst á milli landa með lest og nutum okkar í botn. Verðmætar minningar.

KENYA

Árið 2018 var svo loksins árið sem ég heimsótti “sálarlandið mitt” Kenya. Ferðalag lífs míns. Ég hef átt í miklum erfiðleikum með að skrifa um upplifunina mína í Afríku þar sem hún hafði mikla þýðingu fyrir mér. Ég upplifði svo markt, upplifanir og tilfinningar. 24 tíma svefnlaust ferðalag var vel þess virði. Eftir sólarhrings hvíld og heimsóknir í dýraathvörf í Nairobi fórum við í smá road trip til suðurs. Við fengum að gista hjá Maasai fólki við Amboseli þjóðgarð, bara við tvö með ca 40 íbúum þorpsins. Þar voru tveir sem kunnu ensku svo við, með hjálp þeirra, gátum frætt hvort annað um mismunandi menningu og vana hvors annars. Konurnar í þorpinu kenndu okkur að perla Maasai skart og mennirnir sögðu okkur frá jurtalækningum. Krakkarnir sýndu okkur skólann sinn og léku sér með okkur – stútfull af ást og forvitni. Í kring um litla húsið okkar bjuggu híenur og gírafar sem hafa lært að búa í kringum Maasai fólkið sem ber mikla virðingu fyrir villtum dýrum. Við heimsóttum Amboseli þjóðgarð sem var stútfullur af fílum, flamingófuglum, zebrahestum, ljónum og fleiri framandi dýrum með Kilimanjaro í bakgrunn.
Þar á eftir gistum við á man eaters svæðinu við Tsavo East í nokkrar nætur sem er talinn einn af hættulegustu stöðum heims þar sem að fjöldi manns hafa verið drepin og étin af ljónum – áhugavert það. Við enduðum svo Kenya ferðina okkar á þriggja daga leti í smáhýttu við sjóinn í Diani Beach.

ZANZIBAR

Við flugum svo frá Mombasa í Kenya til Zanzibar í Tansaníu og þar vorum við í viku. Í Zanzibar áttum við smá frí. Við köfuðum nokkrar kafanir, kynntumst fleiri ferðamönnum, heimafólki og menningunni í Nungwi. Þar á eftir fórum við svo í algjöra slökun í Bweeju á austurströndinni – þvílík sæla! Síðasta sólahringnum var svo varið í höfuðbænum Stone Town en á leiðinni þangað stoppuðum við svo við á kryddbúgarði og lærðum ýmislegt um krydd og ávaxtaræktun.

DUBAI

Á leiðinni heim stoppuðum við í þrjár nætur í Dubai. Við höfðum sett ýmis plön niður á blað en enduðum á að gera nánast ekkert annað en að slaka aðeins meira. Við heimsóttum þó að sjálfsögðu Burj Kalifa, skoðuðum skíðasvæðið og fiskabúrið í risastóru mollunum og skoluðum táslurnar á ströndinni en vorum annars bara arfa slök í 50 stiga hita – handviss um að eiga eftir að stoppa þar aftur og aftur.

NEW YORK

Við stoppuðum ekki stutt heima en rétt rúmri viku eftir að við lentum á Íslandi vorum við komin upp í vél á leið til New York. Fjölskyldan mín þurfti að fara, litli bróðir (youtuberinn) var að heimsækja NY í fyrsta skipti og við stóðumst ekki mátið og hlunkuðumst með. Ég átti dag sem okkur Huga (litla bróðir) hefur dreymt um að eiga saman í Central Park, Natural history museum og á röltonu í New York – það sem það var gaman að sjá hann upplifa drauma borgina sína! Við fórum öll saman í skemmtilegan matartúr sem við fundum á airbnb og ég mæli mikið með og áttum frábæra daga troðfulla af góðum mat og skemmtilegum félagsskap.

AMSTERDAM – ROTTERDAM

Loksins var svo komið að vinkonuferð með mökum. Við fórum til Hollands þar sem við stoppuðum fyrsta sólarhringinn í Amsterdam en fórum svo í aðrar 3 nætur til Rotterdam aðallega til að hlæja, borða, drekka gott vín (og gin).  Ævintýraleg ferð í first class félaggkap!

BUDAPEST – aftur

Budapest var svo rúsínan í pylsuendanum. Einhvernveginn tókst mér að plata alla fjölskylduna og tengdamömmu til Budapest yfir áramótin. Við vorum í viku og áttum yndislegar stundir saman á mínum uppáhalds veitingastöðum en Budapest kemur svo sannarlega á óvart þegar að fine dining kemur. Hvert einasta kvöld í heila viku borðuðum við listaverk í kvöldmat og fengum okkur nudd ýmist fyrir eða eftir. Gjaldmiðillinn þar er svo næs að þar er aldeilis hægt að leyfa sér ýmislegt fyrir mjög lítinn pening. Við enduðum árið með stæl með tpælega tveggja tíma Segway ferð um borgina, fótabaði og nuddi, ungversku freyðivíni, fimm stjörnu máltíð á uppáhalds staðnum mínum Monks Bistrot og götupartýi á einum af brúum Budapest – ferð sem mun aldrei gleymast.

 

SKÁL fyrir 2018. Megi 2019 vera stútfult af ævintýrum, hlátrasköllum og sigrum.

Íris
instagram

 

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.