Nú þegar nýtt ferðaár er gengið í garð get ég ekki annað en gert árið mitt 2017 upp.

Árið var með þeim betri og brasaði ég margt. Ég stækkaði sjóndeildarhringinn minn verulega og heimsótti 9 lönd, þar af 7 í fyrsta skipti. Ég var boðin velkomin í gekko fjölskylduna og gat þannig loksins byrjað að deila reynslu minni og áhugamáli með öðrum, þvílík gleði!

Ég ferðaðist líka mikið innanlands – ég fór suðurlandið ekki í fyrsta, ekki í tíunda og heldur ekki síðasta skiptið. Ég drattaðist loksins upp á Snæfellsjökul og renndi mér niður á snjóbretti og keyrði um Snæfellsnesið tvisvar. Ég innréttaði jeppan hennar mömmu sem húsbíl og fór á honum um vestfirði. Fór í yndislegt brúðkaup í Vestmannaeyjum og að sjálfsögðu í nokkrar sumarbústaðaferðir.

En ég ætla að fara yfir ferðirnar mínar út fyrir landsteinana en ferðaárið til útlanda fór frekar seint af stað en varð heldur betur næs samt!

New York

Í lok mars tók ég þá skyndiákvörðun að fara í langa helgi til New York. Mér fannst eins og febrúar hefði tekið yfir alla hina mánuðina og var lítið að brasa fram að því.
Ég keypti tvo miða út, fann airbnb herbergi í Brooklyn og var komin á Syndicated að borða börger innan við sólarhring síðar. Ég bókaði gistingu í svo miklu flýti að herbergið var gluggalaust, ískalt í frekar nasty íbúð. Ég fékk það fyrir lítið og það var á góðum stað svo við sættum okkur svosem við vesenið en lærðum af reynslunni.
Veðráttan í New York í mars/apríl er óútreiknanleg en fyrsta daginn vorum við pökkuð inn í kápur, með húfur og hanska og á sunnudeginum, nokkrum tímum fyrir brottför lá ég á hlýrabolnum í uppáhalds garðinum mínum í Williamsburg.
Það sem stóð upp úr þeirri ferð var uppistand sem við álpuðumst á, á New York comedy club. Get klárlega mælt með góðri kvöldstund þar.
Við nutum lífsins, borðuðum góðan mat og löbbuðum maraþon (svo gott sem!) frá Brooklyn og upp alla Manhattan.

 

Ljubljana og alparnir

Mamma er partur af hóp sem hittist reglulega á mismunandi stöðum í Evrópu og gerir saman land-list eða landart og í ár var mér boðið að koma með. Reglurnar eru þær að nýta bara náttúrulegt efni og búa til list úr nærumhverfinu sem eyðist svo jafn fljótt og það var búið til. Þetta var í fyrsta skipti sem ég tók þátt og er ótrúelga spennt að fá vonandi að vera með oftar.

Í lok maí flugum við til Lubljana í gegn um London og vorum þar í tvær nætur. Við gistum í flottri og þægilegri airbnb íbúð örfáum mínútum frá miðbænum og borguðum um 11.000kr fyrir tvær nætur og þrjá gesti. Við tókum oftast leigubíl í bæinn og borguðum aldrei meira en 300kr. Í borginni er ódýrt að borða og brasa og er klárlega staður sem ég mæli með að allir heimsæki. Veitingastaðirnir sem við borðuðum á voru hver öðrum betri og virtist vera erfitt að hitta á vondan mat, allavega kom það ekki fyrir okkur. Næst langar mig þó að heimsækja kisu kaffihúsið sem ég náði því miður ekki að heimsækja í þetta skipti en þessi ferð til Ljubljana var algjörlega ekki sú síðasta.
Okkur var svo skutlað upp í alpana á landamærum Austurríkis og gistum hjá fjölskyldu sem rekur einn af nokkrum fjallakofum í ölpunum, Planšarija Kofce. Þar skreyttum við landið eins og brjálæðingar með fólki allsstaðar að úr Evrópu, smökkuðum heimabruggað vín og snapsa og áttum dásamlegar stundir með nýjum vinum.

Concordia, Feneyjar og nágrenni

Eftir dásemdar daga uppi í slóvensku ölpunum fengum við far með einum af þátttakendunum til Concordia Sagittaria, sem er rétt fyrir utan Feneyjar, þar sem hann býr með konunni sinni. Við gistum hjá þeim hjónum, Pino og Maria í þrjár nætur og þau keyrðu okkur út um allar trissur í kring um Feneyjar. Við stoppuðum þó bara á sjálfum eyjunum í nokkra klukkutíma þar sem að bæirnir og þorpin í kring voru miklu skemmtilegri að heimsæja. Hjá “afa” Pino er allt leyfilegt og borðuðum við eitt kvöldið með honum ís í kvöldmat í þorpi rétt hjá Concordia. Ég hafði farið einu sinni áður til Feneyja en kynntist borginni á allt annan hátt í þetta skiptið, enda fékk ég góða leiðsögn frá heimamanni. Við fórum í dagsferð með Pino í strandbæinn Caorle og borðuðum þar ekta Ítalskar pizzur. Daginn eftir tókum við mamma rútuna á sama stað og eyddum heilum degi á ströndinni. Við vorum gjörsamlega einar á ströndinni á sundfötum og klárar í sólina, enda um 27 gráður. Ítalarnir horfðu undrandi á okkur, enda ekki komið sumar enn. Við skruppum líka í stuta heimsókn í litlu “borgina” Portogruaro, en hún er bara tvær götur, önnur gatan liggur inn í borgina og hin út úr henni og keyrir maður í ígegnum hlið til að fara inn. Byggingarnar eru flestar skakkar og mörg þúsund ára gamlar. Mæli klárlega með dagsferð þangað.
Ég alveg elska þetta umhverfi, alla bæina, kirkjurnar og þá staðreynd að enginn gat talað við okkur ensku og að við þurftum bara að bjarga okkur. Við mamma nutum okkar í botn sem einu ferðamennirnir í Concordia og gerum það vonandi að venju að heimsækja Pino og Mariu reglulega eftir þessa ferð.

 

París

París! Það er alltaf jafn skemmtilegt að koma til Parísar en í þessu ferðalagi okkar múttu flugum við frá Feneyjum til Íslands með 12 tíma millilendingu í París. Við nýttum þann tíma svo sannarlega!
Við tókum lestina frá CDG og niður í bæ sem tók okkur rúmar 40 mínútur Við borðuðum morgunmat í öðru hverfi í kring um Parísarbúa á þeytingi og hádegisverð í því áttunda. Við vorum óneitanlega þreyttar svo við nöppuðum aðeins í garðinum undir Effel turninum og röltum um garðinn við Louvre. Við tókum þessa 10 tíma í París eins og algjörir túristar og fannst mér eginlega bara ósköp næs að gera það svona einusinni 🙂

Reyndar er  svo ótrúlega gaman að ferðast með mömmu að þessir 10 tímar (eða bara öll ferðin í heild sinni) hefðu svosem verið alveg jafn skemmtilegir þótt við hefðum bara verið heima. 

Aberdeen

Ég hafði stutta tíu tíma á Íslandi til að leggja mig, endurraða í töskuna og koma mér aftur í ferðagírinn. Við vinkonurnar fórum neflilega í skemmtiferð til Aberdeen. Tilgangur ferðarinnar var enginn annar en að njóta og Aberdeen hinn fullkomni staður til þess. Borgin er lítil og frekar ódýr. Matsölustaðirnir eru nægilega margir til að hafa valmöguleika en ekki þannig að maður fái valkvíða. Flugið til Aberdeen tekur rúmlega tvo tíma svo ferðalagið er lika fullkomið fyrir æstar vinkonur sem þyrstir í vín. Miðbærinn er alls ekki stór og á fyrsta degi vorum við svo gott sem búnar að skanna allan miðbæinn svo við höfðum nægan tíma í að væna, dæna og njóta, sem var akkúrat tilgangur ferðarinnar.
Annars er ég dálítið spennt fyrir því að fara þangað aftur og skoða umhverfið aðeins betur, kíkja á kastala og skoska náttúru.

Grænland

Mér til mikillar gleði höfum við Kaali komist “Heim” til Grænlands a.m.k einu sinni á ári og var árið 2017 engin undantekning. Í þetta skipti komu mamma, amma og litli bróðir með og kúrðum við öll saman í íbúðinni hennar tengdó í heila viku. Við flugum til Narsarsuaq og sigldum þaðan og til Qaqortoq. Það er alltaf jafn dásamlegt að komast aðeins til tengdafjölskyldunnar og voru mamma og litli bróðir að koma í fyrsta sinn til Qaqortoq eftir að þau fluttu aftur til Íslands, en þar bjuggum við í nokkur ár. Litli bróðir hafði mjög gaman af því að skoða gamla leikskólann sinn og að leika sér við gamla vini. Við vorum svo heppin að ná að vera þar yfir þjóðhátíðardaginn þeirra, 21 júní í geggjuðu veðri! Við fengum að skoða selskinnsverksmiðjuna Great Greenland og svo hlunkuðumst við uppá upáhpalds fjallið mitt, Saqqaasuk og týndum grænlenskar jurtir í te og krydd.

Afsakið magnið af myndum. Ég bara gat ekki valið!

Toronto

Í lok Ágúst millilentum við Kaali svo í Toronto á leið okkar til Kúbu. Við stoppuðum í tvær nætur og þrjá daga. Við gistum í little Italy hjá þeim Bill og Kamal og kisunni þeirra – á besta stað. Eins og flestar borgarferðir sem við förum í, snérist þessi um að þræða markaði og torg og að sjálfsöðu borða góðan mat. Við þræddum Kensington markaðinn og second hand búðir (afþví ég fór út með tóma tösku og vonaðist til að geta keypt mér eins og tvo kjóla í Toronto, stór mistök), hjóluðum út og suður á Toronto islands á Tandem hjóli og skoðuðum street-art í Graffity Valley. Næs staður að millilenda og gaman að skoða þessa geggjuðí fyrstu borg a en ekki síðasta skipti. Þarna upplifði ég líka allra verstu leigubílaferð lífs míns, en ég er frekar bílhrædd týpa. Bílstjórinn var með klassíska tónlist í botni og keyrði aldrei hægar en 110! Ég svoleiðis ríg hélt mér í þegar hann tók framúr og keyrði hann oft á milli akreina. Það er óhætt að segja að ég hef sjaldan verið jafn hrædd!!

Kúba

AH Kúba!! Ég fór til Kúbu með það hugarfar að þetta yrði fyrsta og eina skiptið sem ég myndi fara þangað. WRONG-O! Ég féll svo killiflöt fyrir landi og þjóð og get ekki beðið eftir að fara þangað aftur í nánustu framtíð. Við vorum þar í þrjár vikur og þær liðu eins og þrír dagar. Fellibylurinn Irma setti dálítið strik í reikninginn en gerði þessa ferð samt ógleymanlega (eða ógleymanlegri). Við kynntumst svo frábæru fólki. Við töluðum spænsku. Við drukkum gott kaffi. Borðuðum samlokur úti á götu. Drukkum Mojito. Drukkum allt annað sem var kalt. Fórum í marga klukkutíma leigubílaferð og borguðum minna en í strætó. Við sváfum í geggjaðri villu í Vinales með flottasta útsýni heimsins. Við horfðum á sólarupprásina uppi á fjalli. Við fórum á hestbak í þjóðgarðinum. Við drukkum enn betra kaffi. Smökkuðum romm sem gufaði upp áður en við náðum að kyngja. Fórum á hestbaki inn í helli þar sem við böðuðum okkur í ísköldu vatni. Við riðum heim í svarta myrkri þar sem við sáum bara stjörnur og fireflies. Við reyktum vindla. Við fórum í sjötugsafmæli.  Við lágum á ströndinni og lásum heila bók. Við dönsuðum salsa. Við vorum internetlaus í þrjár vikur og lærðum að njótaífs lins án samfélagsmiðla.
Við brösuðum svo ótrúlega mikið meira og mér þykir það leitt að ég sé enn búin að gera haldbært blogg um þetta allt! En bíðið bara.

 

Honduras

Eftir þrár dýrindis vikur á Kúbu lá leiðin til Honduras. Við flugum í gegnum San Salvador með flugfélaginu Avianca og lentum svo í San Pedro Sula “murder capital of the world”. Við gistum þar í eina nótt áður en við tókum rútuna til La Ceiba og nutum þar lífsins á hjá John og Soledad í regnskógjinum í þrjár nætur. John hafði skipulagt fyrir okkur zip lining, spa ferð í skógjinum og riverrafting en fyrir utan það lágum við eins og selir í hengirúminu fyrir utan herbergið okkar og drukkum nýkreistann ávaxtasafa.
Frá La Ceiba tókum við svo ferju yfir á eyjuna Utila þar sem var loksins komið að því að fá köfunarréttindi. Við vorum í rúma viku á Utila og gerðum lítið annað en að kafa. Honduras kom okkur svo á óvart og lærðum við þar að fréttamiðlum er ekki treystandi og að landið er alls ekki eins og við höfðum gert ráð fyrir.

New York ..aftur

Ferðin okkar endaði svo í New York þar sem við hittum foreldra mína. Við gistum í geggjaðri airbnb íbúð á Bedford avenue í Williamsburg. Við röltum um Williamsbug, Soho og Central Park. Við ákváðum að láta reyna á hop-on hop-off í þeirri von um að ná að skoða sem mest. Ó þvílíka vitleysan sem það var! Við vorum föst í umferð og hver hringur tók svo ótrúl langan tíma. Get ekki sagt ég að mæli með hop-on hop-off í NY en ef við lítum á björtu hliðina, við náðum þó að sjá alla manhattan, götur og hverfi.
Veðrið var annars svo geggjað að það kom ekki af sök að skoða borgina með augum túristans og brenna smá meira á nefinu fyrir heimferð. Alls ekki slæm ferð og það var mjög gaman að vera þar með foreldrum mínum 🙂

 

Gdansk

Síðasta ferð ársins var síðan til Gdansk í Póllandi með foreldrum mínum og litla bróðir. Við flugum beint frá Keflavík með Wizz air ogistum á íbúðarhóteli alveg í miðbænum. Við skoðuðum jólamarkaðinn í miðbæ Gdansk, tókum leigubíl til Sobot og borðuðum (að sjálfsögðu) geggjaðan mat.
Fábær frerð í alla staði og algjör snilld að skreppa yfir eina helgi í desember. Mæli með!

 

Íris

instagram

About The Author

Íris Ösp
Færsluhöfundur

Íris fer öðruvísi leiðir í lífinu og við höfum ótrúlega gaman af því! Ekki nóg með það að vera listamaður heldur bjó þessi reynslubolti á Grænlandi í um sex ár og lærði þar myndlist sem og ýmislegt annað. Hún lærði fatahönnun í lýðháskóla í Danmörku og stundaði ferðatengt starfsnám í Lapplandi. Íris hefur ferðast um víðann völl og þrátt fyrir að vera kuldaskræfa er hún algjör expert í ferðalögum um Grænland og kaldar slóðir.

Related Posts

One Response

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.