Í þessari færslu fer ég yfir útivistarfatnað sem er nauðsynlegur til þess að líða vel úti í náttúru þar sem skiptast á skin, skúrir og snjókoma. Ég man að þegar ég var úti í Nýja Sjálandi og Ástralíu saknaði ég gönguskónna minna alveg sérstaklega, auk þess hefði ég ekki hatað að vera með þriggja laga skel á báðum stöðum. Þessi útbúnaðarlisti hentar vel fyrir kaldari og milliheit loftslög, eins frá -15 til +20 gráður.

Yrsta lag eða skel

Yrsta lagið þekkist einnig sem skel eða þriðja lag og er þunnur vatns- og vindheldur jakki og/eða buxur. Í útivist er betra að klæða sig í nokkur lög frekar en að vera í einu þykku lagi eins og t.d. þykkri úlpu því maður þarf stöðugt að vera tempra sig eftir því hvort maður sé á hreyfingu eða ekki. Maður vill helst ekki vera of heitt né of kalt, heldur bara rétt tempraður og líða vel hvort sem maður er að ganga, á skíðum eða að halda kyrru fyrir.

Hörð skel

Góð skel verður að anda vel og vera vatnsfráhrindandi. Meðal bestu efna á markaðnum sem geymir slíka eiginleika er Gore-tex, en til eru ýmsar gerðir af góðum skeljum þó þær heiti ekki Gore-tex eins og t.d. Gelanots, Neoshell og Ecoshell. Hægt er að fá Gore-tex fatnað frá ýmsum útivistarmerkjum, eins og til að mynda 66° norður, Arc’teryx, Mammut og North Face. Cintamani notar til að mynda Gelanots í sinn þriggja laga fatnar, 66°norður notar mikið Neoshell og Fjallraven notar til Ecoshell sem er umhverfisvænari skel.

Mjúk skel

Mjúk skel hefur er bæði vatns og vindheld en þolir minna regn heldur en harða skelin. Mjúka skelin hentar mjög vel í hvers kyns útivist eins og hjólreiðar, skíði og krefjandi göngur því hún andar mun betur en hörð skel. Hún er hlýrri en hörð skel ein og sér og getur bæði verið þjónað manni sem yrsta lag og miðlag.

Miðlag

Miðlagið er annað lagið í þriggjalaga kombóinu. Það er mjög persónubundið hvað fólk kýs sem miðlag en það er yfirleitt flís, ull eða primaloft. Gott er að hafa miðlagið aðsniðið en ekki of þröngt.

Flís

Flísin er hentug sem annað lag því hún bæði einangrar vel og þornar fljótt. Hún er einnig létt og heldur eiginleikum að nokkru leyti þó svo hún vætist aðeins til.

Ull

Það er ekkert fyrir tilviljun sem ullin er allaf jafn vinsæl. Hún hefur ekki haldið okkur hita í hundruðir ára fyrir ekki neitt! Íslenska ullin andar ótrúlega vel, er mjög hlý og heldur eiginleikum sínum ef hún blotnar. Hins vegar tekur hún smá meira pláss í töskunni en margt annað. Ef þú ert að fara ferðast um í kaldara loftslagi utan Íslands þá er alveg sterkur leikur að taka ullarpeysuna með 🙂

Dúnn

Dúnjakkar og úlpur eru ótrúlega hlýr og þægilegur fatnaður. Hann bæði andar og einangrar einstaklega vel og pakkast rosalega vel saman og er fisléttur. Eini gallinn við dúninn er hins vegar sá að hann missir alla einangrunareiginleika ef hann blotnar og það verður því að passa vel upp á að hann haldist alveg þurr.

Primaloft

Primaloft er oft heppilegri en dúnn sem annað lag vegna þess að primaloftið er ekki gagnslaust þó það blotni eins og dúnninn. Primaloft efni andar ágætlega, er mjög einangrandi og pakkast alveg ágætlega saman.

Til eru margar útfærslur af primaloft úlpum, jökkum og vestum frá ýmsum merkjum.

Buxur

Hvernig buxur fólk velur til útivistar er mjög persónu- og árstíðabundið. Almennt er best að velja efni sem þornar fljótt og er ekki til mikilla trafala ef það blotnar. Allajafna eiga langflestir föðurland og harðskelja buxur en svo er millilagið oft mjög persónubundið. Bómull og gallaefni eru á algjörum bannlista!

Buxur eru oft eina lagið í samsetningunni en einnig er hægt að raða þeim niður í fyrsta, annað og þriðja lag. Að sumri til finnst mér þægilegast að vera í einu miðlagi í þurru veðri og þá finnst mér dri-fit efni alveg skila sínu því manni verður í það minnsta ekki of heitt og það þornar eins og skot. Hins vegar er dri-fit algjör no-no á veturna. En svo er fínt að eiga góðar göngubuxur líka. Á veturna hefur dugað mér að nota föðurland og Móna flísleggings frá Cintamani undir þriðja lags skel í miklum kulda en ef þú vilt algjöran lúxus þá eru primaloft buxur einnig fýsilegur kostur til að eiga sem annað lag. Svo er mjúk skel líka mjög þægileg yfir föðurland ef það spáir ekki rigningu og þá er hörðu skelinni sleppt.

Innra lag/föðurland

Innra lagið eða föðurland er yfirleitt úr Merino ull en hún er ekki ofnæmisvaldandi og veldur ekki kláða eins og t.d. íslenska ullin. Til eru nokkrar útfærslur og þykktir af föðurlöndum.

T.d. með eða án renniláss eða hettu. Mér finnst mjög þægilegt að ganga í föðurlandi með rennilás því þá get ég rennt niður eða upp eftir því hvort mér sé kalt eða heitt en hentar síður ofan í svefnpoka. Föðurland með hettu hentar vel bæði á göngu og ofan í svefnpokanum þegar kalt er í veðri og föðurlandsbolur án renniláss og hettu er mjög þægilegur sem all-around bolur. Svo er mjög gott að eiga þægilegar föðurlandsbuxur líka. Þær eiga það smá til að teygjast þannig passaðu að taka alls ekki of stórar. Hinsvegar er ógéðslega óþægilegt að vera í of þröngum föðurlandsbuxum þannig passaðu bara upp á að þær passi vel og séu aðsniðnar, sama með bolinn. Innsta lagið á að liggja þétt að líkamanum og vera þægilegt.

Einnig er gott að eiga merino nærbol… og merino toppur snilld fyrir okkur stelpurnar!

Gönguskór

Hægt er að fá mjúka, millistífa og alstífa gönguskó og  praktískustu skórnir eru þessir millistífu. Til eru margar tegundir af gönguskóm en meðal þeirra þekktustu eru Meindl og Scarpa Lower Alpine og fleiri. Svo er einnig gott að eiga göngusandala og vaðskó.

 

Alstífir

Alstífir gönguskór eru hentugir í þungum færum og þar sem fæturnir þurfa mestan stuðning eins og í jöklagöngum og ísklifri en hægt er að nota þá í almennum göngum líka en aftur á móti þá getur sumum þótt þeir frekar þungir til þess. Alstífir gönguskór hafa þann eiginleika að gefa nákvæmlega ekkert eftir og þeir eru þar að auki mjög vatnsheldir og hlýir. Sérstök festing er framan á tánni og aftur á hælnum fyrir mannbrodda einmitt ætlað til ísklifurs og jöklaganga.

Millistífir

Millistífir gönguskór eru í raun alhliðagönguskór og virka allan ársins hring í hvers kyns fjallamennsku. Sjálf á ég Meindl gönguskó og þeir eru enn mjög góðir og ég hef átt þá í meira en 10 ár. Það þarf að passa upp á góða gönguskó, bera á þá reglulega og sprauta á þá vatnsfráhrindandi efni. En þegar þú kaupir millistífa gönguskó þá skaltu alveg ganga úr skugga um að þeir séu merktir Gore-Tex því það er efnið sem að hrindir frá sér og langflestir framleiðendur nota Gore-tex í sína bestu skó.

Léttir

Það er líka mjög gott að eiga létta gönguskó en sjálf á ég ekki slíka. Miðað við það sem fólk talar helst um í léttum gönguskóm, þá eru mjög margir ánægðir með Scarpa Mojito skóna. Þeir henta vel hversdags og í allskyns útivist eins og léttari göngur, út að hjóla of fleira.

Vaðskór og sandalar

Það er mjög hentugt að eiga góða vaðskó og/eða góða göngusandala ef þú ert að fara vaða mikið af ám eða verður í mjög heitu loftslagi. Sandalar eins og Teva sandalar eru mjög hentugir til að vaða í og líka til að ganga í. Vaðskór eru auðvitað vaðskór og ef þeir eru út neopreni þá halda þeir hita á meðan vaðið er yfir ár eða læki. Það getur munað miklu ef það á að vaða eitthvað jökulkalt vatn t.d. að vetri til! Ég myndi segja að sandalar séu praktískari ef þú ert að velja á milli, en ef þú ert í sjósundi eða einhverju slíku þá er alveg sniðugt að kaupa góða neoprene skó og þá geturðu samnýtt skóna.

Ég mæli með Teva í sandölum en Xcel í vaðskóm.

Sokkar

Mikilvægt er að sokkarnir styðji vel við fótinn og eru hlýir. Göngusokkar eru alla jafna úr merino ull eða öðru efni sem þornar fljótt og heldur einangrunareiginleikum sínum að einhverju leyti þó þeir blotni. Þó er alltaf best að vera í þurrum sokkum og því mikilvægt að eiga nokkur pör til skiptana.

Mikilvægt er að gönguskórnir sem maður er í séu nógu rúmir fyrir fyrir passlega þykka göngusokka, því sokkarnir koma í ýmsum þykktum og svo er alltaf hægt að þrengja reimarnar ef maður er í þunnum göngusokkum. Mælst er til þess að maður sé bara í einu lagi af sokkum því annars geta skórnir og sokkarnir þrengt svo mikið að fótunum að það skerðir blóðflæðið og þá verður manni bara kalt. Það fer allt eftir því hvernig gönguskórnir eru, mínir þola tæplega göngusokka plús ullarsokka og því reyni ég bara að vera í passlega þykkum sokkum eftir veðráttu.

Höfuðfat

Gott höfuðfat er undirstöðubúnaður ef þú ætlar að stunda útivist af einhverju viti. Allajafna finnst mér algjört lágmark að eiga góða húfu og buff.

Húfur og eyrnabönd

Maður verður að eiga húfu sem manni finnst vera góð og þægileg. Þar sem hitinn í líkamanum leitar upp er alveg mikilvægt að húfan sé passlega hlý, þ.e.a.s. ekki of heit og ekki of köld hvort sem maður er með eða ekki með hjálm. Mér finnst einnig skipta máli að húfan sé aðsniðin svo að hjálmur passi auðveldlega yfir hana. Mörgum þykir þægilegra að nota eyrnaband en húfur en það er alltaf gott að hafa húfu með sér. Persónulega finnst mér gott að hafa bæði.

Buff og lambúshettur

Buff eru algjör snilld. Þau eru svona “all around headwear sem virka sem þunnar húfur, eyrnabönd, háls og munnklútar o.s.frv. Það er alveg mikilvægt að eiga amk eitt slíkt því buff ver mann alveg vel gegn frosti. Lambúshettur eru líka algjör snilld finnst mér en það er eins og húfa og buff í einu höfuðfati. Ég á eina lambúshettu og nota hana reglulega í miklum kulda með eða án húfu. Myndi ekki segja að lambúshetta sé skyldueign en það er gott að eiga hana.

Vettlingar og hanskar

Það er mjög persónubundið hvernig fólk kýs að halda yl í höndunum. Margir eru hrifnari af lúffum meðan aðrir vilja vera í hönskum. Ég hef verið í þunnum vindheldum vettlingum og síðan fóðraðri skíðaskel. En hægt er að vera í þremur lögum eða bara einu lagi.

Windpro flísvettlingar

Þunnir og þægilegir fingravettlingar sem henta vel á sumrin eða í hlýrri veðráttu einir og sér eða á veturna sem grunnlag. Hægt er að fá svona vettlinga hjá nær öllum útivistarmerkjum.

Ull

Hægt er að nota ull sem innra lag undir skeljavettlinga, ytra lag yfir flísvettlinga eða eina og sér. Hægt er að hafa þá þæfða og ekki þæfða. Alla jafna finnst mér alveg fínt að vera með ullarvettlinga aukalega í töskunni til vonar og vara.

Hanskar, lúffur og skeljar

Hanskar og lúffur eru í raun yrsta lag og miðlag í einum hanska eða lúffu og eru regnheldar að einhverju leyti. Hanskar henta betur ef þú vilt nota hendurnar mikið án þess að þurfa að fara úr þeim, en lúffurnar ylja aðeins betur að mínu mati. Það er bara persínubundið hvað fólki finnst þægilegt. Skeljar eru eins og lúffur bara ekki fóðraðir og eru sérstaklega hannaðar til að halda regni og vindi frá. Þá þarftu að vera í öðrum vettlingum eða miðlagi innan undir hanska/lúffuskelina til að halda yl.

Til minnis

Efni eins og bómull og gallaefni henta alls ekki sem fatnaður úti í íslenskri útivist eða útivist af svipuðu tagi vegna þess að þegar þessi efni blotna þá verða þau bæði mjög þung og rosalega köld. Þar að auki tekur þessi efni mjög langan tíma að þorna þannig þau eru sá fatnaður sem maður ætti síst að hafa með sér í lengri útivistarferðalög.

 

About The Author

Elín Kristjánsdóttir
Ritstjóri, vefstjóri og færsluhöfundur

Án Elínar væri Gekkó ekki til. Hún er stofnandi og einn af eigendum Gekkó, og nýtur hvert tækifæri sem gefst til að pakka í tösku og fara í ferðalag eða einhverskonar ævintýri. Einnig er hún líka mikið úthafs og náttúrubarn og hefur gaman að öllu sem viðkemur vatnasporti og fjallamennsku. Elín spáir mikið í mannlega þættinum og tilgangi lífsins og elskar að vinna með fólki. Hún hefur m.a. lært að kenna þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur og er því viðurkenndur kennari í Þerapíunni. Elín hjálpar fólki að öðlast sjálfstraust til að lifa lífinu á eigin forsendum.

Related Posts

2 Responses

  1. Hornstrandir | Gekkó

    […] Ég óð svo greitt yfir þennan læk að ég hrasaði ofan í hann og setti skóna á bólakaf. Það var ekki gaman. En ég reddaði því með plastpokum og þurrum sokkum. Ég mæli með VAÐSKÓM eða að fara úr gönguskónum! Meira um göngufatnað má sjá í færslunni minni Fatnaður til útivistar. […]

    Svara

Skildu eftir skilaboð

Póstfangið þitt verður ekki birt opinberlega

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.